13.12.1950
Efri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

116. mál, háskólakennarar

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Samkv. l. frá 1930 skulu dósentar, sem starfað hafa við Háskóla Íslands í 6 ár, verða prófessorar. Með l. nr. 66 1944 voru sett tvö dósentsembætti, og í þeim l. er fram tekið, að þeir menn, sem þeim embættum gegndu, skyldu ekki geta orðið prófessorar á sama hátt. — 1941 var ráðinn lektor við skólann til kennslu í íslenzku nútímamáli. Þá voru ekki sett sömu skilyrði og um þá dósenta, sem ég nefndi. Eftir 6 ára kennslu varð þessi maður prófessor. Virðist eðlilegt, að sömu lög gildi fyrir þá, sem kenna málfræði, bókmenntir og sögu, að þeir hafi réttindi til að verða prófessorar eftir 6 ára kennslu við Háskóla Íslands. Ekki er sanngjarnt, að þessi tvö embætti séu undanskilin og þeir, sem þeim gegna, geti ekki náð sömu réttindum. Til að leiðrétta þetta er þetta frv. fram borið. — Legg ég til að vísa frv. til 2. umr.