14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

1. mál, fjárlög 1951

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Það er bersýnilegt, að sumir hv. þm., sem um þetta mál hafa talað hér, óttast, að hér sé verið að mynda fordæmi, sem sé óviðkunnanlegt, og vilja ekki skerða þann sið, sem hér hefur ríkt, og þann rétt, sem skv. þingsköpum gildir við umræður um fjárlög og mál almennt í útvarpinu. Ég vil benda þeim á, að mér finnst ekkert vera að óttast í þessu efni. Í fyrsta lagi er fordæmið þannig, að það er samkomulag milli forseta og þingflokkanna allra, þar á meðal stjórnarandstöðunnar, og fordæmið getur þar af leiðandi undir engum kringumstæðum verið hættulegt. Í öðru lagi: Mér skilst, að það sé ekki verið að flýja undan því að ræða málin með þessu, heldur hitt, að það er talin nauðsyn að afgreiða fjárlögin fyrir jól, og menn eru sammála um, að útvarpsumræður á þessum dögum, sem eftir eru til jóla, mundu ekki hafa mikla þýðingu, því að þetta er sá tíminn á árinu, sem sízt er hlustað vegna annríkis, eins og allir vita. Það er því verið að fullnægja enn þá betur því sjónarmiði að ræða frammi fyrir alþjóð á þeim tíma, sem bezt er hlustað, þau mál, sem rædd eru í eldhúsdagsumræðunum. Í þriðja lagi: Viðvíkjandi því, að þetta mál verði ekki á dagskrá eftir jólin, held ég satt að segja, að menn þurfi ekki að bera kvíðboga fyrir því, að það sé ekki hægt að koma þessum umræðum þannig fyrir eftir jólin, að það verði ásteytingarsteinn. Eins og allir þingmenn vita, og einnig hv. þv. V-Húnv., þá er ekki alltaf verið svo nærri fjárlögunum sjálfum í eldhúsdagsumræðunum; það hefur komið fyrir, að það hefur aldrei verið á þau minnzt. Ég viðurkenni fyllilega réttmæti þess að koma með athugasemdir um þetta, og það sé tekið til athugunar, hvort hér sé verið að skapa fordæmi, sem geti verið hættulegt. En af þessum þremur ástæðum, sem ég nefndi, held ég að það sé alveg ástæðulaust að óttast það. Þetta verður ekki gert, nema samkomulag sé við stjórnarandstöðuna um það. Það ber að fara varlega með allt slíkt, en það ber einnig að athuga, að eins og ég sagði, þá er verið að framfylgja betur því sjónarmiði, sem fara á eftir, með því að hafa umræðurnar eftir nýár, en ekki nú í mesta annríki ársins. — Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram um þetta.