14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarason):

Herra forseti. Ég ætla að segja hér nokkur orð, í fyrsta lagi um brtt., sem ég flyt hér ásamt öðrum, í öðru lagi um till., sem ég flyt hér sem minni hl. fjvn., og í þriðja lagi um till. hæstv. fjmrh.

Í fyrsta lagi er það 1. brtt. á þskj. 412, sem er um það. að liðirnir 8 og 9 á 13. gr. A. III falli niður, en í staðinn komi Selá á Langadalsströnd með 180 þús. kr. Hér er um till. að ræða, sem fer ekki fram á aukin fjárframlög úr ríkissjóði. Selá er vatnsmesta á á Vesturlandi, eins og allir vita og viðurkenna, sem til þekkja, og þyrfti því að brúa hana fyrst. Í þessu skyni voru veittar 60 þús. kr. á fjárl. 1947, og hefði því mátt ætla, að því hefði veríð haldið áfram. En það var ekki gert. Í þessu skyni var hvorki veitt fé 1948 né 1949, og í fyrra var það ekki gert heldur, en gefið vilyrði fyrir, að það yrði gert á fjárl. 1951. Þannig hefur verið traðkað í mörg ár á þörfu og góðu máli, og það liggur aðeins fyrir vilyrði frá vegamálastjóra um það, að hann mælti með, að varið yrði fé úr brúasjóði til byggingar brúar á Selá, en um aðrar ár er þar varla að ræða að fá fé til úr brúasjóði en þessar tvær í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem eru engir farartálmar innan þess héraðs. Og það er ekki mikið, þó að þessu fé sé varið til brúarbyggingar þarna í staðinn fyrir það fé, sem tekið er í benzínskatti af Vestfjörðum. Nú er mér ljóst, að þó að þessar 180 þúsundir séu lagðar í þetta mannvirki nú, þá vantar 220 þús. til þess að brúin verði byggð á næsta sumri. Því hefði mér þótt gott að fá yfirlýsingu hæstv. samgmrh.; og mundi ég þá draga þessa till. til baka, ef ég fengi vissu fyrir því, að bundinn væri endi á þann leik að skjóta byggingu Selárbrúar á frest frá ári til árs, en að öðrum kosti mun ég láta þessa till. mína ganga til atkv.

Í annan stað flyt ég ásamt þm. N-Ísf. brtt. á þskj. 442, VII. lið, við 22. gr., um að verja í samráði við vitamálastjóra fé til viðgerðar á brimbrjótnum í Bolungavík vegna skemmda, er urðu á honum 10. des. s.l. Við höfðum farið fram á það, að veitt yrði fé vegna þeirra skemmda, sem urðu á þessu mannvirki 1946, en áður en við fengjum jáyrði fyrir því, að þær skemmdir yrðu bættar, þá fengum við símskeyti um þetta reiðarslag, að enn hefði brimbrjóturinn orðið fyrir miklum skemmdum, sem áætlað var að næmu um 300 þús. kr. Við ræddum strax við vitamálastjóra, og okkur kom saman um að fá strax vilja þingsins fyrir þessu, og því treystum við, að þm. sjái nauðsyn þessa máls og taki upp á heimildagr. fé til þessa í fullu samráði við vitamálastjóra.

Þá hef ég á þskj. 411 flutt brtt. Eru það till. í svipaða átt og þær, sem ég flutti við 2. umr., — ég hef þó sleppt mörgum af þeim atriðum, sem þar voru. — Þar legg ég til í 3. brtt., sem er við 16. gr., að varið verði til síldveiðideildar 5 millj. til þess að standast skuldbindingar samkv. nýsettri reglugerð, og í annan stað, að til þorskveiðideildarinnar verði varið 3 millj., til þess að gera þá deild starfhæfa þegar í byrjun næsta árs, svo að hún geti veitt hinum nauðstadda vélbátaflota nokkra aðstoð. Mér datt í hug, þegar búið var að fella till. um 8 millj. kr. aðstoð til sjávarútvegsins, að hana mætti veita samkv. l. um hlutatryggingasjóð.

Þá er brtt. um fé til almannatrygginganna, — ekki að veittar verði til þeirra 1850 þús., eins og meiri hl. fjvn. leggur til, heldur í samræmi við það, að þær geti haldið áfram að greiða þær bætur, sem þær verða að greiða með 8,3% álagi, en nú hefur ráðh. upplýst, að greiða verði 22% uppbætur á laun, og þá fannst mér, að ekki væri hægt að greiða bætur með lægri uppbót en þeirri, sem launþegar fá, og mundi það kosta 1450 þús., og við það miðast mín till.

