14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

1. mál, fjárlög 1951

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég á hér eina brtt., sem ég er 1. flm. að. Það er brtt. XXI á þskj. 402. Þessi brtt. er um að veita ríkisstj. heimild til að verja hagnaði þeim, sem kann að verða af rekstri olíuflutningaskipsins Þyrils, til verðlækkunar og verðjöfnunar á olíu, svo að olíuverð verði sem jafnast á landinu, þar sem olíuflutningaskipið getur annars dælt olíu á geyma. Það er hv. þm. kunnugt, að ríkið, sem hefur á undanförnum árum rekið olíuflutningaskipið Þyril, hefur rekið það með allmiklum hagnaði. Ég hygg, að það muni furða marga að heyra, að árlegur gróði af skipinu að undanförnu hefur verið um 1 millj. kr., og sennilega meiri á árinu, sem er að líða. Þessi gífurlegi gróði, sem þarna fæst í rekstri þessa skips og fæst aðallega í sambandi við, að það flytur olíu út á landsbyggðina, olíu, sem flestum finnst vera nægilega dýr, — það virðist ekki óeðlilegt, að þessi hagnaður sé notaður til að verðlækka og verðjafna olíuna nokkuð. En nú hefur verið gert ráð fyrir því í sambandi við afgreiðslu þessara fjárlaga að taka rekstur þessa skips og fella hann inn í rekstur annarra skipa, sem Skipaútgerð ríkisins hefur með að gera, og nota þá þann hagnað, sem er á rekstri olíuflutningaskipsins, yfir 1 millj. kr. á ári, til að standa undir þeim hallarekstri, sem er á öðrum skipum útgerðarinnar. Þ.e., það á að láta fátæka olíukaupendur standa undir eða létta á ríkissjóði því fjárframlagi, sem hann hefur undanfarin ár þurft að leggja fram til Skipaútgerðarinnar. Olíukaupendur eiga að halda þessum rekstri uppi með því, að svo og svo mikill hagnaður er af rekstri olíuflutningaskipsins, sem svo á að „dekka“ það tap, sem verið hefur á rekstri ríkisskipanna. Mér hefur heyrzt, að allmargir hv. þm. væru því hlynntir, að reynt væri að koma verðjöfnun á olíu úti á landi og minnka þann mikla mismun, sem er á olíuverði hér í Reykjavík og úti á landi. Þá verð ég að segja, að mér finnst þetta vera sjálfsagðasta leiðin.

Ég vænti svo, að þetta mál liggi svo ljóst fyrir öllum þingmönnum, að þeir sjái, að það er sanngirnismál, að svo verði farið að sem till. gerir ráð fyrir og ég þurfi ekki að eyða fleiri orðum að því. Ég geri mér von um, að hv. þm. fallist á að veita ríkisstj. heimild til að ráðstafa hagnaðinum eins og í brtt. segir.

Ég er meðflutningsmaður að fleiri till. og hygg, að 1. flm. muni mæla fyrir þeim, svo að ég ætla ekki að ræða þær sérstaklega.