06.11.1950
Neðri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

72. mál, stjórn flugmála

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv. er að mestu leyti shlj. l. nr. 65 frá 1947, að öðru leyti en því, að hér er gert ráð fyrir, að embætti flugmálastjóra verði afnumið. Eftir þá reynslu, sem fengizt hefur af þeirri tilhögun við stjórn flugmála, sem tíðkazt hefur undanfarið, að flugráð fari með stjórnina undir yfirstjórn ráðherra, þá má segja, að hún hafi yfirleitt gefizt vel. Þó verður að telja rétt, að horfið verði frá þeirri tvískiptingu, sem verið hefur í embættisfærslunni, þar sem flugmálastjóri og flugvallastjóri hafa staðið undir flugráði sem jafnréttháir embættismenn. Það hefur komið í ljós, að skipting þessi er óheppileg. Hér er því lagt til, að embætti flugvallastjóra komi nú fyrir bæði þessi embætti. Það er einfaldara fyrirkomulag og miðar auk þess í sparnaðarátt.

Þá er hér einnig í 3. gr. tekin upp heimild fyrir ráðh. til að setja reglur um flugferðir innlendra flugfélaga. Það mál hefur oft verið rætt, að samkeppni hinna innlendu flugfélaga sín á milli væri óheppileg og meira væri eytt í flugferðir þeirra en nauðsyn krefði og komast mætti hjá með hagfelldara skipulagi. Það sýndi sig hins vegar, að ráðuneytið hafði ekki það vald, sem það þurfti til að koma hér breytingum við. Var reynt að fá félögin til að fallast á áætlun um betri efnisnýtingu og eldsneytis, en sú tilraun bar ekki þann árangur sem skyldi, einkum vegna þess, að ekki var unnt að samræma svo hagsmunasjónarmið félaganna, að þau gætu fallizt á áætlunina. Þykir því sýnt, ef koma á þessum málum á hagkvæmari grundvöll, að gefa verði ráðuneytinu heimild til að taka þarna í taumana.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.