15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það þýðir víst ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. eða aðalefni þess, þ.e. framlengingu á söluskattinum og hækkun þá, sem lagt er til að gerð verði á honum. Við sósíalistar höfum verið þessu andvígir, og hv. 1. landsk. hefur lýst afstöðu okkar til þess, en um það verður sjálfsagt engu um þokað, þar sem ríkisstj. hefur tekið þessa stefnu og virðist staðráðin í að feta þá leið áfram og taka stærri og stærri skref og leggja slíkar álögur á neytendurna í landinu. Ég skal þess vegna ekki fjölyrða um það, en ég vil leyfa mér að bera fram 2 brtt. á þskj. 405 við 5. gr. frv., þ.e. varðandi gjaldeyrisskatt af innfluttum fólksbifreiðum og 20% söluskatt af bifreiðum, sem ganga kaupum og sölum innanlands. Það er nú kunnugt, að frá því að lög þessi voru sett 1948, hafa orðið mjög miklar breyt. á aðstöðu atvinnubifreiðastjóra.

Það var talið, og vafalaust að allmiklu leyti með réttu, að árið 1948 og fram á það ár, hafi þetta verið mjög arðvænlegur atvinnuvegur, og í sambandi við það hafði skapazt allmikið brask með bifreiðar, bæði þær, sem fluttar voru nýjar til landsins, og eins þær, sem fyrir voru í landinu, og það mun hafa átt sér þó nokkurn stað, að þeir, sem voru búnir að komast yfir bifreiðar, hafi getað selt þær með verulegum hagnaði. Þetta ástand var árið 1948 talið gefa ástæðu til að leggja þau gjöld, sem ákveðið var, á innflutning bifreiða og sölu, og þau er enn verið að framlengja m.a. með 5. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir. Þetta ástand er nú orðið gerbreytt. Atvinna atvinnubifreiðastjóra hefur minnkað alveg geysilega og er nú orðin það lítil, að ýmsir, sem stundað hafa þessa atvinnu árum saman, telja sér tæpast fært að halda því áfram, þeir fá ekki af því þær tekjur, sem nauðsynlegar eru til lífsframfæris, enda hafa bifreiðar, ekki síður en annað, stórhækkað og ekki hvað sízt fyrir það, að þessir skattar hafa verið á lagðir.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi veitt því athygli, að í framhaldi af nál., sem lagt hefur verið fram í Nd., er birtur eins konar reikningur yfir bifreið, innflutta árið 1948, og annar yfir sams konar bifreið, innflutta á yfirstandandi ári, og þessi innkaupareikningur ber með sér, að á þessu tímabili hefur rétt verð bifreiða, með aðeins 5% álagningu, hækkað hvorki meira né minna en úr 28409,00 upp í 85686,36 kr., eða um það bil þrefaldazt.

Þessi hækkun á að vísu rætur sínar að rekja til fleiri atriða, en einn mjög verulegur þáttur er einmitt þessi skattur, sem ríkissjóður hefur lagt á innflutning fólksbifreiða og leitt hefur til þess, að hlutur ríkissjóðs í innflutningsverði bifreiðarinnar hefur hækkað úr 9872,15 kr. í 39063,57 kr., eða um það bil fjórfaldazt. Þetta sýnir mjög ljóslega, hvaða áhrif þessi gjaldeyrisskattur hefur á innflutningsverð fólksbifreiða, og leiðir til þess, að jafnframt því, sem hagur bifreiðastjóra hefur gengið saman, verður þeim ákaflega torvelt, og mörgum algerlega ókleift, að geta keypt bifreiðar, þó að þeir ættu þess kost að fá þær innfluttar. Nú lýsti hæstv. ráðh. því yfir áðan, að hann teldi þetta sanngirnismál. Hann vill þó ekki, að þessu ákvæði laganna sé breytt, heldur gefur hann fyrirheit um, að ef atvinnubifreiðastjórar fái leyfi til að flytja inn bifreiðar, mundi hann beita sér fyrir því, að þeir yrðu undanþegnir gjaldeyrisskatti. Þetta er mér að vísu gleðiefni, og mér dettur ekki í hug að efa, að hann muni standa við það, ef slík tilfelli koma fyrir meðan hann gegnir því embætti, sem hann er nú í, og er það að vísu ágætt, að atvinnubifreiðastjórar mega eiga von á að þurfa ekki að greiða skattinn. En hins vegar sé ég ekki betur en til að framkvæma þetta fyrirheit þyrfti blátt áfram lagabreytingu, þegar til þess kæmi. Þá yrði að gera það með bráðabirgðalögum.

