14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil í allri hreinskilni segja hv. 1. þm. Árn. það, að hann hefur ekkert tilefni haft til að segja það um hv. fjvn., að hún hefði farið hér inn á nýjar leiðir, sem ekki væru þinglegar, eins og hann sagði í sinni fyrri ræðu, að raska till. frá hæstv. ríkisstj. Hann hafói um það þau orð, að þar hefðum við brotið almenna reglu í fyrsta skipti, sem hann myndi eftir, með því að lækka till., sem settar hefðu verið inn á fjárlagafrv., og skipta þessu milli tveggja aðila, og að hann þekkti svo vel skapferli þessara manna, að þeir mundu ekki vilja þiggja fé, þegar það væri þannig til komið. En ég get sagt hv. 1. þm. Árn., að oddvitar á þessum stöðum hafa hvað eftir annað rætt við okkur og lýst þörfum sinna staða fyrir okkur, eins og margir aðrir, og upplýst, að hluti af þessu verki hafi verið framkvæmdur í sambandi við skólabyggingar. Þetta hef ég upplýst. Og hvað er svo hv. 1. þm. Árn. að krefjast að ég endurtaki utan þinghelginnar? Ég hef ekki minnzt á tvöfalda reikninga. (JörB: Við skulum vita, hvað skrifarar hafa skrifað.) — Svo hefur búnaðarmálastjóri, hv. 1. þm. N-M., upplýst hér í þinginu, að allir þeir skurðir, sem gerðir séu í þessu landi í mýrum — honum sé ekki kunnugt um, hvort það eigi við skurð gegnum kambinn - en það, sem gert sé að skurðum þarna í mýrum, sé gert að hálfu leyti með jarðræktarstyrk. Hann getur leiðrétt þetta, ef það er rangt. Og hvaða tilefni gaf svo fjvn. til þess, að hv. 1. þm. Árn. færi að segja hér, að enginn þyrfti að væna þetta fólk, sem þarna býr, um ódugnað? Ég vissi ekki til þess, að slíkt tilefni hefði komið fram frá n., hvorki í minni ræðu né í till. fjvn. Ég hefði ekki verið svo viðkvæmur fyrir því, ef hv. 1. þm. Árn. hefði talað einungis til mín. En hann talaði hér til n., sem mér er skylt að verja gegn öllum ótilhlýðilegum ásökunum, því að fjvn. hefur vakað dag og nótt og lagt mikið á sig til þess að vinns fyrir sitt föðurland svo vel sem hún hefur getað. Og ég vil spyrja hv. 1. þm. Árn. um það, þegar hann talar um, að ranglæti hafi verið sýnt hjá okkur í n. með því að taka af þessari upphæð og skipta til annarra, — hvers vegna mótmælti hann ekki því, að við hefðum tekið upphæð af 200 þús. kr. till., sem ríkisstjórnin stóð öll að, þannig að 70 þús. kr. fóru í hans kjördæmi? Ég held, að samvizkusemi þessa hv. þm. sé nokkuð skrýtin og fari eftir því, hvaða mál hann á við.