14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónason):

Herra forseti. Fyrst enginn ætlar að nota tímann, þá ætla ég að segja nokkur orð. Ég vildi í sambandi við ræðu menntmrh. út af þjóðleikhúsinu spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort ekki væri heppilegra að greiða sérhverjum starfsmanni sín ákveðnu laun. Hvers vegna eru 1. um þetta efni höfð svo óljós? Ég vil benda á það í sambandi við þetta, að ég sé ekki samræmi í því, að þjóðleikhússtjóra séu greidd hærri laun en yfirverkfræðingi. Ég geri nú varla ráð fyrir því, að leikhússtjóri eða leiksviðsstjóri séu svo miklir listamenn, að þeir fari í þann flokk, en hitt getur svo verið, að alþm. vilji, að þeir hafi hærri laun, og þá er bezt að fá úr því skorið á þingi, hvað þeir skuli hafa í laun, og þá er hægt að taka þau inn á fjárl. Ég hef að vísu alltaf haft aðra skoðun á launalögunum en aðrir þm., og skal ég ekki fjölyrða frekar um þau hér.

Út af ræðu hv. frsm. samvn. samgm. vil ég mótmæla þeirri skoðun, sem þar kom fram. Hann sagði, að fjvn. hefði fallizt á að taka till. hennar upp óbreytta. En hvorki fjmrh. né aðrir hafa viljað ræða þetta við n. Það er hægt að spara þarna allmikið fé, ef vilji er fyrir hendi til sparnaðar, en sá vilji virðist ekki vera til staðar hjá hv. frsm. samgmn. né ráðherra, þó að hann vilji spara á öðrum sviðum. Því hefur fjvn. ekki tekið þessa till. upp, og hún mælir þá heldur ekki með, að till.samþ. óbreytt. N. lætur það algerlega afskiptalaust.

Till. í sambandi við ekkju Árna, Sigurðssonar mun ég ræða um síðar, en verið er að leita upplýsinga um það mál í samráði við ríkisstjórnina.

Að síðustu vil ég segja það í sambandi við beiðni Leikfélags Reykjavíkur, að hún var tekin fyrir hjá fjvn., en fékk ekki fylgi, en ég geymi mér rétt til að fylgja þeirri till. Ég hef reynt að kljúfa ekki fjvn. og standa á móti öllum öðrum till., en þetta finnst mér vera svo mikið sanngirnismál, að ég áskil mér rétt til að hafa þar óbundnar hendur. Og það er misskilningur, að þetta sé fram borið til að lækka nokkuð gengi þjóðleikhússins. Í fyrsta lagi elur það upp nýja leikkrafta handa þjóðleikhúsinu, og í öðru lagi er það fjárhagslegur styrkur fyrir það, því að af hverri krónu fær þjóðleikhúsið ákveðinn hluta, og ef nægilega mörg leikhús væru til að starfa sjálfstætt, þá væri létt þeirri byrði af ríkissjóði að halda þjóðleikhúsinu uppi. Af þessari ástæðu vil ég geyma mér rétt til að greiða mitt atkv. með þessari till.