Þá er hér till. um það, að ríkisstj. fái í 19. gr.

heimild til að verja 2 millj. til þess að afstýra atvinnuleysi í kaupstöðum og kauptúnum.

Þessar till. nema um 11 millj., en það vill svo vel til, að það hefur verið sýnt fram á það, að áfengisverzlunin og tóbakseinkasalan hljóta að gefa a.m.k. 12–13 millj. kr. hærri tekjur en áætlað er á fjárl. Hér er áætlað að þær gefi 11 millj. og 450 þús. kr. hærra en þar er áætlað, og gætu þá þær tekjur runnið til þess að efla sjávarútveginn, til trygginganna og 2 millj. til þess að afstýra atvinnuleysi í kaupstöðum landsins, og held ég, að þessum vanáætluðu tekjum verði ekki betur varið á annan hátt.

Þá vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um brtt. hv. fjvn. á þskj. 393. Þar stendur í 8. till. n., að viðhaldsfé vega skuli hækka um 1 millj., úr 12,8 millj. í 13,8 millj. Með öðrum orðum, það er viðurkennt, að ekki verði hjá því komizt að hækka viðhaldsféð um eina milljón, en þó er það lægra en vitað er að af verði komizt með. — Þá er það 4. till. á þskj. 393, sem er við 11. gr., nýr liður, til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju, 125 þús. Þrátt fyrir að þetta er sett þarna inn á fjárl., veit ég ekki til, að til sé nema eitt vinnuhæli á landinu, á Litla-Hrauni, en nú virðist vera annað til á Kvíabryggju í Grundarfirði. Nú vil ég leyfa mér að leggja spurningu fyrir hæstv. fjmrh.: Hvenær var þetta vinnuhæli byggt, og um hve stórfellda stofnun er hér að ræða, hver á þetta vinnuhæli, hvað kostaði það og hvenær á árinu 1951 mun það taka til starfa? Einhver ráðh. mun að minnsta kosti vera hér enn þá til að svara þessu. Væntanlega á ekki að fara að kasta þarna 425 þús. í vinnuhæli, sem ekki er til. En ég hef fulla ástæðu til að ætla, að það sé ekki til, eða að minnsta kosti eru engar líkur til, að það taki til starfa á árinu 1951. Ég hef óljóst hugboð um, að Reykjavíkurbær hafi keypt þarna jörð til að koma upp vinnuhæli vegna ógoldinna barnsmeðlaga. Mér er tjáð, að ekki séu nægileg húsakynni á Litla-Hrauni og muni þetta eiga að bæta nokkuð úr því, en þarna er ekki annað húsa en gamalt „forskallað“ timburhús, og getur því ekki orðið þarna vinnuhæli, nema allt sé byggt upp, og það er kunnugt, að þarna verður aldrei vinnuhæli á árinu 1951 og líklegast aldrei. Hvers vegna á þá að vera að leggja fé í þetta hugsaða vinnuhæli, sem Reykjavíkurbær mun vera eigandi að? Mér finnst vera eitthvert óbragð af þessari till., og Aþfl. mun greiða atkv. gegn henni. Mig grunar, að þarna sé einhver leyndur „forretningskab“ á bak við, sem ekki hefur verið gerð grein fyrir.

