15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 6. landsk. þm. sagði um innheimtuákvæðið í lögunum, vildi ég segja nokkur orð því til útskýringar. Þetta ákvæði er sett eftir tillögum tollstjórans í Reykjavík og þeirra manna, sem sérstaklega hafa athugað þetta mál fyrir ráðuneytið og hafa reynslu um slíkt. Innheimta þessa skatts er stórkostlegt alvörumál. Þetta er gjald, sem innheimt er af almenningi og á að skila til ríkisins. Þetta er eins konar geymslufé, sem þeir taka við, sem innheimta. Það hefur sýnt sig, að innheimta þessa gjalds er afar örðug, og þetta ástand er að verða svo alvarlegt, að ekki er sjáanlegt annað en þetta gjald ætli að daga uppi hjá þessum aðilum, sem innheimta eiga fyrir ríkið. Þetta er mjög alvarlegt og hættulegt fyrir atvinnurekendur sjálfa, því að ef þetta er ekki tekið jafnóðum, vilja þeir freistast til að nota það til einhvers annars og festa það í rekstri. Þetta hafa aðrar þjóðir séð, t.d. Danir, Norðmenn, Svíar og fleiri þjóðir, sem hafa svona gjöld. Þær láta borga mánaðarlega til að forðast þessa hættu og hafa allar þetta ákvæði, að ef gjaldinu er ekki skilað, þá er fyrirtækinu lokað. Það verður til þess, að þetta dagar ekki uppi, og fólki verður ljóst, að þetta er ekki skattur, heldur geymslufé, sem skila á áfram. Það er sannfæring mín, að öllum sé fyrir beztu, að þetta ákvæði sé sem skýlausast, svo að gjaldið komi jafnóðum. Þetta ástand er svo ískyggilegt, að við höfum ekki séð, að við gætum farið aðrar leiðir en nágrannaþjóðir okkar hafa farið.

Mér dettur ekki í hug að fara að svara þeim staðlausu fullyrðingum, sem hv. 6. landsk. þm. kom með um fjárhagsáætlun ríkisins, sjálfsagt í 20. eða 30. sinn, hann talar þar alltaf eins og hann hafi ekki heyrt, hvað sagt hefur verið um þessi mál.