14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil hér, áður en ég svara einstöku aðdróttunum í garð fjvn., ræða hér eitt atriði við hæstv. landbrh. (HermJ), og er það út af brúasjóði. — Eins og ég gat um í dag, voru tekjur brúasjóðs og fyrirhugaðar framkvæmdir ekki teknar inn á frv., vegna þess að um þetta mál fékkst ekki samkomulag í n., og það beinlínis vegna þess, að Framsfl.- þm. í n., flokksbræður hæstv. ráðh., mótmæltu, að þetta yrði gert, og af þessum sökum kom mér einkennilega fyrir sú yfirlýsing, sem hann gaf hér nú. Við hinir í n. héldum því fram, sem hæstv. ráðh. staðfesti nú, að ráðh. hefði ekki neina heimild til að skipta fénu og ríkisstj. ekki heldur, en að það ætti að gerast á Alþ. En þessu var stranglega mótmælt af fulltrúum Framsfl. í fjvn., en af því að við vildum ekki undir nokkrum kringumstæðum skilja þannig við samstarfið í n., að láta þetta mál, sem þeim var mikið kappsmál, verða til þess að kljúfa samstarfið, þá létum við undan í þessum efnum. Nú hefur hæstv. landbrh. lýst yfir, að hann sé algerlega á okkar skoðun í þessu máli, og þykir mér vænt um það, að þessi ágreiningur í n. var ekki fyrir það, að nein tilhneiging væri til að hrófla við neinum af þeim till., sem komu til n. frá vegamálastjóra, heldur beinlínis til þess að uppfylla ákveðin l. — Ég vil einnig í sambandi við þetta mál minna hæstv. landbrh. á það, að ég sat með honum og öðrum ráðh. í ríkisstj. á fundi og ræddi um það, hvort n. mætti ekki taka nægilegt fé úr brúasjóði til þess að byggja brú á Selá á næsta ári, og þá var hann þeirrar skoðunar, að þetta mætti ekki gerast. Þess vegna furðaði mig á yfirlýsingu hæstv. landbrh. um þetta efni, en ég hefði óskað, að hún hefði komið fyrr fram.

Ég mun þá snúa mér að einstöku till.Hæstv. forseti hefur óskað eftir, að ég stytti mál mitt. Fyrst vil ég fara nokkrum orðum um till. fjmrh. á þskj. 417. — Mér þykir vænt um, að hæstv. fjmrh. ætlar að hækka tekjurnar, því að ég tel, að fara megi gætilega við síðustu atkvgr., ef ekki á að verða greiðsluhalli á fjárlögum. — Ég hef tekið það saman til gamans, hvað þær brtt., sem stuðningsmenn stj. flytja, nemi mikilli upphæð. Eftir því sem ég kemst næst, flytja stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. brtt. að upphæð 570 þús. kr. Og síðan flytja þeir þar að auki till. ásamt stjórnarandstæðingum að upphæð 430 þús. kr. Till. þeirra nema þá samtals um 1 millj. kr. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessar till. séu fluttar til þess að stríða hæstv. ríkisstj., heldur er hér vilji fyrir hendi og þörf á framkvæmdum. Alþýðuflokksmenn einir flytja síðan till., er auka mundu, ef samþykktar væru, útgjöld ríkisins um 8 millj. kr. Frá sósíalistum eru fluttar brtt. upp á 4.7 millj. kr., og ekki þarf að efa, að þar býr á bak við fullkomin ábyrgð, og auk þess eru fluttar till. um 7.7 millj. kr., er setja skal á heimildagrein. Mér skilst, að þetta sé þá samtals yfir 20 millj. kr., sem ætti að bætast á fjárlagafrv., og mætti þá tóbak og brennivín hækka verulega til þess að standa undir þessu.

