05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

1. mál, fjárlög 1951

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég sé fyrst ástæðu til að þakka hv. fjvn. fyrir að hafa skilað áliti um fjárlfrv, og þakka meiri hl. fyrir það, sem hann hefur til málanna að leggja. Ég get ekki kvartað yfir því, að meiri hl. n. geri till., sem brjóti í bága við þá meginstefnu, sem fjárlfrv. byggist á, sem sé að fjárl. verði undir öllum kringumstæðum greiðsluhallalaus. Meiri hl. hefur að vísu gert till. til hækkunar, en um leið till. til lækkunar, þannig að nettóhækkanir eru ekki stórfelldar. Hins vegar er um nokkrar till. að ræða, sem n. flytur eftir beiðni ríkisstj.. til leiðréttingar á frv. og eru óhjákvæmilegar miðað við ákvarðanir í gildandi l.

Önnur aðalleiðréttingin er um aukið framlag vegna fjárskiptanna. Það sýndi sig, að þegar búið var að ganga frá frv. í haust, hafði verið miðað við verðlag á landbúnaðarafurðum og þá sérstaklega á sauðfjárafurðum, áður en verðlag hækkaði á þessum vörum s.l. haust, og þurfti því að leiðrétta þennan lið til samræmis við hið nýja verðlag. Hin aðalleiðréttingin er gerð vegna þess, að það sýndi sig, að fræðslumálastjóri hafði áætlað allt of lágt kostnað ríkisins við gagnfræðaskóla.

Það hefur verið nokkuð minnzt á 18. gr. við þessar umr., og tek ég undir með þeim, sem hafa talað um hana, að hún ber ekki vott um fasta skipun á eftirlaunagreiðslum, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Hún þarf endurskoðunar við, en þá þyrfti fyrst að gera upp eitt atriði í sambandi við gr., sem er nokkurt stefnuatriði. Mér hefur verið sagt, að það sé venja, — og ég held að svo hafi verið, síðan ég kom á Alþ., — að fjárveiting, sem einu sinni hefur verið sett á 48. gr., sé ávallt tekin þar inn aftur. Þetta mun því vera þingvenja, og þess vegna þyrfti Alþ. að gera það upp við sig í prinsipinu, hvort það vildi breyta út af þessari venju. Ég vil því beina því til hv. fjvn., að ég teldi mjög vel við eiga, hvort hún gæti ekki beitt sér fyrir því að athuga, hvort Alþ. vildi t.d. samþ. þál. um, að endurskoðun færi fram á 18. gr. Þá kæmi í ljós, hvort Alþ. vildi halda í gamla venju eða væri þeirrar skoðunar, að gr. þyrfti endurskoðunar við, og vil ég taka það fram, að ég mun greiða atkv. með slíkri endurskoðun, þótt þessi þingvenja hafi haft talsverð áhrif á mig fram að þessu. Ég held, að það hafi verið hv. frsm. meiri hl. fjvn., sem minntist á, að það þyrfti að koma fastara skipulagi á eftirlaunagreiðslur, og þingið hefur sífellt verið að breyta þessum greiðslum og greiða uppbætur á þær, oft í miklu ósamræmi við það, sem áður hefur verið greitt, og stundum greitt full laun, og skal ég ekki bæta við þær lýsingar, sem hafa verið gefnar í þessu sambandi. En ég teldi vel við eiga, að Alþ. gerði það upp við sig á þessu þingi, hvort það vildi láta endurskoðun fara fram á 18. gr. og koma skipulagi á þessi mál, þannig að sanngjarnt gæti talizt. Ég get vel skilið, að fjvn. eigi erfitt með að gera brtt. við 18. gr., því að til þess þarf nokkuð góðra gagna við, en að vísu liggja fyrir í fjmrn. skýrslur um það, hvað hver maður fær í eftirlaun, bæði af 18. gr. og annars staðar frá.