Þá hefur fjmrh. lagt fram brtt. á þskj. 394. Þar er gert ráð fyrir, að vörumagnstollur hækki um 1,5 millj., gjöld af innlendum tollvörum um 1,3 millj., aukatekjur um 0,8 millj., stimpilgjald um 0,9 millj., og söluskattur um 5 millj. Ég held því fram, að það sé alveg að ófyrirsynju, að hlaupið er til að hækka skatta og tolla, því að tekjuáætlunin er svo rúm, að gera má ráð fyrir, að inn komi yfir 30 millj. meira en gert er ráð fyrir. Það hefði verið hægt með því að áætla rétt að fá fé til að standa undir þeim auknu útgjöldum, sem gert er ráð fyrir, og þessir skattar eru því óþarfir. Það hefði e.t.v. verið hægt að verja það, ef árferði hefði verið hið bezta, en nú er ekki svo, og þá er ekki hægt að verja það, að skattar séu lagðir á landslýðinn að tilefnislausu eða af litlu tilefni. — Á þessu sama þskj. er 7. till. á þá leið, að til vantalinnar verðlagsuppbótar skuli áætlaðar 5 millj., og svo er skýringin: Greiða skal verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna miðað við vísitölu 122 stig. Í sambandi við þessa málsgr. hefur hæstv. viðskmrh. borið fram brtt. á þskj. 399 við frv. til l. um breyt. á l. nr. 22 1950, um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl. Þar segir, að í stað 4.–7. mgr. 6. gr. laganna komi ein málsgr., svo hljóðandi: „Frá 1. febr. 1951 skulu laun ekki taka breytingum samkvæmt ákvæðum þessara laga.“ Þessi till. er í sambandi við brtt. fjmrh., sem liggur fyrir Sþ. Vitanlega var ekki hægt með samþykkt brtt. við fjárl. að breyta gengislækkunarlögunum, og því þurfti viðskmrh. að koma með þessa till. hér inn. Með þessu er verið að hlaupast á brott frá þeim skuldbindingum, sem gefnar voru, þegar gengisbreytingin var gerð. Þá var lofað, að laun skyldu hækka mánaðarlega til 1. júlí og síðan standa óbreytt til áramóta 4950 –51 og hækka þá, ef vísitalan hefði hækkað um 5%. Við þetta var staðið. Verkalýðsfélögin sættu sig við þetta og fylgdu lögunum. Svo var ákveðið í gengisbreytingarlögunum, að vísitalan skyldi haldast til 1. júlí 1951, en þá skyldi kaupgjald hækka eða lækka samkv. vísitölunni. Frá þessu er verið að hlaupast með þessari till. Það er gefið, að dýrtíðin mun halda áfram að vaxa eftir þetta, og það er ekki vitað um neinar ráðstafanir, sem ríkisstj. hafi gert til að stöðva það flóð. Höfundar gengislækkunarlaganna héldu því fram, að verðhækkanirnar, sem af henni leiddi, mundu koma ört, og töldu, að þær mundu nema 11–13 stigum, síðan mundi hún hægja á sér. Auk þessa átti hún að bæta markaðsmöguleika okkar að stórum mun. Þessi draumur um, að dýrtíðin mundi hægja á sér, hefur algerlega brugðizt. Fyrir gengisbreytinguna töldu þeir, að jafnvægi mundi vera náð nú, en nú er hlaupizt frá þessu öllu. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Heldur hún, að hún fái gott samkomulag við verkalýðsfélögin í landinu um þetta? Heldur hún, að hún fái góðan frið, ef kaupgjald verður sett fast? Ég held, að það fáist enginn friður um það. Enda þarf ríkisstj. ekki að fara í neinar grafgötur með það. Á síðasta alþýðusambandsþingi var samþ. að skora á ríkisstj. að gera allt, sem í hennar valdi stæði til að örva atvinnulífið og nýta framleiðsluna sem bezt. Og var sambandsstjórninni falið að knýja ríkisstj. til þess að bæta atvinnulífið og afstýra atvinnuleysi. Og vegna fyrirsjáanlegrar vaxandi dýrtíðar eftir 1. júlí n.k., þá var stjórninni falið að þola ekki hækkandi dýrtíð, án þess að fram færu samsvarandi kauphækkanir. Og á síðasta þingi Alþýðusambands Íslands var samþ. í einu hljóði svo hljóðandi ályktun:

„Því telur þingið (þ.e. vegna vaxandi dýrtíðar), að verkalýðshreyfingin verði nú að spyrna við fótum, stöðva kjararýrnun þá, er af þessu hefur leitt, og hefja sókn fyrir því, sem tapazt hefur, og batnandi lífskjörum. — Felur þingið hinni væntanlegu sambandsstjórn að setja öllu ofar að sameina verkalýðsfélögin til samstilltra átaka í þessu efni. — Þingið leggur ríka áherzlu á, að væntanleg stjórn A.S.Í. hafi forustu um, að félögin leggi sameiginlega til þeirrar baráttu, sem fram undan er, m.a. með því, að sambandsfélögin samræmi uppsagnarákvæði samninga sinna betur en orðið er, enda sé áfram haldið á þeirri braut til samræmingar kaupgjalds, sem unnizt hefur á seinasta kjörtímabili. — Það er alger lágmarkskrafa, að þegar í stað fáist kaup í samræmi við útreiknaða vísitölu hvers mánaðar, og felur þingið væntanlegri stjórn að fylgja þeirri kröfu vægðarlaust fram við ríkisstjórnina.“

