12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

72. mál, stjórn flugmála

Frsm. meiri hl. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. hefur haft þetta mál alhengi til meðferðar og rætt það ýtarlega. Hún hefur sent frv. til umsagnar þeim aðilum, sem um flugmál fjalla einkum í landinu, fyrst og fremst til flugráðs, sem mælir með því, að það verði samþ. óbreytt. Þá mælti Flugfélag Íslands einnig með frv., en stjórn Loftleiða h/f á móti því. Enn fremur átti n. tal við flugmálastjóra, sem lýsti sig andvígan því og lagði fram álitsgerð, sem birt er í nál. hv. minni hl. n.

Það, sem í frv. felst fyrst og fremst, er, að lagt er til, að stjórn flugmálanna verði gerð einfaldari og ódýrari en nú er. En eins og kunnugt er, þá hafa síðan 1947 starfað 2 embættismenn að stjórn flugmálanna, flugvallastjóri og flugmálastjóri. Við fengna reynslu hefur komið í ljós, að þessi tvískipting er óþörf. Þess vegna hefur núv. ríkisstj. lagt fram frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu. En samkv. því er gert ráð fyrir þeirri breyt., að embættin verði sameinuð, þannig að embætti flugmálastjóra verði lagt niður. Enn fremur er ráðgerð sú breyt. í 3. gr. frv. að heimila ráðh. að setja reglugerð um flugferðir innlendra flugfélaga og veita sérleyfi til fastra áætlunarferja á flugleiðum innan lands. Orsök þeirra breyt. er sú, að talið er, að hin harða samkeppni hinna innlendu flugfélaga leiði til mikillar óþarfa eyðslu á fjármunum, og því þykir rétt að gefa ráðh. heimild til að setja reglur um betra skipulag á þessum málum. Þegar á þetta var litið, taldi meiri hl. samgmn. rétt, að frv. næði fram að ganga, og leggur til, að það verði samþ. með smábreytingu, þeirri, að sektarákvæðið í 4. gr. verði hækkað úr 40 þús. kr. í 30 þús. kr.

Um þetta hef ég ekki meira að segja f.h. meiri hl. n. Hann telur stefnt hér í rétta átt, þar sem miðað er við að gera framkvæmd þessara mála ódýrari og einfaldari en nú er.

Frá mínu sjónarmiði persónulega, þá tel ég, að e.t.v. hefði jafnframt mátt gera aðra breyt. á gildandi lögum um flugmál en þá, sem felst einkum í þessu frv., en það er varðandi ákvæðin um skipan flugráðs. Hingað til hefur það verið svo skipað, að meiri hl. fulltrúanna hefur verið frá öðru hinna tveggja stóru flugfélaga, sem hér eru starfandi, en það hefur leitt til þess, að það félagið, sem hefur orðið útundan um „representasjón“ í flugráði, hefur orðið óánægt og beint gagnrýni að stjórn flugráðs og störfum. Það má að vísu segja, að hér sé meira um að ræða val á mönnum í flugráð heldur en breyt. á störfum stofnunarinnar. Og með það fyrir augum, að kjörtímabil fulltrúa í flugráði rennur út í árslok 1949, þá vildi ég ekki bera neina brtt. fram um þetta nú, en ég vildi láta þetta koma fram, að ég tel rétt, ef flugfélögin eiga að hafa meiri hluta í flugráði á annað borð, að þá verði fulltrúatölunni skipt jafnar niður milli þeirra en verið hefur fram að þessu.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vil f.h. meiri hl. n. mæla með því, að frv. nái fram að ganga með þeirri breyt., sem meiri hl. leggur til á þskj. 272.