Ég ætla mér ekki að vera langorður, heldur ræða almennt um fjárlögin og fjárhagsástandið. Einnig mun ég víkja að afgreiðslu fjárl. og reyna að gera hv. þm. það ljóst, að við verðum að afgreiða fjárl. í því ljósi, sem fjárhagur landsins ber vitni í dag. Ef við virðum fyrir okkur hvað hefur verið að gerast hérna, hljótum við að sjá, að tekjur þjóðarinnar hafa stórlega lækkað á því ári, sem nú er að liða. Til þess liggja margar ástæður, en þessar eru helztar:

1) Það hefur orðið verðfall á aðalútflutningsvörum okkar.

2) Vörur, sem keyptar eru inn í landið, hafa hækkað í verði.

3) Markaður fyrir sumar afurðir hefur dregizt mjög mikið saman.

4) Orðið hefur mikill aflabrestur, því að veiðar hafa brugðizt.

5) Þjóðin hefur mátt þola geysilangt verkfall, sem dró mjög úr framleiðslu útflutningsafurðanna. Af þessu má vera augljóst, að þjóðartekjurnar hafa stórlega lækkað á þessu ári. Þetta á þó ekki einungis við um okkur Íslendinga. Hjá ýmsum þjóðum, sem framleiða matvæli, hefur hið sama orðið upp á teningnum, t.d. í Danmörku. Hins vegar hefur peningamagnið innlenda ekki minnkað í hlutfalli við þjóðartekjurnar. Af þessu hefur glundroðinn í efnahagsmálum okkar haldizt. Þennan glundroða köllum við vöruskort. Það er geysimikil vöruþurrð í landinu — jafnvel þótt við flytjum inn vörur fyrir 120 millj. kr. sem gjafafé. Okkur hefur sem sé ekki tekizt að mæta kaupgetunni innanlands, þótt við fáum 120 millj. kr. gefins í viðbót við þjóðartekjurnar. Þetta er aðaleinkenni fjármálaástandsins. Við höfum ekki getað dregið úr peningamagninu. Við lifum um efni fram. Auðvitað er það ofur skiljanlegt, að menn séu tregir til að þrengja lífskjör sín, því að það er nú einu sinni svo, að hver er sjálfum sér næstur og honum finnst, að nær sé að byrja á einhverjum öðrum. Þetta sjónarmið kemur greinilega fram í gengislækkunarlögunum, sem sett voru í fyrra, þar sem talað er um uppbót á laun. Síðan hafa þessar launauppbætur átt sér stað, en illa hefur gengið með framlengingu þeirra, því að grundvöllinn hefur vantað fyrir þessar uppbætur, og þess vegna hafa þær ekki komið að tilætluðum notum fyrir launastéttirnar. Þetta er ekki sagt út í bláinn, því að ef við lítum í kringum okkur, þá er þessu svona háttað. — Nú má spyrja: Hvert verður framhaldið á þessu eiginlega? Eins og málum er nú háttað, síminnkandi þjóðartekjur, þá geta almennar kauphækkanir ekki komið að haldi fyrir launastéttirnar. Þær eru ekki teknar sem gróði á útflutningsframleiðslunni og geta því ekki komið fram öðruvísi en sem verðhækkanir og mundu þannig hafa þá tilhneigingu að minnka þjóðartekjurnar enn þá meira og þannig stuðla að því að draga enn meira úr framleiðslunni. Staðreyndirnar eru nú augljósar. Kauphækkanir geta ekki haft aðrar afleiðingar, meðan útflutningsframleiðslan eykst ekki. Hér verður að krefjast fullrar ábyrgðar af trúnaðarmönnum launasamtakanna. Nú er ég ekki að segja, hvað verður ofan á, hvort launahækkanir verða leyfðar eða ekki, en ef horfið verður að því ráði, þá liggur í augum uppi, að þá mundi verða heimtað, að fjárl. yrðu afgreidd með enn meiri tekjuafgangi en þyrfti. Fjárlagafrv. er í rauninni smækkuð mynd af hinu almenna fjárhagsástandi. Meiri hl. fjvn. miðar við, að tekjur og gjöld standist á, og er þá vísitalan áætluð 115 stig. Ef kaupið hækkar hins vegar, þá verður að leggja á nýja skatta til þess að mæta þessum gjöldum ríkissjóðs. Þetta vil ég benda á viðvíkjandi hinu almenna fjárhagsástandi okkar. Það væri hægt að fá fróðlegan samanburð um fjárhagsleg efni með því að vísa til annarra landa. Í Noregi er að sumu leyti svipað ástand og hér, — þar hafa þeir of mikið af peningum í umferð. Og ráðið, sem Norðmenn hafa tekið til að vega á móti því, er að afgreiða fjárlögin með stórkostlegum tekjuafgangi. Hjá Dönum hefur einnig hallað undan fæti, og hafa þeir orðið að minnka fjármagnið og leggja á nýja skatta til þess að koma í veg fyrir verðbólgu. Nú er reynt að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus, en til þess að komast út úr öngþveitinu, þyrfti að afgreiða þau með miklum tekjuafgangi og miklu hagstæðari en í þessum tillögum, sem hér liggja fyrir.

