15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Við vorum í dag, í sambandi við almannatryggingarnar, að tala um innheimtuákvæði, sem stóð til að sett væru í þau lög, til þess að tryggja rétt almannatrygginganna gegn þeim bæjarfélögum, sem standa í vanskilum. Hafi þar verið gengið langt til að tryggja innheimtuna, þá sýnist mér, að í 3. gr. þessa frv. sé ekki tekið mýkri silkihönzkum á innheimtunni, þar sem segir:

„Sá, er vöru selur eða lætur í té þjónustu, sem söluskatt ber að greiða af, ábyrgist skilvísa greiðslu skattsins til innheimtumanns ríkissjóðs. Hafi einhver eigi greitt skattinn innan mánaðar frá gjalddaga, skal hann greiða 1% í dráttarvexti fyrir hvern byrjaðan mánuð frá gjalddaga. Þá má og innheimtumaður láta lögregluna stöðva atvinnurekstur hans, þar til full skil eru gerð, með því m.a. að setja verkstofur, útsölur, tæki og vörur undir innsigli.“

Hvar er nú hv. þm. S–Þ.? Ég get varla ímyndað mér, að hann greiði þessu atkv. Annars er í skemmstu máli um þetta frv. að segja, að söluskatturinn var, eins og alkunnugt er, tekinn upp til að gera ríkissjóði kleift að standa undir ábyrgð á fiskverðinu. Nú hefur sú ábyrgð verið felld niður, og ætti þá, ef allt væri eðlilegt, að fella tekjustofninn niður líka, og þetta frv. hefði átt að fjalla um það. Fyrst var hann 3%, nú er hann 6%, og nú leggur hæstv. fjmrh. til, að hann verði hækkaður um 1%, og áætlar hann, að sú hækkun gefi 5–6 millj. kr. tekjur. Hins vegar var því lofað með gengisfellingunni, að þegar hún færi að verka, þá yrði sköttum aflétt almennt, hvað þá sköttum, sem settir eru til að standa undir fiskábyrgð, sem búið er að fella úr gildi. Einnig er tekjuáætlun ríkissjóðs svo rúm, að nægar tekjur munu vera fyrir útgjöldum ríkissjóðs, ef þær væru áætlaðar í samræmi við raunveruleikann og óeðlileg svartsýni hæstv, fjmrh. væri ekki látin sitja í fyrirrúmi fyrir öllum staðreyndum. Ég legg því til, að þetta frv. verði fellt, og ég mun greiða atkv. á móti því.