Ég sé nú ekki ástæðu til að ræða till. á þskj. 394, en viðvíkjandi till. á þskj. 315 vil ég segja það, að hún var ekki tekin inn í fjvn., vegna þess að það átti að geyma allar till. um tekjurnar til 3. umr., og því hefur fjvn. ekki athugað þessa till., og ætti þetta að vera auðskilið mál. Önnur till. frá menntmrh., er ákveður um styrk til stúdenta, var gerð í samráði við fulltrúa stúdenta, og er nefndin sammála um að mæla með, að hún verði samþ.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um till. hv. 6. landsk. Á þskj. 412 er flutt tili. frá honum, er ég minntist á hér við fyrri umr. þessa máls. — Í sambandi við till. um aflatryggingasjóð á þskj. 411 hefur fjvn. rætt málið við ríkisstj., og mér hefur skilizt, að áður en þingi lýkur eigi að ganga frá lögum um aflatryggingasjóð og tryggja betur afkomu hans. Ég get því ekki mælt með, að þessi till. verði tekin upp hér. — Út af till. hans um tryggingarnar vil ég segja það, að ekki var ætlazt til hjá honum að greiða fulla vísitölu á lágar bætur. Þetta er í lögunum og hefur verið viðurkennt af ráðherra, og því hefur þessi stefna þegar verið mörkuð. Því er engin ástæða til að breyta hér um. Það er ekki hægt að miða við 8.33, heldur verður að vera fullt vísitöluálag, og er þá miðað við, að þeir, sem greiða til trygginganna, greiði ekki nema með 8.33 vísitölu, sem er meðalvísitala ársins. En hv. þm. ætti að vera ljóst, að ef vísitalan fer yfir 115 stig, þá hefur ríkisstj. heimild til að hækka allar greiðslur, til þess að ekki þurfi að skerða stofninn. — Um atvinnubótatrygginguna ræði ég ekki, til þess að þurfa ekki að eyða tíma í það. — Hið sama get ég sagt um till. um að hækka viðhaldskostnað vega um 1 millj. kr. Viðvíkjandi vinnuhælinu er eðlilegt, að hv. þm. spyrji, þar sem hann var ekki á þeim fundi, er mál þetta var rætt. Samkv. 11. gr. þá er nú um 420 þús. kr. tap á Litla-Hrauni. Þar er þó engu síður fullt en í þjóðleikhúsinu og ekki hægt að fá þar inni. Auk þess er fjöldinn allur af mönnum, sem hafa ekki getað unnið af sér barnsmeðlög sökum þrengsla. Svo er t.d. ástatt hér í Reykjavík. Þess vegna hefur bærinn líka fest kaup á húsi í Grundarfirði, og er búið að undirbúa það svo, að hægt er að reka þar vinnuhæli. Það var talið ódýrara en að stækka Litla-Hraun. Það má þá líka minnast þess, að ef Reykjavíkurbær á þetta hæli, þá gefur þó ríkissjóður engum þetta sem uppbót á sitt þingfararkaup. (HV: Nú held ég, að hv. þm. sé farið að dreyma.) Ég held, að það sé ekki þörf að ræða aðrar till. frá hv. 6. landsk.

Þá kem ég að till. á þskj. 412 frá fjvn. Gert er ráð fyrir, að breytt sé 29. till. á þskj. 393, en hún er um framlag til dýralæknisnema erlendis. Þar er lagt til, að Jón Guðbrandsson fái 5 þús. kr. til dýralæknanáms í Kaupmannahöfn. Þessu var breytt þannig, að nú er settur styrkur til dýralæknisnáms erlendis, 15 þús. kr. Jón þessi er að hefja nám sitt, og taldi þá ráðherra, að það þyrfti að styrkja fleiri, og er það sanngjarnt. Fjvn. féllst á þetta og óskaði, að ætlazt væri til, að Jón Guðbrandsson fengi 5 þús. kr. af þessari upphæð. Þetta var samþ. í n., og er þess vænzt, að ráðherra fylgi því. — Einnig þótti rétt að styrkja Sverri Markússon til dýralæknisnáms, og er það lokastyrkur til hans.

Á sama þskj. flytur fjvn. tvær brtt. við 18. gr. Ingólfur Jónsson er látinn, og fellur því sá liður niður. Þá var n. sammála um að veita Magnúsi Péturssyni lækni 6 þús. kr.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða mikið till. frá hv. 2. þm. Reykv. En ég vil þó segja það um 18. till. á þskj. 402, um það að lána allt að 100% til kaupa á nýju togurunum, að ég hygg, að hvergi hafi verið hægt að fá betri kjör til skipakaupa en þau, sem ríkisstj. hefur boðið, en það er að lána allt að 90% og það sumt til 20 ára. Ef þessir aðilar geta ekki lagt fram 10%, þá held ég þeim sé litill greiði gerður með því að láta þá fá þessi tæki.

