06.11.1950
Neðri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

72. mál, stjórn flugmála

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég býst nú ekki við, að stofnað verði til langra umr. um þetta mál hér við 1. umr. Það kann að verða rætt betur síðar, ef ástæður verða til. En óneitanlega kemur þetta nokkuð einkennilega fyrir sjónir. Fyrir þremur árum var sem sagt það skipulag á þessum málum, að þá var aðeins einn embættismaður, sem hafði með þau að gera; en þegar ný stjórn tók við völdum árið 1947, þótti ástæða til að skapa þá tvískiptingu í embættinu, sem hæstv. ráðh. talaði hér um. Það verður því að vera annaðhvort, að þeir menn, sem tóku við stjórnartaumunum 1947, hafi í þessu verið óvenju skammsýnir og kannske ekki gæddir þeim sparnaðaranda þá, sem hefur gripið þá nú, eða þá að hér liggur einhver annar tilgangur að baki. Þetta kemur væntanlega í ljós, þegar n. fær málið til athugunar, og skal ég ekki á þessu stigi fjölyrða um það frekar.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að sett verði reglugerð um flugferðir innlendra flugfélaga. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að mælast til þess, að hv. n. athugi vandlega gildandi lög og reglur um öryggisþjónustu íslenzkra flugfélaga og sérstaklega um hvíldartíma flugmannanna, því að rík nauðsyn ber til, að þeir hafi löglega tryggðan þann hvíldartíma, sem þeim er nauðsynlegur til að gegna af fullu öryggi sínu ábyrgðarmikla starfi.

Þá vil ég enn fremur í sambandi við 3. gr. vekja athygli á því, að betur finnst mér þurfa að ganga frá valdi ráðh. til að veita sérleyfi á áætlunarleiðinni innanlands en þar er gert. Það eru nú tvö flugfélög, sem keppa í landinu sín á milli Og það er hverju orði sannara, sem hæstv. ráðh. sagði, að ýmislegt er ópraktískt í sambandi við rekstur þeirra, eins og í frjálsri samkeppni yfirleitt, og eyðsla á verðmætum miklu meiri en ella mundi, ef starfsemin væri betur skipulögð í heild. Hins vegar er nú á það að líta, að við lifum undir efnahagsfyrirkomulagi auðvaldsþjóðfélags, þar sem oft kemur til kasta ríkisvaldsins að gera upp á milli tveggja samkeppnisaðila. Og þar sem svo er háttað, sitja löngum í ríkisstjórnum menn, sem eru fulltrúar fyrir hagsmunaheildir tiltölulega fárra manna, og verður því Alþingi að gæta varúðar, ef sérstök auðfélög eiga ekki að fá einokunaraðstöðu í þjóðfélaginu. Það þarf að vaka yfir því, að hinum sterku séu ekki fengin einokunarvöld í hendur og hinir smærri knúðir til að ganga upp í hinar stærri heildir. — Þetta vildi ég benda á, hv. n. til athugunar. Hins vegar viðurkenni ég fyllilega, að það er afskapleg eyðsla, sem á sér stað í verðmætum eins og benzíni í sambandi við flugferðirnar, eins og þeim er háttað vegna samkeppni félaganna, og vafalaust er erfitt að ráða bót á þessu. En um þá hnúta verður á einhvern hátt að búa þannig með afskiptum Alþingis, að sérstökum mönnum verði ekki sköpuð einokunaraðstaða í þjóðfélaginu.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta; það er eðlilegt, að málið fái sína athugun í n., og hún mun vafalaust heyra nánar frá hæstv. ríkisstj. um það, sem hún hefur í huga í sambandi við þær breytingar, sem hér liggja fyrir.