15.12.1950
Efri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

116. mál, háskólakennarar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er til umr., lá fyrir hjá menntmn. í dag og var þar athugað, og hún varð sammála um að mæla með, að það næði fram að ganga. Þessar breytingar eru í raun og veru sjálfsagðar. Það var töluverð tregða við að stofna þessi 2 kennaraembætti, dósentsembættin, 1944, og var því sú undantekning sett í lögin, að heimilt væri að 6 árum liðnum að breyta dósentsembættunum í prófessorsembætti. Þetta þótti ekki samrýmanlegt nú orðið, og ég verð að segja það, að ég sé ekki annað en þetta sé fullkomið réttlætismál, að þessir menn fái laun eins og aðrir kennarar þessa skóla. Og ekki síður vegna þess, að þeir hafa sýnt í verki, að þeir eru ekki eftirbátar annarra. Nefndin mælir því með, að frv. verði samþ.