14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

1. mál, fjárlög 1951

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 402 sömu brtt. og ég flutti við 2. umr. Hér er um það að ræða að hækka framlag til Rifshafnar á Snæfellsnesi úr 500 þús. kr. í 700 þús. kr., eins og ákveðið var í fjárlfrv. hæstv. fjmrh., þegar það var upphaflega lagt fram. — Á sama þskj. flyt ég og till. um að hækka framlag til amtsbókasafnsins í Stykkishólmi í 13 þús. kr. — Við 2. umr. færði ég nokkur rök fyrir flutningi þessarar till. og vænti þess, að Alþ. samþ. þær.

Þá hef ég á þskj. 412, VI. lið, leyft mér að bera fram brtt. við 22. gr. VIII á fjárlfrv., um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast lán allt að 5 millj. kr. til að fullgera hraðfrystihús, sem hefur verið ætlað stofnlán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, en ekki hafa fengið þessi lán vegna fjárskorts stofnlánadeildarinnar. Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir 3 millj. kr. í þessu skyni, en þar sem vitað er, að vanefndir stofnlánadeildarinnar í sambandi við lán til hraðfrystihúsanna nema miklu hærri upphæð, tel ég rétt að flytja þessa brtt. — Ég skrifaði hv. fjvn. um þetta mál og vænti þess, að hún mundi gera brtt. við 22. gr. í samræmi við það, sem ég flyt nú brtt. um, þar sem hún gat þess við 2. umr., að hún mundi taka þetta til athugunar fyrir 3. umr. frv., en einhverra ástæðna vegna hefur það ekki orðið. — Nýbyggingarráð gaf á sínum tíma hraðfrystihúsunum skrifleg loforð um lán úr stofnlánadeildinni. Þessi sömu frystihús lögðu í dýrar framkvæmdir vegna þessara loforða, en standa svo lánalaus, eftir að hafa framkvæmt þessar miklu aðgerðir, sökum þess að stofnlánadeildin hefur ekki getað staðið við sínar skuldbindingar. Ég tel því, að hæstv. ríkisstj. beri skylda til að reyna á einhvern hátt að leysa úr vandræðum þessara frystihúsa, og er þessi till. mín komin fram sökum þess, að ég tel þó sönnu nær að hafa þessa upphæð 5 millj. kr. í stað 3 millj. kr., eins og er í fjárlfrv.