05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

1. mál, fjárlög 1951

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 291 tvær brtt., aðra við frv. sjálft, við 12. gr., að á eftir 10. lið komi: Til byggingar sjúkrahúss á Siglufirði 200 þús. kr. Þetta er mikið nauðsynjamál, sem Siglufjarðarkaupstaður hefur lengi haft á döfinni og hefur unnið að undirbúningi á eftir fjárhagsástæðum, og því er ekki farið fram á hærri upphæð en hér um ræðir. Allir, sem þekkja nokkuð til þessa máls, vita, að mikil þörf er á nýju sjúkrahúsi á Siglufirði. Það gamla er nú orðið röskra 20 ára og óhentugt að mörgu leyti, en engin tök á að stækka það. Nýtt sjúkrahús á Siglufirði er mjög aðkallandi, ekki einungis fyrir bæjarmenn, heldur og fyrir aðkomufólk, sjómenn og verkamenn, og hafa oft skapazt hin mestu vandræði við að koma þessu fólki fyrir í þessu litla sjúkrahúsi. Ég vænti þess, að hv. þm. sýni þessu máli fullan skilning og ljái því atkvæði sitt.

Í öðru lagi er brtt. um, að framlag til Siglufjarðarhafnar verði 220 þús. kr. í stað 100 þús. kr., sem brtt. á þskj. 252 segir til um. Þegar litið er yfir þær till., sem eru um framlög til hafnarmannvirkja, þá kemur í ljós, að hafnirnar á Akranesi, Akureyri, Hafnarfirði og Patreksfirði eru allar settar með 220 þús. kr. framlag. Ég tel, að svipað standi á um Siglufjörð og þessa staði og ekki rétt, að hann gangi með skertan hlut frá borði. Það er nú svo komið, að mikill hluti hafnarinnar er lítt nothæfur, og menn óar við að byggja upp þá gömlu. Það liggja fyrir áætlanir frá verkfræðingi, sem fjalla um það að koma betra skipulagi á athafnasvæði handa skipunum. Það er meiningin að byggja stuttar bryggjur, sem yrðu hentugri og praktískari en þær löngu, sem eru mjög til erfiðis vegna þess, hve uppskipun gengur þar seint og vinna í landi er erfið. Þetta er mikið nauðsynjamál, og virðist sanngjarnt, að Siglufjörður sitji við sama borð og þeir staðir, sem ég nefndi áðan, og fái þá hækkun, sem farið er fram á í brtt. Ég vænti þess svo, að þm. taki þessu máli með skilningi og veiti till. fylgi sitt.