15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjhn. hefur haft málið til meðferðar á fundi í dag, þess vegna hefur ekki gefizt tími til að gefa út prentað nál. Nefndin klofnaði um málið, og vildu fjórir nm. að frv. yrði samþ. óbreytt. Minni hl. (BrB) vildi fella frv. og gefur út sérstakt nál. um málið. Með leyfi hæstv. forseta les ég upp nál. meiri hl.:

„Frv. var tekið fyrir og rætt í n., en samkomulag fékkst ekki um afgreiðslu þess. Vildi minni hl. (BrB) láta fella frv. Gefur hann því út sérstakt nál. Meiri hl. gat ekki fallizt á þetta. Leggur hann til, að frv. verði samþ. óbreytt.“

Ég get þess, að ég hefði viljað geta gert nánari grein fyrir þessu máli, en það er ekki hægt vegna aðkallandi afgreiðslu málsins. Þetta mál var borið fram á þskj. 10 og útbýtt í Nd. 11. okt. Við afgreiðslu þess þar voru gerðar nokkrar breyt. Fyrsta breyt. er sú, að sett var inn ný gr., sem skyldi vera 2. gr. í frv., um að í stað 6% söluskatts komi 7% sölusk. Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir því í Sþ., hvers vegna þetta er ákveðið svo. Aðalástæðan til að taka þetta inn í frv. er til að vega upp á móti þeim útgjöldum, sem samþ. hafa verið. Aðalástæðan fyrir því, að ég er fylgjandi þessu, er, að sýnilegt er, að við afgreiðslu fjárlfrv. frá þinginu er ekki hægt að fá þau greiðsluhallalaus, nema tekjur komi á móti auknum útgjöldum. Bornar hafa verið fram till. við 3. umr. fjárlfrv., sem nema 20 millj. kr. Það er ekki hægt að fullyrða, hvaða till. verða samþ., en sýnilegt er, að gæta þarf fyllstu varúðar við samþykkt þess, ef ekki á að vera á því greiðsluhalli. Frá mínu sjónarmiði er þegar orðinn greiðsluhalli á fjárlfrv., þó að ekki hafi verið samþ. annað inn en lýst hefur verið. Náðst hefur samkomulag um 3 millj. kr. lán., en þetta lán verður ekki greitt af tekjum ríkissjóðs. Það hefur verið ákveðin stefna ríkisstj. að skila greiðsluhallalausum fjárlögum og helzt með greiðsluhagnaði. Ég viðurkenni, að frv. er varlega áætlað, þó að fjmrh. hafi lagt hækkun um 1 millj. kr. til að greiða að fullu gjöld á árinu, sem ekki hafa verið tekin með. Nú hefur m.a. verið gerð brtt. við 22. gr., sem kemur til með að kosta ríkið milljónir króna, ef hún verður samþ. Aðrar breyt. hafa verið gerðar í Nd., m.a. sett inn ný 3. gr., og er það nokkur breyt. á 24. gr. l. Hækkaðir hafa verið dráttarvextir úr 1/2% í 1%, og staðfestir það, að ég hef haft meira til míns máls heldur en hæstv. ráðh. Ég hef ekkert frekar um þetta að segja, en verið er að gera breyt., sem ekki var áður.

Í sambandi við 3. málsgr. þessarar gr. leyfi ég mér að benda á og beina til hæstv. ráðh., hvort ekki sé hægt að ákveða með reglugerð, þegar úrskurður er kveðinn upp af yfirvöldunum um skattamál, að gefa skattgreiðanda tækifæri til að gæta hagsmuna sinna í sambandi við afgreiðslu málsins. Allir úrskurðir í þessum málum eru felldir fyrir luktum dyrum og engin sönnun fyrir því, að þær athugasemdir, sem þeir gera við skattaálagninguna, séu nokkurn tíma lesnar. Ég vildi aðeins minnast á þetta við hæstv. ráðh. Ég vona, að hann beiti sér fyrir því, að hér sé ekki eitt sjónarmið látið ráða öllu, heldur sé tekið fullt tillit til beggja aðila.

Hvað viðvíkur síðari málsgr. vil ég segja, að þar þyrfti að gera breyt. á. Skattgreiðendum er skylt, þó ágreiningur sé um skattinn, að greiða hann að viðlögðum 1% dráttarvöxtum, hafi hann ekki verið greiddur fyrir eindaga. Þó er skylt að taka fram, að sé skatturinn lækkaður, ber að endurgreiða það, sem lækkuninni nemur. Mér finnst það ósamræmi í lögunum, að annar aðilinn skuli greiða 12% í vexti af því, sem hann hefur ekki greitt af skatti sínum á tilsettum tíma. Þá finnst mér, að ríkissjóður ætti að greiða 12% af því fé, sem hann hefur oft tekið og haldið fyrir skattgreiðendum. Ég get ekki komið með neina brtt. um þetta, því að nauðsynlegt er að hraða framgangi málsins.

Ég bendi á, að 25% leyfisgjald af ferðafé helzt áfram, og sama er að segja um söluskatt af bifreiðum, að hugsað er að hann haldist áfram. Ég álít, að báðir þessir skattar ættu að falla úr gildi. Þetta mæli ég ekki fyrir munn meiri hl., heldur er þetta mín skoðun á málinu.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og er ég því fylgjandi með þeim forsendum, sem ég hef skýrt frá.