15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

66. mál, skemmtanaskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér er farið fram á að framlengd sé heimild til að innheimta skemmtanaskatt með 200% álagi. Nú er mér kunnugt um breytt viðhorf hjá kvikmyndahúsum úti um land, að umsetningin er slík vegna hrörnandi efnahags almennings, að þau eru flest ef ekki öll rekin með tapi. Ég held því, að það væri eðlilegt, að þau fengju að halda þessum rekstri áfram og greiða af þessu eingöngu skemmtanaskatt samkv. skemmtanaskattsl. frá 1927, en álagið til Reykjavíkur héldist. Ég býst við, að aðsóknin að kvikmyndahúsunum hér í Reykjavík sé það jöfn, að þau fyrirtæki hér í höfuðstaðnum geti ef til vill borgað skatt með 200% álagi, og mun ég því leggja til, að frv. haldi sér að því leyti, og vildi því bera fram brtt. á þá lund, að á eftir orðinu „kvikmyndasýningum“ komi: í Reykjavík. Vil ég leyfa mér að leggja þá brtt. fram.