14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

1. mál, fjárlög 1951

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég á tvær brtt. á þskj. 402. Sú fyrri, till. II., er um að hækka framlag til læknisbústaða, sjúkraskýla og sjúkrahúsa, fyrir utan Akureyri og Reykjavík, úr 500 þús. í 700 þús. kr., og þar af fari til sjúkrahússins á Blönduósi 200 þús. kr. Ég fór fram á það á s.l. þingi að taka upp fé til þessa sjúkrahúss. Það er ekki hægt að byrja á því vegna skorts á fé. Kunnugt er, að samkvæmt gildandi l. á ríkissjóður að leggja fram 2/3 kostnaðar. Á fjárlagafrv. er 500 þús. til sjúkrahúsa og læknisbústaða utan Reykjavíkur og Akureyrar. Sjá allir, hvílík fjarstæða það er. Til samanburðar þá eru ætlaðar 3,3 millj. kr. til skólabygginga. Ekki er heldur hikað við að bæta 5 millj. kr. til launahækkunar handa embættismönnum og starfsmönnum ríkisins. Ég hef rætt um þetta mál við landlækni og forsrh., og þeir hafa tjáð mér, að af þessum 500 þús. yrði ekkert veitt til sjúkrahússins á Blönduósi. Báðir játa þeir, að um mikla nauðsyn sé hér að ræða. Landlæknir leyfir mér að hafa það eftir sér, að þarna væri höfuðnauðsyn á sjúkrahúsi og hvergi eins mikil og þar. Það mætti segja, að sjúkrahúsið á Sauðárkróki væri lík nauðsyn, en önnur sjúkrahús koma ekki til samanburðar. Eftir viðtal, sem ég átti við hæstv. forsrh., sem einnig er heilbrmrh., veit ég, að hann skilur fullkomlega, að bygging þessa sjúkrahúss er brýn þörf. Það fer sívaxandi þörf þess að byggja þetta sjúkrahús, og hefur það komið æ betur í ljós síðan skipakomur til Skagastrandar færðust í aukana og sjúklingum, sem sækja til Blönduóss, fjölgaði. Forráðamenn Höfðakaupstaðar hafa jafnvel talið æskilegt, að læknishéraðið yrði tvískipt. Það mundi þó geta bjargazt að hafa það eins og nú er, þó að álit landlæknis sé, að æskilegt væri, að því væri tvískipt. Og það er víst, að þetta mundi bjargast, ef byrjað yrði á því að byggja þetta sjúkrahús, sem hér um ræðir. Ég get upplýst hér, að miklu fé hefur verið safnað í héraðinu til byggingarkostnaðar.

Ég ætla þá ekki að hafa fleiri orð um þessa till., en vík orðum mínum að annarri till., sem ég á hérna og er nr. XXVII á sama þskj. Við 2. umr. flutti ég till. um vernd á ríkisjörðinni Saurbæ, að ríkissjóður legði fram 30 þús. kr. til fyrirhleðslu. Samkomulag hefur ekki náðst um að taka upp fjárframlag til þessa verks. Áætlun hefur verið gerð um þetta, og fór vegaverkstjóri í héraðinu yfir hana og taldi, að verkið yrði dýrara en áætlað var. Hann taldi, að ef gera ætti örugga fyrirhleðslu, mundi hún kosta að minnsta kosti 70–80 þús. kr. Það er minnkun fyrir ríkið að láta jarðir í sinni eigu leggjast í eyði. En ef ekki fást fjárframlög til viðhalds jörðunum, er þetta óhjákvæmilegt. Þá er ekki um annað að ræða en selja ábúendunum jarðirnar og láta skeika að sköpuðu, í hvaða framkvæmdir þeir geta ráðizt. Það ráð mætti ef til vill helzt taka að rækta nýtt tún fyrir ofan brekkur, því að þar fyrir neðan er það útilokað. Það er lítið í sölurnar lagt af hálfu ríkisins, þó þessi till. yrði samþ., sem er um að heimila að selja þessa ríkisjörð ábúanda fyrir 3/4 hluta af fasteignamatsverði, vegna þess að tún og engi er mjög illa farið, en ekkert framlag hefur fengizt úr ríkissjóði til fyrirhleðslunnar. Þessi jörð er í erfðaábúð, og er ráðh. heimilt að selja hana á fasteignamatsverði eins og er. Heimildin er því aðeins um að lækka það um 1/4. — Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa till. og vænti, að henni verði tekið vel af hv. þm. Út í almennar umræður um fjárlfrv. ætla ég svo ekki að fara.