Þá skal ég minnast nokkuð á hinar verklegu framkvæmdir, er mjög hefur verið deilt á í sambandi við fjárlagafrv., — og hafa hrotið af vörum manna stór orð í þessu tilliti, og einkum þó hjá hv. 6. landsk. Ég vil þá fyrst biðja hv. þm. að gera sér grein fyrir því, að það eru fleiri verklegar framkvæmdir fyrirhugaðar en eru á fjárlfrv. Þetta hefur verið kallað fjárfesting. Þeir möguleikar, sem þjóðin hefur til fjárfestingar, eru tvenns konar: 1. þjóðartekjurnar, 2. lán. — Nú er spurningin: Hvað vilja menn nota mikið af þjóðartekjunum til framkvæmda og hvað mikið til kaupa á neyzluvörum? Og hér skulu menn gera sér ljóst, að það er ekki hægt að nota sömu krónuna tvisvar. Þannig horfir þetta við. Hvað er nú miklu fé varið til fjárfestingarinnar? Það mun vera um 500 millj. á þessu ári. Við sjáum þá, hversu geysimikil aðstoð Marshallhjálpin hefur verið okkur. Nú horfir dæmið þannig við: Við ætlum að halda áfram með Sogið og Laxárvirkjunina og byrja á sementsverksmiðju. Til þessa á að verja 130 millj. kr. á næsta ári, og er þetta að miklu leyti hrein viðbót við þennan lið fjárlaganna. En hv. 6. landsk. talaði eins og hann vissi ekki um, að þessar framkvæmdir stæðu fyrir dyrum. Það veit náttúrlega hver maður, sem gerir sér þetta ljóst, að meðan svona geysimiklar framkvæmdir eru hafðar á hendi, þá verða aðrar framkvæmdir að víkja í bili. Annars mundi verðbólgan halda áfram að vaxa, og er þá óséð fyrir endann á henni. Þessu er ekki unnt að halda áfram, ef verðbólgan vex. En hversu lengi getum við treyst á gjafaféð? Er þá einnig auðséð, að þessar framkvæmdir hljóta einnig að takmarka eða draga úr framkvæmdum einstaklinga frá því, sem var í fyrra, ef öngþveitið á ekki að verða botnlaust. Það verður að teljast mjög vafasamt, að allar þessar verklegu framkvæmdir, sem nú eru fyrirhugaðar, geti staðizt á fjárlögum, hvað þá heldur meiri. Þess vegna er nú sýnilegt, að allt málæði hv. 6. landsk. var út í hött sagt. Það standa nú til svo miklar opinberar framkvæmdir, þegar menn taka skýluna frá augunum, að það er vafasamt, hvort hægt sé að finna rúm fyrir þær allar í fjárlögum.

