14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

1. mál, fjárlög 1951

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ber hér fram eina brtt., ásamt öðrum þm. Í henni er lagt til að hækka framlag til íþróttasjóðs úr 500 þús. í 600 þús. kr. Ég hef áður gert tilraun til að fá þessa hækkun, en hún náði ekki fram að ganga. Ég ætla að takmarka mál mitt, en gefa tölulegar upplýsingar til stuðnings máli mínu. Ef þm. vilja festa sér þær tölur í minni, geri ég mér vonir um að fá fylgi fyrir till. í þinginu. Það er eðlilegt, að menn lendi í ágreiningi og reiptogi við afgreiðslu fjárl., eins og afgreiðslu þeirra er háttað. Íþróttasjóður hefur því hlutverki að gegna að styrkja íþróttastarfsemi í landinu, og veitir hann 40% af styrkjunum, en 60% eru veitt úr sveitar- og bæjarsjóðum. Í Laugardal er nú unnið að mestu íþróttavallargerð landsins, sem verður höfuðleikvangurinn, þegar hann verður upp kominn. Alls hefur verið komið upp fjórum leikvöngum í bænum, sem eru notaðir af öllum, og hefur Reykjavíkurbær lagt um 21/2 millj. kr. til þessara framkvæmda. Á sama tíma hefur verið lagt úr íþróttasjóði um 290 þús. kr. Fyrir utan þessar 21/2 millj. kr. á fjórum árum hefur bæjarsjóður lagt mikið fé til annarra íþróttavalla, sem bæjarsjóður stendur einn að, en eru skoðaðir til almenningsnota, og nemur sú upphæð 450 þús. kr. í 4 ár. Í þessi fjögur ár eru það samtals 1 millj. og 800 þús. kr. Bæjarsjóður Reykjavíkur hefur þá lagt fram á síðustu fjórum árum 4 millj. 340 þús. kr., en á mótí hefur komið úr íþróttasjóði 290 þús. kr. Ef hins vegar er reiknað með 40% á móti heildargjöldunum, ætti framlag úr íþróttasjóði að hafa verið 1 millj. 736 þús. kr. í staðinn fyrir 290 þús. kr. Nú skal að vísu gera þá aths., að bæjarstj. og íþróttanefnd ríkisins greinir nokkuð á um það, hvað mikið af hinni kostnaðarsömu framræslu í Laugardalnum eigi að færa á kostnað íþróttaframkvæmda. Gæti þar munað 500 þús. kr. til eða frá. Dragi ég þá upphæð frá, sem íþróttasjóður ætti að greiða þar af, ef miðað er við 40%, þá ætti þó að vera komin 1 millj. 200 þús. kr. þessi síðustu fjögur ár úr íþróttasjóði.

En það eru ekki nema 290 þús. kr., eins og ég hef tekið fram. Og af þeim 500 þús. kr. á fjárl. á þessu ári til íþróttasjóðs var veitt til þessara íþróttaframkvæmda í Laugardalnum um 40 þús. kr. og borið við af íþróttanefnd, að það væri í mörg horn að líta. Efast ég raunar ekki um, að svo sé. En íþróttafélögin í Rvík hafa lagt á sig mjög mikil útgjöld vegna íþróttaframkvæmda, félagssvæða og félagsheimila. Þannig hafa t.d. þrjú af þessum félögum, K.R., Ármann og Valur, varið um 700 þús. kr. í fyrra og á þessu ári til þessara hluta.

Ég læt svo þessar upplýsingar nægja og treysti því, að ef á málið er litið eins og það liggur fyrir tölulega, þá geti menn ekki annað en viðurkennt, hve þung skylda hvíli á ríkinu að leggja fram aukið fé til þessara framkvæmda. Og ég vil í þessu sambandi minna á það, að auðvitað er hægt að rísa upp og segja, að það eigi ekkert að veita til „þessarar fótamenntar“, eins og sumir kalla það, eða til þessara spark- og boltaleikja. En sem betur fer er sá hugsunarháttur ekki ríkjandi, hvorki á Alþingi né meðal Íslendinga almennt. Og þegar við höfum í huga, að bæði ráðherrar núverandi hæstv. ríkisstj. og sjálfur forseti lýðveldisins — öllum slíkum ágætum forvígismönnum þjóðfélagsins þykir ástæða til að leggja leið sína út á flugvöll, þegar ungir Íslendingar koma frá útlendum leikvangi úr viðureign sinni við æskumenn annarra landa, beinlínis til þess að viðurkenna annars vegar gildi íþróttanna og hins vegar til að viðurkenna, að þessir íþróttamenn hafi verið meiri landkynning sinnar þjóðar á þessu ári en nokkuð annað, sem gert hefur verið, þá er líklegt, að menn geri sér einnig grein fyrir því, að undirstaðan undir því, að slík landkynning geti átt sér stað, eru fyrsta flokks íþróttasvæði, svo að ég minnist ekki á hin miklu uppeldis- og hollustuáhrif íþróttanna.

250 þús. kr. eru ætlaðar á fjárl. til Ólympíuleikjanna, sem á að heyja árið 1952, og er það vel. En sú upphæð er ekki svo stór, að hún dregur ákaflega lítið móts við þær háu tölur, sem ég hef nefnt.

Ef hv. þm. meta þessar staðreyndir, sem ég hef lagt tölulega fyrir þá, trúi ég ekki öðru en þeir sýni lið og hækki þetta framlag um 100 þús. kr., sem ekki er mikið, miðað við það fé, sem annars staðar er veitt til íþróttaframkvæmda, en mundi gera íþróttasjóði töluvert hægra um vik að sinna óskum þeim, sem fram eru komnar úr hverju byggðarlagi og um framlag til íþróttaframkvæmda í Reykjavík, þar sem í framtíðinni verður aðalíþróttaleiksvæði landsins.