14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

1. mál, fjárlög 1951

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil til að byrja með þakka fjvn. fyrir góða samvinnu. Annars get ég verið fáorður um mínar brtt., því að fyrir þeim öllum var gerð grein á þingfundi í gær.

Hér á þskj. 394 eru till. til hækkunar, og er miðað við sama tekjuauka og ég áætlaði í gær, eða 91/2 millj. kr. 6. brtt. er um almannatryggingar, að fyrir 17300000 kr. komi 18750000 og fyrir 4800000 komi 5 milljónir. Þetta er gert vegna þess, að ef greiða á hærri verðlagsuppbót en 115, verður ekki hjá því komizt að greiða hærri styrk, og er hér lögð til 1550000 kr. hækkun. — Hækkun til sjúkrasamlaga er áætluð 200 þús. kr., og er samkomulag um það milli hv. meiri hl. fjvn. og fjmrh., en um þetta er nú fjallað í Ed.

7. liður er um vantalda verðlagsuppbót, 5 millj. kr., og svo ákveðið, að greiða skuli verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna miðað við vísitölu 122. Það er stefna ríkisstj. í þessu vandamáli að lögbjóða ekki frekari uppbætur en hér er gert, miðað við 122, og mun koma um þetta brtt. í Ed. um að breyta gildandi lögum. Ákveðið var að greiða laun opinberra starfsmanna fyrir næsta ár með 122 vísitölustigum. Allir sjá, að það er enginn ávinningur að því að lögbjóða hærri launauppbætur. Laun hafa hækkað um 22% eftir gengisbreytinguna, en það verðlag, sem útflutningsframleiðendur þurfa við að búa, er óbreytt. Það er augljóst, að launahækkanir hljóta að koma fram, en um niðurstöðurnar af þessu má vísa til skilmerkilegrar skýrslu samtaka launþeganna, sem ekki verður um deilt. Annars er nægilegt í þessu sambandi að vísa til þess, að í löndum, sem næst eru okkur, er þessu þannig fyrir komið, að reynt er að miða greiðslur við það, sem þjóðarbúskapurinn getur staðið undir, og nægir að vísa til ráðstafana, er nýlega voru gerðar í Noregi og í öðrum löndum. En um uppbæturnar verður rætt nánar í sambandi við löggjöf, sem er í undirbúningi, þess efnis, að lögbjóða ekki atvinnurekendum að greiða meira en 122 stig, og geta þeir þá gert það upp við sjálfa sig, hvað bezt er að gera í þessu undir ýmsum kringumstæðum. En hins vegar sé ákveðið, að það sé ekki forsvaranlegt fyrir ríkisstj. að lögbjóða frekari uppbætur.

Loks er lagt til í 8. brtt., við 20. gr. frv., að veita 1 millj. kr. til byggingar áburðarverksmiðju. Verið er að vinna að því að koma þessu af stað, en endanlegt samkomulag um málið hefur ekki náðst, en mér þykir sjálfsagt, að Alþingi sýni áhuga sinn í þessu máli og veiti nú í fyrsta sinn fjárupphæð til þess, en eins og menn muna, þá á ríkissjóður að setja 6 millj. kr. í stofnkostnað verksmiðjunnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta eða ræða um aðrar till., nema eina brtt., sem nú er í prentun. Það er till. frá 8. þm. Reykv. o.fl. um að veita ekkju séra Árna heitins Sigurðssonar eftirlaun. Ég hafði hug á að flytja þessa till. sjálfur, en af vangá var það ekki gert. Ég vil eindregið leggja til, að hún verði samþ., en hún er um 6 þús. kr. eftirlaun til ekkjunnar. Mér þykir vel við eiga, að þessari ekkju verði greidd eftirlaun, þó að maður hennar væri ekki starfsmaður ríkisins, en hann var útvarpsprestur um leið og hann var fríkirkjuprestur, og finnst mér vel við eigandi að veita ekkju hans stuðning. Fjvn. vildi ekki taka þessa brtt. upp af prinsipástæðum, en mér finnst þetta ekki geta skapað neitt slæmt fordæmi, auk þess sem ég sé, að fjvn. leggur til að veita konum eftirlaun, sem eru ekkjur manna, sem ekki störfuðu í þjónustu ríkisins.