Hv. 11. landsk. er ekki hér nú, en hann hefur talað fyrir tili. sinni um að styrkja ákveðið félag til tilrauna með kolavinnslu í Dalasýslu. Og hann lýsti því svo, að það hlyti að vera misskilningur hjá fjvn. að hafa ekki mælt með þessu. En þessi misskilningur er orðinn a.m.k. tveggja ára, því að við höfum haft þetta mál til meðferðar í tvö ár. N. er málið ljóst, og hún hefur löngun til að styðja þá aðila, sem reyna að bora eftir kolum. Það gæti verið mikils virði fyrir landsmenn, ef hægt væri að grafa kol úr jörðu. Ég hygg, að það versta í sambandi við þetta mál sé það, að málið var ekki nægilega undirbúið af viðkomandi aðilum. Til þess að svo megi verða, verður að takast meiri samvinna á milli rannsóknaráðs ríkisins og eigendanna. Þegar þessir aðilar hafa komið sér saman um, hvað gera skal, þá er von um árangur. Það er mergurinn málsins, að rannsóknaráð hefur ekki sömu skoðun á málinu og eigendurnir. Þeir í rannsóknaráði hafa látið í ljós, að ekki stæðu eins miklar vonir til þessa og viðkomandi vilja vera láta. Ég skal viðurkenna, að það kom umsögn frá rannsóknaráði um þetta mál, og var sú umsögn mildari en í fyrra. Þó er hún engan veginn svo, að við sjáum okkur fært að mæla með þessari fjárveitingu.

Um styrk til ekkju séra Árna Sigurðssonar mun ég ekki ræða, en vil segja það, að þeir, sem tala fyrir þessu máli og telja sr. Árna það til gildis, að hann hafi verið útvarpsprestur, virðast ekki hafa sérlega mikið til að telja fram honum til gildis. Hann flutti þessar ræður hvort sem var af stólnum, og var þá ekki sama, þótt hljóðneminn væri settur fyrir framan hann? En hin raunverulega ástæða, sem liggur hér til grundvallar, er sú, að það er betra að vera embættismaður ríkisins en hjá öðrum. Þeir hafa betri laun og tryggingu fyrir launum sínum frá vöggunni til grafarinnar. (SkG: Það byrja nú fáir að taka laun í vöggunni.) Nú, er ekki þá byrjað að greiða þessa barnastyrki?

Þá ætla ég að minnast á till. um sjúkrahúsmálið á Blönduósi. Það er vitað mál, að fjárveitingar til sjúkrahúsa hafa orðið út undan á undanförnum árum. Það hefur verið rætt við landlækni um þetta mál, og hann hefur ráðíð skiptingunni. Ég hef ekki fengið það svar, að nauðsynlegt sé að hækka þennan lið fremur en marga aðra. Landsspítalinn kostar milljónir fyrir ríkið og sömuleiðis kosta sjúkrahúsinu úti á landi mikið fyrir sveitarfélögin, og fá Húnvetningar engu síður en aðrir að vita þetta. Hv. þm. A-Húnv. sagði, að ekki hefði orðið samkomulag við fjvn. um þetta, að lögð hefði verið meiri áherzla á heilbrigðismálin í Reykjavík. Hér var farið eftir umsögn landlæknis, eins og eðlilegast er.