Hæstv. ríkisstj. veit, að eina leiðin til að halda frið við verkalýðssamtökin er, að kaupgjald hvers mánaðar sé í samræmi við vísitölu hans. Ef ekki verður orðið við þeirri kröfu, kostar það stríð við verkalýðsfélögin í landinu, sem munu beita sér gegn þessu, unz ríkisvaldið neyðist til að beygja sig. Ef hæstv. ríkisstj. hefði verið þess megnug að halda niðri verðlagi og dýrtíðinni, og þá siðferðislegu skyldu tók hún á sig með gengislækkunarl., þótt hún hafi svo gersamlega brugðizt henni, hefði hún skapað þá trú hjá verkalýðssamtökunum, að ekki hefði staðið á þeim að reyna að koma í veg fyrir kauphækkanir. En verkalýðurinn hefur hins vegar horft upp á það, meðan kaupgjald hefur staðið óbreytt, að verðlag hefur stöðugt farið hækkandi, og ég er sannfærður um það, að hversu oft sem hæstv. fjmrh. endurtekur þessa einu setningu: „Það er enginn ávinningur fyrir neina að fá kauphækkanir“, að verkamenn, sem hafa búið við lækkandi kaup síðustu 6 mánuðina, á sama tíma sem þeir hafa aldrei séð dýrtíðina vaxa meir en síðan þeir festu kaup sitt, að þeir trúa ekki þessum orðum hans. Hæstv. ríkisstj. er búin að rífa niður trú verkalýðsins á það, að verðlag stöðvist, ef kaupgjald er bundið, og að verðlag fari lækkandi, ef kaupgjald fari lækkandi, því að vissulega hefur það farið lækkandi undanfarna mánuði. Afleiðingin af þessu verður sú, að verkalýðurinn á enga aðra vörn, þegar kaupmátturinn minnkar, en að gera kröfur um hærra kaup, og það er eins öruggt og nótt fylgir degi, að ef hæstv. ríkisstj. gerir engar samþykktir um það, áður en þessu þingi er slitið. að vísitala hvers mánaðar verði reiknuð út og álag samkv. henni greitt á kaup, lendir hún í allsherjarstríði við verkalýðssamtökin í landinu, þar sem hann á sér ekki annars úrkostar en að fá hærra kaup.

Á s.l. hausti tók ég upp á lista verðlag á helztu nauðsynjavörum, sem hvert alþýðuheimili verður að kaupa til þess að draga fram lífið frá degi til dags, og gerði samanburð á verði þessara vara frá því fyrir gengislækkun, eða eins og það var í febrúar 1950, og síðan eins og það var í haust, og kemur þá þetta í ljós:

Verð á kg af haframjöli kr. 1.90 fyrir gengislækkun, en kr. 2.80 í haust, verð á kg af hveiti kr. 1.70 fyrir gengisl., en kr. 3.00 í haust, verð á kg af rúgmjöli kr. 1.40 fyrir gengisl., en kr. 2.25 í haust, verð á kg af hrísgrjónum kr. 2.60 fyrir gengislækkun, en kr. 4.20 í haust, verð á kg af melís kr. 2.44 fyrir gengisl., en kr. 4.60 í haust, verð á kg af strásykri kr. 2.10 fyrir gengislækkun, en kr. 3.60 í haust, verð á kg af kaffi kr. 16.00 fyrir gengislækkun, en kr. 32.40 í haust, en hefur hækkað síðan. Kaffibætir, þvottaduft, smjörlíki, kartöflur, mjólk og kjöt, allt hefur þetta einnig hækkað í verði. — Kalatonnið kostaði á Vestfjörðum 344 kr. fyrir gengislækkun, en er nú komið á 6. hundrað kr., eins og hv. þm. Snæf. (SÁ) gat um fyrir nokkrum dögum að það kostaði á Snæfellsnesi. — Tonnið af hráolíu kostaði fyrir gengislækkun 450 kr., en kostar nú 740 kr. Kaupgjald hefur hins vegar verið greitt með 15% álagi síðan gengislækkunin komst á. Þetta eru fallegar bætur. Þetta hefur verkalýðurinn sætt sig við, meðan verið var að fá reynslu á gengislækkunarl., en það má hæstv. ríkisstj. vita, að nú er mælirinn fullur, meira að segja fleytifullur.