Í þessu sambandi er rétt að athuga það, hvort telja eigi framkvæmdir hins opinbera rétthærri en framkvæmdir einstaklinga. Er það rétt eða rangt að banna t.d. að byggja súrheysgryfju eða íbúðarhús? Nú getur svo staðið á, að þetta sé nauðsynlegt. Nú er fjárhagur ríkisins svo þröngur, að ekki er hægt að leyfa einstaklingum að byggja. Hvaða vitglóra væri þá í því, að ríkið hjálpaði til þess að auka verðbólguna enn meira? Því eru takmörk sett, hvað hægt er að verja miklu fé til framkvæmda á einu ári. Hvað vilja menn þrengja mikið að sér og minnka sína neyzlu til að verja sem mestu fé til framkvæmda? Hér skulu menn enn minnast þess, að ekki er hægt að nota sömu krónuna tvisvar. Ef við neitum að þrengja nokkuð að okkur, þá verður litlu eða engu hægt að verja til verklegra framkvæmda, heldur étum við allt út. Í kjölfar þess hlýtur að koma atvinnuleysi. Er það það, sem þessir menn vilja? Það er léleg pólitík að berja höfðinu við steininn og neita þessum staðreyndum.

Höfuðatriðið er þetta: Hvað getum við varið miklu fé til framkvæmda, og hvaða framkvæmdir eiga þá að sitja fyrir?

Ég held, að hv. 6. landsk. hafi litið kynnt sér, hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir aðrar verklegar framkvæmdir. Ef hann vildi auka möguleikana á verklegum framkvæmdum, mundi hann ekki flytja þessar brtt., heldur flytja aðrar till., þar sem lagðir væru á nýir skattar, er síðar skyldi verja til þessara framkvæmda. Að öðrum kosti er ekki hægt að líta á till. hans öðruvísi en sem sýndartill.

Fyrir 3. umr. verður athugað, hvernig þessi mál standa, að hve miklu leyti hægt verður að gripa til skattaálagningar, hvort möguleikar verða fyrir ríkið að hafa allar þessar verklegu framkvæmdir á hendi. Áreiðanlega er nú þannig ástatt, að það er vafasamt, hvort þessar áætlanir geti staðizt.

Þá mun ég ekki ræða meira almennt um þetta mál. Hv. 6. landsk. þm. vill gera lítið úr sparnaði ríkisstj. Ég vil vara menn við að vera allt of bjartsýna um þetta atriði, og það hef ég ætíð gert áður. Ég hef reynt að gera mér ljóst, hvað áætlaður sparnaður mundi nema hárri upphæð. Miða ég við þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar og áætlað er að gera. Býst ég við, að þessi sparnaður sé um 4 millj. kr. á ári, en auðvitað er þetta ágizkun. Í þessu sambandi er lagt til að leggja niður sendisveitina í Moskva, draga mjög úr kostnaði við skömmtunarskrifstofuna, hafa rekstur áætlunarbifreiðanna ekki á vegum ríkisins, sameina einkasölu áfengis og tóbaks o.fl. Hef ég áætlað, að sparnaður af þessum ráðstöfunum mundi nema 4 millj. kr.

Þá var og auðheyrt, að hv. 6. landsk. hafði lítið kynnt sér málið um niðurlagningu skattdómaraembættisins og laun presta. Hann ætti að vita, að það er skylt að borga hálf laun, ef viðkomandi gegnir einnig öðru embætti. Hv. þm. sagði, að sparnaðartillögur ríkisstj. væru einungis fólgnar í því að leggja niður 6 eða 7 embætti, en till. eru um miklu víðtækari breyt., eins og ég hef gert grein fyrir. Hv. þm. sagði, að fjölgað hefði starfsmönnum, en hv. þm. þarf ekki að halda, að svo vel sé öllu fyrir komið, að engu þurfi að breyta. Hann sagði, að ákveðið væri að ráða nýjan fulltrúa á Akranes, en honum er ætlað að gegna skrifarastörfum; að nýr skógarvörður væri ráðinn, en hann var áður í þjónustu ríkisins, svo að það er ekki nema 1/2 maður. Enn fremur sagði hv. þm., að tvö ný dýralæknisembætti hefðu verið stofnuð, en málum er þannig farið, að ekki hafa fengizt menn til að gegna þessum embættum fyrr en nú. Þannig var þessi sparðatíningur hv. þm.

