12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

72. mál, stjórn flugmála

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það hefur nú farið svo um þetta mál, að n. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess, og hef ég gefið út sérstakt nál. á þskj. 316, þar sem ég legg til, að það verði fellt. Meiri hl. n. leggur hins vegar til, að það verði samþ.

Meginbreyting sú frá gildandi lögum, sem gert er ráð fyrir í frv., er í stuttu máli sú, að lagt verði niður starf flugmálastjóra og flugvallastjóra falið að gegna embætti hans. Þetta er hinn raunverulegi tilgangur frv., og það sem verið er að leita eftir. Þegar athugað er, hvernig máli þessu er háttað, þá kemur í ljós, að mjög einkennilega er að því unnið og að það er eitthvað annað en sparnaður, sem keppt er að, enda þótt reynt sé að láta líta svo út.

Embætti flugmálastjóra var ákveðið með l. 1945, en 1947 var þessum lögum breytt og ákveðið að setja á stofn flugráð og stofna embætti flugvallastjóra ríkisins. Þá var þeim rökstuðningi beitt, að yfirstjórn flugmálanna væri svo yfirgripsmikil og vandasöm, að nauðsynlegt væri að bæta þar við nýjum starfsmanni, enda þótt það hefði nokkurn aukinn kostnað í för með sér. Samkv. þessari nýju skipan átti flugvallastjóri að annast rekstur og viðhald flugvalla ríkisins, en flugmálastjóri önnur störf, er flugið varða, svo sem flugumferðarstjórn, öryggisþjónustu og eftirlit með nýbyggingum flugvalla. Yfir þeim báðum var svo flugráð.

Nú kemur fram frv. um að leggja niður þetta embætti af sparnaðarástæðum og er flutt af hálfu sömu mannanna, sem stóðu að hinni fyrri breytingu, að taka nýtt embætti upp. Nú má allt í einu spara þetta og fela einum manni yfirstjórn flugmálanna, sem áður var talið ofverk flugmálastjóra. Úr frá því sjónarmiði virðist nú eðlilegt, að flugmálastjóri, sem er eldri í starfi og reyndari en sá maður, er nú á að fela þetta á hendur, þar sem hann hefur gegnt þessu embætti frá öndverðu, — út frá því sjónarmiði virðist einsætt, að hann hefði haldið embætti sínu og fyrst og fremst væri afnumin sú breyt., sem gerð var 1947, og embætti flugvallastjóra, er þá var stofnað, hefði verið lagt niður. En þessi leið er ekki valin, heldur á að leggja niður eldra embættið og reyna að losna með því móti við hinn eldri embættismann, er svo lengi hefur farið með yfirstjórn þessara mála, og láta starfssvið hins yngri og óreyndari manns, sem aðeins hefur gripið yfir stjórn flugvalla, ná yfir stjórn á flugmálunum öllum. Eins og hér er því í pottinn búið um hina ráðgerðu breyt., þá er eðlilegt, að hv. flm. frv. skorti rök til skýringar slíkri ráðstöfun. Það er ástæðulaust að draga nokkra dul á það, að það hefur orðið ofan á hjá hæstv. ríkisstj. að losa sig við tiltekinn embættismann, sem ekki er kunnugt um, að hafi orðið hið minnsta á í embættisfærslu sinni, til þess að koma öðrum manni í hans starf. Það þykir því rétt að fara hér heldur krókaleiðina og gera embætti hins yngri manns, sem hér á hlut að máli, svo víðtækt, að það spenni yfir starfssvið hins eldri embættismanns.

Við þá litlu athugun, sem fram fór á þessu máli af hálfu samgmn., kom í ljós, að annað af hinum tveimur stóru flugfélögum hér innanlands, Loftleiðir h/f, mælir gegn frv. þessu og færir rök að þeim mótmælum. Flugfélag Íslands hins vegar rökstyður sitt álit ekki neitt og svarar aðeins í örfáum orðum á þá leið, að það hafi ekkert við frv. að athuga, nema hvað það bendir á, að gera ætti lítils háttar breyt. á 3. gr., sem fjallar um algert aukaatriði. Að öðru leyti lætur það ekki í té rökstutt álit í sambandi við þá breyt. á yfirstjórn flugmálanna, sem um er að ræða. — Þá kom einnig fram ýtarleg álitsgerð frá flugmálastjóra, sem prentuð er sem fylgiskjal með nál. mínu á þskj. 316, og rekur hann þar málið ýtarlega og sýnir með augljósu móti fram á, hve fjarri það er réttu lagi, að hér sé um skipulagsbreytingar til bóta að ræða, heldur einungis um framhald að ræða þar sem frá var horfið 1947, þegar nýr maður var settur inn í starfið við hans hlið, sem byrjaði að vasast í ýmsu því, er hann hafði haft með höndum.

Þá hefur hér einnig borizt til Alþ. umsögn félags flugvallastarfsmanna ríkisins, og er hún einnig prentuð með nál. mínu á þskj. 316, og er hún skýr og ótvíræð í þá átt að mæla eindregið í gegn þessu frv. og telja hér ómaklega að farið, að ætla með þessum hætti að víkja frá starfi embættismanni, sem nýtur fyllsta trausts og hefur gegnt því óaðfinnanlega.

Þá sendi enn einn aðili álit sitt, flugráð, en það er raunar sami aðilinn og stjórn Flugfélags Íslands, og svarar það aðeins með örfáum orðum, að það hafi ekkert við frv. að athuga, en rökstyður hins vegar ekkert álit sitt.

Það liggur þannig fyrir, að flugráð og stjórn Flugfélags Íslands, sem er nánast einn og sami aðili, geta á engan hátt rökstutt meðmæli sín með samþykkt frv. Hins vegar eru þrír aðilar, sem rökstyðja sitt mál ýtarlega og mæla frv. í gegn. En þótt svo sé, þá er nú sennilegt, að með þetta mál, eins og svo mörg önnur, hafi það ekki mikið upp á sig að ætla að ræða það ýtarlega eða leiða það rökum. Ef hv. stjórnarflokkar hafa ákveðið eitthvað, þá skal það standa, þó svo að engar röksemdir sé unnt að færa fyrir málunum og enginn fáist til að standa fyrir sæmilega skýrum svörum. Það mun því lítið tjóa fyrir þá, sem ekki geta fallizt á þá ráðstöfun, sem hér á að gera, að mæla henni í mót, þar sem hún mun ná fram að ganga eigi að síður.

Af þessu, sem ég hef nú sagt, legg ég til, að þetta frv. verði fellt. Það hefði að vísu verið réttmætt að gera nokkra breytingu á stjórn flugmála eða í sambandi við hana, sem sé þá að afnema lögin frá 4947 um þessi mál að afnema embætti flugvallastjóra og störf flugráðs. En efni þessa frv. fjallar ekki um neitt slíkt og á engan rétt á sér, og því legg ég gegn samþykkt þess.