Því getur ráðh. komið til leiðar, en ég sé ekki, að þá væri ekki réttast að breyta þessu lagaákvæði nú, þegar tækifæri er til þess og málið er til meðferðar hér á þinginu. Ég tel það miklu eðlilegra.

Ég skal þá ekki fjölyrða frekar um þetta atriði, ég sé sem sagt ekki ástæðu til að taka till. aftur þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh., vegna þess að ég tel, að þetta verði ekki framkvæmt nema með lagabreytingu, og þá sé eins gott að gera það nú þegar.

Síðari hluti till. fjallar um, að fella skuli niður 31. gr. þeirra laga, sem hér um ræðir, en sú grein fjallar um, að fella skuli niður 20% söluskatt af bifreiðum, sem ganga kaupum og sölum innanlands. Um þetta atriði gildir það sama og ég hef sagt um gjaldeyrisskattinn; skv. lögum á sá, sem selur bifreið, að greiða þetta gjald til ríkisins, hann leggur það náttúrlega á söluverð bifreiðarinnar, svo að í rauninni verður það kaupandinn, sem söluskattinn greiðir. Þetta torveldar atvinnubifreiðastjórum að endurnýja bifreiðar sínar, hve mikið sem þeim liggur á.

Það hefur því miður verið svo, eins og hæstv. ráðh. gat um áðan, að atvinnubifreiðastjórar hafa ekki fengið innflutningsleyfi fyrir bifreiðum, a.m.k. ekki svo að neinu nemi. Meira að segja þegar almennt voru fluttar inn bifreiðar, þá fengu atvinnubifreiðastjórar hverfandi lítið af þeim. Þetta hefur leitt til þess, að atvinnubifreiðastjórar, sem nauðsynlega verða að endurnýja bifreiðar sínar, því að mjög lélegar bifreiðar er ekki hægt að nota, verða að kaupa bifreiðar á innlendum markaði, þó að þær séu ekki nýjar, og greiða í verði þeirra þennan söluskatt, því að auðvitað hlýtur seljandinn að reyna að bjarga sér með því að leggja hann á bifreiðina. Vegna þess atvinnuástands, sem nú ríkir í þessari starfsgrein, finnst mér engin sanngirni að leggja þessa byrði á bifreiðastjórana, ef þeir þurfa að kaupa bifreið til að geta haldið starfinu áfram.

Ég veit ekki, hve miklar tekjur ríkissjóður hefur fengið af þessum 20% söluskatti. (Fjmrh.: Það er á 2. millj. kr. á þessu ári.) Þó að segja megi, að ríkissjóð muni um hverja milljónina, þá held ég, að á fjárlögum, sem eru um 300 millj. kr. há, sé það ekki það mikið atriði fyrir ríkissjóð, að ekki sé fært að ganga til móts víð atvinnubifreiðastjóra og fella þetta gjald niður. Það mundi, eins og þegar hefur verið tekið fram, greiða ofurlítið fyrir því, að þeir gætu endurnýjað bifreiðar sínar, og er ekki það mikið fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð, að ekki ætti að vera hægt að gera það.

Ég vildi þess vegna vonast til þess, að hv. þdm. sjái sér fært að verða við þessari till. og eins um gjaldeyriskattinn, eins og ég teldi líka sanngjarnt, þó að það hafi kannske ekki mikla praktíska þýðingu, þar sem ekki er líklegt, að mikill innflutningur verði á bifreiðum á næstunni.