14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

1. mál, fjárlög 1951

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefði getað látið það nægja, sem ég sagði áðan, ef hv. 2. þm. Reykv. hefði ekki gefið í skyn, að ég mundi vilja virða að vettugi yfirlýsingu hæstv. forseta. Um það sagði ég ekkert, heldur benti ég á þann rétt, sem forseti hefur, hver sem hann er, við fundarstjórn. Það er ekki hægt að vefengja.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að engin lagafyrirmæli hefðu verið um eldhúsdagsumr., heldur aðeins venja, þá vissi ég það, en það er venja, sem er búin að fá lagagildi og er ákvörðuð í þingsköpum, hefur þar sérstaka merkingu og er sett í samband við sérstakt mál og er ákvarðaður sérstakur tími. Þar með er þessi athöfn búin að fá lagagildi, sett á þann fullkomnasta hátt næst stjórnarskránni af Alþingi sjálfu. En hve örlagaríkt það gæti verið að samþ. mikil frávik frá þeim ákvæðum, má ráða af því, að hv. 1. þm. Eyf. grípur til þess til að sannfæra menn um, að hér sé ekkert sérstaklega íhugunarvert, að áður hefði verið veitt undanþága frá þingsköpum um eldhúsdagsumr., þær ættu að fara fram við 1. umr., þegar fjvn. hefði skilað áliti og till., en nú hefðu þessar umr. verið færðar yfir á 3. umr. Nú vildi hann færa þessar umr. yfir á allt annað mál, eftir að það mál er afgr. og orðið að l., sem þingsköp mæla fyrir um að eldhúsdagsumræður skuli fara fram í sambandi við. Þetta sýnir, hve fordæmin kunna að geta verið varhugaverð, að jafnvel þessi hv. þm., sem er gætinn og vill hafa fyllstu aðgæzlu í þessu efni, grípur þó í þetta hálmstrá til þess að réttlæta, að þetta sé eiginlega ekki svo mikið, þó að þessar umr. fari fram í sambandi við allt annað mál, og sennilega að þessar umr. fari fram með þeim tíma, sem l. áskilja að sé við eldhúsdagsumr. í sambandi við fjárl., en nú eiga þær að fara fram í sambandi við allt annað mál eða ekkert mál, og þá er frávikið orðið talsvert. Og hvað verður þá það næsta?

Mér finnst óþarft að hafa þetta form, og við getum komið því fyrir með öðru móti, en þó á þann hátt, að það verði ekki síðar notað af öðrum mönnum til að ganga enn lengra.