15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

66. mál, skemmtanaskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér heyrist á hæstv. viðskmrh., að vegna tekjuþarfa þjóðleikhússins og félagsheimila, sem fá mest af skemmtanaskattinum, megi ekki rýra þennan tekjustofn. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En það er ekki síður sjónarmið að athuga, hver er aðstaða skattgreiðenda. Er nokkuð að skattleggja hjá kvikmyndahúsum úti um land? Aðstöðumunurinn þar og hér í Reykjavík er sá, að hér getur hvert kvikmyndahús haft kvikmyndasýningu daglega, tvisvar, þrisvar að deginum flesta daga ársins. Þetta eru stórfyrirtæki, sem velta milljónum, flest eða öll. Úti á landi verða kvikmyndahúsin að launa mann sem húsvörð og í flestum tilfellum sýningarmann og dyravörð, en hafa ekki möguleika á kvikmyndasýningum nema einu sinni til tvisvar í viku á mörgum stöðum og oftast langt frá því fyrir fullu húsi. Á slíkum stöðum er nógu erfitt að borga skemmtanaskattinn, sem á var lagður upphaflega, áður en þetta álag var samþ., og það er staðreynd, að flest kvikmyndahús utan Reykjavíkur eru rekin með tapi. Kvikmyndahúsið í Hafnarfirði borgar ekki skemmtanaskatt, — það hefur tekjurnar til að byggja elliheimili, og eins er með kvikmyndahúsið á Akranesi, og þegar þau eru frá dregin af kvikmyndahúsum í nágrenni Reykjavíkur, þá er aðstaða kvikmyndarekstrarins að öðru leyti á þann veg um slík fyrirtæki, að þau standa ekki undir sínum eigin útgjöldum og hafa þannig ekkert bolmagn, því að skemmtanaskatturinn tekur 40% af brúttó innkomnum tekjum, og eins og þetta er nú orðið, er sett á hann 200% álag.