Nákvæmlega sömu sögu má segja um ástandið í atvinnulífinu. Það hefur orðið fyrir sams konar búsifjum, og ég hef þar líka ákveðnar tölur til sönnunar máli mínu, þótt ekki þurfi að nefna mörg dæmi. — Af efni í niðurstöður kostaði kg fyrir gengislækkun kr. 5.95, en kostar nú 11–12 kr. Lóðabelgir kostuðu fyrir gengislækkun kr. 23.75 og kr. 25.35 stk., en kosta nú kr. 49.00 og kr. 53.65 stk. Taumar kostuðu fyrir gengislækkun kr. 23.45 þúsund stk., en kosta nú 50 kr. þúsund stk. Önglar nr. 7 kostuðu fyrir gengislækkun kr. 19.88 þúsund stk., en kosta nú 60 kr. þúsund stk. Fiskverð er hins vegar óbreytt. Þetta er hjálpin, sem vélbátaútgerðin hefur fengið við þessa allsherjar lækkun hæstv. ríkisstj. Og engin upphæð er á fjárlfrv., þótt nú liði óðum að afgreiðslu þess, til þess að hjálpa þessum nauðstadda atvinnuvegi.

Í fskj., sem fylgdu gengislækkunarfrv., er skýrt frá því, að núverandi hæstv. atvmrh. (ÓTh) hafi sagt í ræðu, sem hann hélt í des. 4944 — rétt fyrir jólin — með leyfi hæstv. forseta: „— ekki bara þeir lágt launuðu, heldur allir, sem framfæri hafa af framleiðslunni, verða að lækka kröfur sínar, því að til langframa getur engin þjóð búið við hallarekstur. Og þá og þá fyrst, eftir að verkalýðurinn hefur séð, að í orði og á borði hefur allt verið gert, sem hugsanlegt er til þess að halda uppi lífskjörum hans, mun verkalýðurinn vera reiðubúinn til að hlusta á og fara eftir slíkum óskum.“ Þetta var alveg prýðileg jólaræða! Slíka jólaræðu ætti hæstv. atvmrh. að halda nú fyrir þessi jól. Þá fyrst, þegar búið er að gera allt, bæði í orði og á borði, til þess að færa niður dýrtíðina og allir, ekki aðeins þeir lægst launuðu, heldur einnig þeir, sem hærri laun hafa og eru betur settir, hafa dregið úr kröfum sínum, mun verkalýðurinn fúslega draga úr sínum kröfum og lækka kaup sitt með lækkuðu verðlagi, en með hækkandi verðlagi verður hann að fá kaup sitt hækkað. Er sá tími kominn, að þeir, sem eru betur settir í þjóðfélaginu, séu farnir að gera lægri kröfur til lífsins? Er farið að lækka kaupgjald hinna hæst launuðu í landinu? Ég hef ekki orðið var við það, og ég hygg, að sú stund, sem hæstv. atvmrh. var að lýsa í ræðu sinni fyrir jólin 1944, sé ekki runnin upp enn þá. Svo mikið er víst, að hæstv. atvmrh. hefur gleymt ræðunni frá árinu 1944, þegar lýðveldi var stofnað.

Þá segir svo í hagfræðingaálitinu, sem fylgdi gengislækkunarfrv., með leyfi hæstv. forseta: „Markmið heilbrigðrar stjórnarstefnu hlýtur ávallt að vera það að skapa almenningi í landinu sem bezt lífskjör, þannig að prófsteinninn á réttmæti ákveðinna ráðstafana í atvinnu- og fjárhagsmálum hlýtur einmitt að vera sá, hvort þessar ráðstafanir séu til þess fallnar að bæta lífskjör almennings í bráð og lengd, og á það auðvitað einnig við um till. þær, sem hér eru lagðar fram.“ Ætli prófsteinninn á gengislækkunina, sem átti að vera gerð til þess „að bæta lífskjör almennings í bráð og lengd“, sé ekki fyrir hendi? Ætli þetta sé ekki prófsteinn á þá, sem fylgdu gengislækkunarleiðinni: „Markmið heilbrigðrar stjórnarstefnu hlýtur ávallt að vera það að skapa almenningi í landinu sem bezt lífskjör“? Sannleikurinn er sá, að stjórnarstefna núverandi ríkisstj. hefur skapað versnandi lífskjör og hefur þar með fengið sinn dóm. Uppskera hennar er hrörnandi atvinnulíf, síhækkandi dýrtíð, skortur á flestum nauðsynjum og vaxandi eymd þeirra, sem lægst eru settir í þjóðfélaginu. Hún er því vissulega einhver fráleitasta stjórnarstefna, sem íslenzka þjóðin hefur nokkurn tíma búið við.