Þessi hv. þm. sagði, að liðir embættisbáknsins hefðu hækkað. En af hverju stafar þessi hækkun? Launin hafa verið hækkuð, og skyldi hv. þm. hafa verið á móti því? Nei, þvert á móti hygg ég hann hafi viljað hafa þau hærri, og engin tili. er enn komin frá hv. þm. um lækkun á þessum liðum. Einnig sagði hv. þm., að enginn niðurskurður væri á lítt nauðsynlegum eyðslugreinum. Hvers vegna kemur hann ekki með till. í þá átt? Ég held, að það sé lítið upp úr svona tali leggjandi.

Þá er það sýnishorn á málflutningi hv. þm., þegar hann segir, að á Keldum séu manni nokkrum greidd laun og sama manni greidd laun hjá sauðfjársjúkdómanefnd. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm., og þegar ég spyr, hvaða maður þetta sé þá segir hv. þm.: Ráðherra spyr ekki af því, að hann viti ekki. — Hvílíkur barnaskapur hjá hv. þm. að ímynda sér, að fjmrh. viti um allar greiðslur, sem greiddar eru úr ríkissjóði.

Hv. þm. taldi, að kostnaður við utanríkisþjónustuna væri of mikill. Í því sambandi má minna á, að Alþfl. var á móti fækkun sendiherra á Norðurlöndum. Hv. þm. sagði, að leiðinlegt væri, hve hljótt hefði verið um þá sérfræðilegu rannsókn, sem fram hefði farið á starfsemi og högum ríkisins og greint væri frá í fjárlögum. Það hefur verið skýrt frá því þar, að hingað hefði fengizt amerískur ráðunautur á vegum ríkisins og Reykjavíkurbæjar, og ætlaði hann að gera till. um breyt. og sparnað í rekstri ríkisins og bæjarins. Hann var hér í 10 daga og fór síðan heim og ætlaði að senda till. sínar þaðan. Fyrstu ábendingar hans eru nú að koma til landsins. Ég hafði haldið, að heppilegt væri að nota meiri vélar við skrifstofuhald og bókhald, en nú kemur það í ljós, þegar málið er athugað, að flestar skrifstofurnar eru of smáar og erfitt að koma vélum þar við, svo að sparnaður verði að. Það væri þá helzt hjá tollstjóra og annars staðar, þar sem margt fólk vinnur. Þessum athugunum verður haldið áfram á því, hvað hægt sé að gera í sparnaðarátt.

Ég segi það sama um þetta mál og ég hef alltaf sagt, að það er vafalaust hægt með nákvæmri rannsókn að koma á nokkrum sparnaði, en það verður ekki neitt, sem veldur byltingu í ríkisrekstrinum, ekkert, sem veldur tímamótum í sparnaði ríkisins.

Annars er dálítið gaman að heyra þá hv. 6. landsk. og hv. 5. landsk. ræða um sparnað í starfsmannahaldi ríkisins. Í sumar, þegar farið var að hugsa um að fækka starfsmönnum ríkisins, rauk Alþýðublaðið upp með offorsi og svívirti stjórnina fyrir að reka starfsmenn ríkisins út á gaddinn. Til marks um málfærslu hv. þm. nægir að nefna eitt dæmi. Hann deilir á fjmrh. fyrir að hafa beitt niðurskurðarhnífnum á framlög til sjávarútvegsins. Framlög til sjávarútvegsins hafa lækkað, það er alveg rétt. En hvernig stendur á þessari lækkun? Þau hafa lækkað vegna þess, að framlög, sem búið er að fullgreiða, eru tekin út af fjárlögum. Svo kemur hv. þm. og segir, að fjmrh. hafi beitt hér niðurskurðarhnífnum. Hv. þm. hefði getað talað um nauðsyn nýrra gjalda, en þetta missir algerlega marks.