Hv. 1. þm. Árn. talaði um það, að hann hefði verið beittur stórkostlegu ranglæti. Mér fannst þetta koma úr hörðustu átt. Ég veit ekki til, að neinn hafi farið einmitt lengra ofan í vasa fjvn. en einmitt hann. Þetta eru þá þakkirnar. Hann segir, að það sé ósæmilegt að skera niður það, sem áður var samþykkt. Þetta hefur nú verið gert hjá fleirum, t.d. 200 þús. á Rifi. Þetta er gert vegna nauðsynjar. Það hvíla nú á ríkinu fleiri hundruð þús. kr. af ógreiddum vegamálum. Það er ekki nein goðgá, þótt fjvn. vilji taka frá öðrum til að borga þetta upp. Það er misskilningur hjá hv. þm., að okkur hafi skort gögn, er við fjölluðum um þessi mál. Þessi mál hafa verið rædd við þá, sem mest hafa með þetta að gera. Þeir hafa m.a. upplýst n. um það. að það, sem unnið er í mýrunum, er greitt að hálfu leyti með jarðabótastyrk. Þeir hafa meira að segja upplýst það, að nokkuð af því verki sé greitt fyrir klóök skólanna, og látið reikna það bæði í byggingu skólanna og í landþurrkuninni. Þessi hv. þm. nýr n. því um nasir, að hún beri brigður á dugnað íbúa þessara staða. Hvaða ástæðu hafði hv. þm. til að mæla þessi orð? Ég þekki þessa menn og veit um dugnað þeirra. Ég vil nú spyrja: Heldur hv. þm. ekki, að margir þm. hafi komið til n. og fært fram óskir um fjárframlög með meiri og þyngri rökum en þessum? Ég hefði vænzt annars af þessum hv. þm., en hann sleppti sér hér algerlega út af einum 10 þús. kr., og það er engin ástæða til þess fyrir mig sem form. fjvn. að liggja undir því, að n. hafi ekki tekið fullt tillit til þarfa þessara staða. Ég mótmæli algerlega svona málflutningi. — Að síðustu sagði hv. þm., að taka yrði tillit til þess, að ríkið ætti landið. Hvað hefur ríkið gott af því? Veit hv. þm. ekki, að á Skagaströnd þurfti ríkið að kaupa réttindi á sínu eigin landi fyrir stórfé, þegar loks kom að því, að það þurfti að nota það? Slík blekking dugir ekki.

Ég vil benda á, í sambandi við brtt. um aukið framlag til íþróttasjóðs, að þar kemur fram sú misskipting, sem orðið hefur á fjárframlögum úr sjóðnum, að Reykjavík hefur orðið út undan, alveg eins og farið hefur um framlög til skólabygginga. Þess vegna á nú að knýja fram þessa hækkun til íþróttasjóðs.

Þá þarf ég einnig að minnast á brtt. frá hv. þm. N-Þ. varðandi hafnargerð á Þórshöfn. Hv. þm. sagði, að hún væri fram borin vegna rökstuddrar dagskrár í Ed., sem gæfi till. rétt á sér. Þetta mál lá fyrir Ed. á sínum tíma, og var þar samþ., að þessi tilraun skyldi gerð á kostnað ríkisins, ef hún misheppnaðist, en ef hún heppnaðist, skyldi kostnaður við hana teljast hluti af framlagi ríkissjóðs til hafnarbótanna, ef hún yrði einn þáttur í fullkomnun verksins. Nú er vitamálastjóri búinn að láta rannsaka þetta og telur verkið vel framkvæmanlegt, nema eitthvað sérstakt komi fyrir. Hann hefur einnig upplýst, að verkið muni kosta um 350 þús. kr., en hins vegar ekkert vit að byrja á verkinu, nema hægt sé að ljúka því í einu, vegna þess, hve dýrt er að flytja dýpkunarskipið Gretti á milli. Þess vegna er nauðsynlegt, að fyrir liggi nægilegt fé til þess að ljúka verkinu, áður en hafizt er handa um það. Ef verkið verður ónýtt, á ríkissjóður að greiða kostnaðinn. Þeir hafa nú fengið 50 þús. kr., en þeir eiga sjálfir að leggja til 60% af kostnaðinum, ef verkið heppnast. Ef það fé er fyrir hendi, geta þeir byrjað; ef ekki, þá verða þeir að bíða eins og svo margir aðrir. Það er ekki hægt að mæla með því, að þessi till. verði samþ.

Ég hef ekki tíma til þess að tala um brimbrjótinn í Bolungavík né aðrar till. hv. þm. N-Ísf. — En viðvíkjandi till. hv. 2. landsk. um Þyril, vil ég geta þess að það er engan veginn heppilegt, að um 1 millj. kr. ágóði, sem er af rekstri hans, skuli renna til allt annars en útvegsins, því að þessi ágóði er í rauninni skattur á útveginum. Það hefur ekki enn þá fengizt samkomulag um þetta atriði, en það er til athugunar, að þessu verði breytt. — Ég ræði ekki till. hv. þm. Mýr., því að það er smáatriði.