Þá kemur að aðaltill. hv. þm., en þær eru að hækka tekjuáætlunina um 32 milljónir og útgjöldin um það sama. Með þessum till. kemur skýrt í ljós, hve mjög hv. þm. hefur vanrækt að kynna sér höfuðatriði þessa máls. Ég get ekki tekið allt, sem hv. þm. sagði, til meðferðar, en verð að láta mér nægja höfuðatriðin. Hv. þm: tók fyrst tekjuskattinn og telur óhætt að áætla hann 40 millj. Eins og tekið er greinilega fram í frv., var tekjuskatturinn s.l. ár 42 millj. Í þessu sambandi talar hv. þm. um, að 1. nóv. hafi verið búið að innheimta 19 millj. Enginn er feitari, þó að búið sé að innheimta þetta mikið 1. nóv. Þeim mun minna er þá eftir. Hið rétta í þessu er, að í ár getur tekjuskatturinn ekki orðið meiri en 42 millj., ef hann þá hangir í því. Næsta ár hlýtur hann að verða minni vegna minni tekna; t.d. í iðnaði og verzlun hljóta tekjurnar að verða mun minni en í ár. Um þetta hefði ég treyst mér til að sannfæra hv. þm. á 2–3 mín., ef hann hefði spurt mig. — En nú versnar um allan helming. Hann vill hækka áætlun á verðtolli í 78 millj. og talar um í því sambandi, að 1. nóv. hafi verið búið að innheimta 46 millj. Nú var gengislækkunin að vísu ekki komin 3 fyrstu mánuði ársins, en það er útilokað, að verðtollur hefði orðið meiri en 5052 millj. á þessum tíma, þó að hún hefði verið. Segjum, að 15 millj. bættust við það, sem eftir er; þá yrði verðtollurinn 65 millj. allt árið. Verðtollurinn bregzt um 15 millj. í ár, en samt vill hv. þm. áætla hann 78 millj. næsta ár. Við fáum 120 millj. í gjafafé, og hvernig á að auka innflutninginn, þegar því framlagi lýkur? Með útflutninginn getur brugðizt til beggja vona. Ef heppnin er með framleiðslunni, getur svo farið, að hann aukist nokkuð, en eins og málum er háttað í dag, mundi ég telja óvarlegt að reikna með því. — Og ekki batnar, þegar hv. þm. fer að ræða um söluskattinn. Hv. þm. segist hafa kynnt sér það, að 1. nóv. hefði hann verið 9 millj. kr. hærri en á sama tíma í fyrra. Ég hefði getað upplýst hv. þm. um það, að söluskatturinn hefur verið innheimtur örar í ár en í fyrra. Áætlun fjárl. á honum er byggð á algerri hliðstæðu við verðtollinn, og ég tel ekkert vit að hækka þá áætlun. Á ræðu hv. þm. gat ég ekki skilið annað en hann áliti, að bifreiðaskatturinn væri benzínskattur. — Hv. þm. gerir ráð fyrir góðu brennivínsári næsta ár, þegar hann heldur því fram, að tekjur af einkasölu áfengis og tóbaks fari fram úr áætlun. Mér finnst líklegt, að gera megi ráð fyrir minnkuðum tekjum af því á næsta ári vegna þrengri fjárhags almennt. Það er ekkert vit að áætla óvarlegar en gert er, því að alveg er gefið, að sumir gjaldaliðirnir fara fram úr áætlun.

Ég vil ekki frekar elta ólar við ræðu hv. þm. Hann vill hafa á þessu gamla lagið, hækka framlög til bátaútvegsins og almannatrygginga, án þess að afla nýrra tekna á móti. Í rauninni eru tillögur hans í því fólgnar að leggja til, að fjárl. verði afgr. með 32 millj. kr. halla í viðbót við það ástand, sem er fyrir, eins og þetta væri ábyrgðarlaust með öllu. Till. mín um sama framlag til trygginganna og í fyrra er byggð á því, að undanfarin ár hafa tryggingarnar haft mikinn gróða, sem þær hafa lagt í vara- og rekstrarsjóði; gróða, sem þær geta fært milli ára til að mæta tapi. Vegna þess, hve erfitt er að afgreiða fjárlögin hallalaust, tel ég vel forsvaranlegt að hafa þetta framlag ekki hærra en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir. Sennilega yrði að hækka þetta framlag fljótlega, en engin hætta er á fjárþurrð trygginganna á næsta ári.

Ég vil svo láta máli mínu lokið, en færa formanni og meiri hl. fjvn. þakkir fyrir góða samvinnu.