Ég verð að verja nokkrum tíma til þess að svara hv. þm. Vestm., þó að hann sé nú farinn af fundi. Hann sagði, að ekki væri hægt að lá sér, þó að hann uni ekki þeirri vesölu upphæð, sem honum væri úthlutað, og mótmælti þeirri svívirðu, sem sér og fólkinu væri gerð. Það voru ekki einungis orðin, heldur fyrirlitningin, sem fylgdi. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að það var látið 170 þús. kr. í þessa höfn, sem átti inni fyrir 387 þús. kr. Að vísu var gert ráð fyrir 200 þús. kr. framlagi, en Þorlákshöfn átti inni 360 þús., og var aðeins gert ráð fyrir 100 þús. kr. framlagi þangað. Það þótti nú misræmi að láta 200 þús. til Vestmannaeyja, en 100 þús. til Þorlákshafnar, sem átti jafnt inni, og var því tekið það ráð að hækka Þorlákshöfn upp í 170 þús., en lækka Vestmannaeyjar í sömu upphæð, með tilliti til þess, að Þorlákshöfn á í meiri erfiðleikum með að standa undir skuldum en Vestmannaeyjar. Þorlákshöfn hefur gert stórt átak í þessum málum, sem mjög er til fyrirmyndar og eftirbreytni. Ég hef séð reikninga frá Vestmannaeyjum, og sést á þeim, að mjög góðar tekjur hafa verið af höfninni þar. Ég mótmæli algerlega, að nokkur ósanngirni hafi átt sér stað í úthlutun þessa fjár, enda þótt brugðið hafi verið frá till. vitamálastjóra, enda hefði það ekki verið gert, nema full ástæða væri til. Og svo leyfir hv. þm. sér að mótmæla þeirri ósvífni, sem honum og fólkinu sé sýnd. Ég mótmæli algerlega þeirri móðgun, sem n. og Alþingi er sýnd með þessum orðum hv. þm. — Enn fremur hefur hv. þm. borið fram till. um bátastyrk, till., sem hann var sjálfur með að drepa, þegar hann var fjmrh.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða till. hv. þm. Siglf. Þær hafa allar verið ræddar hér áður, nema sú, sem varðar skemmdir af flóðunum. N. mun að sjálfsögðu athuga þær till., sem ekki hafa legið fyrir áður.

Út af till. hv. þm. V-Húnv. vildi ég leyfa mér að koma með eina fyrirspurn. Er ætlunin, að þessi jörð sé keypt á fasteignamatsverði? Auk þess las hv. þm. upp heimild úr lögum til kaupanna, og þá þarf ekki heimild í fjárlögum, og sé ég enga ástæðu til að samþ. þessa till. Ég fæ heldur ekki skilið, hvers vegna hv. þm. vill setja þetta inn á 22. gr. Jarðir þær, sem þar eru, eru eingöngu fyrir jarðakaupasjóð, og ef hann á að kaupa, hefur hann nóg fé, auk þess sem jörð þessi kostar aldrei neinar 100 þúsundir. Ég hefði álitið, að hv. þm. vildi ekki verða til þess að brjóta það princip síns ágæta flokks að kaupa jarðir ekki fyrir ofan fasteignamat. Það hefur víst aldrei gerzt, nema í eitt skipti.

Um frystihúsin höfum við rætt við hæstv. ríkisstj., og hélt ég, að fella mætti niður þessa greiðslu, vegna þess að því yrði bjargað á annan hátt. Nú er það svo, að fiskimálasjóður á að standa undir þessari greiðslu, og varðar þá miklu, ef unnt yrði að auka tekjur hans um 70% eins og ætlað er. Ég get því alls ekki mælt með, að þetta verði samþ.

Ég veit, að tvennt er erfiðast við afgreiðslu fjárlaga, annað að sætta hv. þm. við skiptingu fjárveitinga, þó að það gefi hv. þm. samt enga ástæðu til að óvirða fjvn., því að henni ber skylda til þess að sjá til, að skiptingin sé sem réttust og sanngjörnust, og hitt, hversu mjög þreytandi það hlýtur að vera fyrir hæstv. forseta að sitja undir öllum þeim umræðum, sem hér fara fram um þetta mál. Ég vildi nú biðja forláts á því, hve ég hef orðið að lengja þessar umræður, en get jafnframt huggað hann með því, að ég mun ekki taka oftar til máls.