12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

72. mál, stjórn flugmála

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það ber sannarlega alleinkennilega að þetta frv., sem hér liggur fyrir, ef maður ekki þekkti dálítið vel til, hvað er að gerast á bak við tjöldin í þessum efnum. Ég vil segja, að þær ríkisstjórnir, sem hafa setið að völdum frá 1947, hafa farið mjög aftan að þessum málum, bæði með þessu frv. og þeim lögum, sem þær hafa fengið samþ. fram að þessu um flugmálin. Þessar hæstv. ríkisstjórnir eru nú búnar að fara í kringum sjálfar sig í þessum málum. Það er auðséð af þessu frv., að það bákn, sem skapað var 1947, það er flugráð og flugvallastjóri, hefur aðeins haft einn tilgang, sem sé þann að breyta til gagnvart einum ákveðnum embættismanni í þjóðfélaginu, sem þó hafði ekkert verið sett út á og hefur fengið traust og hrós þeirra manna, sem bezt þekkja til. 1947 er skapað heilt bákn og ný embætti, en nú á að fara að leggja niður það gamla embætti með þeirri röksemd, að aldrei hafi verið þörf á annarri yfirstjórn flugmálanna en þeirri, sem var 1947. Með öðrum orðum: Hér er um að ræða, það hefur beinlínis verið komið tvígang fram fyrir Alþingi undir fölskum forsendum. Og nú treystir hæstv. ríkisstjórn sér ekki til að ræða þetta mál, sem hér liggur fyrir, á þeim raunverulega grundvelli, sem þetta frv. stendur á, en kýs útúrdúra og skipar flugvallastjóra og flugráð, til þess að hægt sé að leggja þetta gamla embætti niður. Þetta er óviðfelldin aðferð, svo að ekki séu höfð sterkari orð um það. Nú liggja fyrir upplýsingar um það, að framkvæmd á lögunum frá 1947 hefur verið næstum því að segja til skammar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Með öðrum orðum: Það, sem virtist vera tilgangurinn með þessum lögum, hefur ekki verið framkvæmt, þ.e. allt, sem við kemur starfsskiptingu og starfssviði, hefur verið meira eða minna brotið. Og það hefur kveðið svo rammt að þessum brotum á lögunum, að af hálfu annars flugfélags landsins hafa borizt kvartanir um þessi atriði til samgmn. Alþingis. Og þar kemur í ljós, að flugráð og flugvallastjóri hafa bókstaflega sölsað undir sig stjórn á þeim sviðum, sem ekki heyra undir þá aðila samkv. l. frá 1947, og hæstv. ríkisstj. hefur látið þetta líðast. — Annars held ég, að það væri máske réttast, að ég frestaði minni ræðu, úr því að hæstv. flugmrh. hefur ekki séð sér fært að vera hér viðstaddur umræðu þessa máls. Annars er það nú það minnsta, sem ríkisstj. getur gert, að vera viðstödd umr. þeirra mála, sem hún flytur hér á hv. Alþ. En ef hæstv. forseti óskar þess, þá get ég frestað minni ræðu. (Forseti: Það er ráðgert, að fundur standi til hálf-átta.)

Ég vil segja það, að þarna kemur fram ákæra frá öðru flugfélaginu um það, að þessir aðilar hafi sölsað undir sig stjórn á athöfnum, sem þeir lögum samkvæmt hafa ekkert með að gera, án þess að nokkur þessara aðila hafi haft til að bera þekkingu fram yfir flugmálastjóra, heldur frekar þvert á móti. Þetta flugfélag, sem er Loftleiðir h/f, bendir á, að það hafi jafnvel komið fyrir, að þessar aðgerðir hafi orðið mun dýrari heldur en áætlað hafi verið, og það kveðið svo rammt að þessu, að kostnaðurinn hafi jafnvel orðið tífaldur við það, sem áætlað var í byrjun. Við höfum kynnzt hinu og þessu viðvíkjandi framkvæmdum af hálfu hæstv. ríkisstj. Við vitum, að þær hafa farið fram úr áætlun. En að þær hafi tífaldazt, er dæmalaust. Ég vil því spyrja hæstv. ríkisstjórn: Er meiningin með þessum lögum að koma í veg fyrir, að hv. Alþingi geti fylgzt með framkvæmd opinberra mála sem þessara og að ríkisstj. geti skipað þar embætti eftir sínum geðþótta? Á að fara að innleiða þá reglu, að ef menn standa sig illa í starfi sínu, þá skuli þeir fá meiri völd, og ef menn standa sig vel, þá skuli þeim vikið frá og embættið afnumið? Ég held, að hv. þingmenn megi gera sér ljóst, hvert er verið að stefna með þessari aðferð. Það er heldur lagleg vísbending, sem meiri hl. Alþingis mundi gefa embættismönnum þjóðarinnar með samþykkt þessa frv. Það er hastarlegt, að svona mál skuli ekki fást rætt í alvöru, þegar enn fremur kemur yfirlýsing frá Loftleiðum h/f, þar sem sagt er, að eins og flugráð sé nú skipað, gefi félagið ekki treyst því sem óhlutdrægum aðila og telji því ekki ráðlegt að færa meira af þessum málefnum undir það. Með öðrum orðum: Eins og flugráð er nú skipað, þá sér þetta félag sér ekki fært annað en lýsa yfir: Við getum ekki treyst þessum aðila sem óhlutdrægum. Og það færir rök fyrir sínu máli. Er þetta ekki atriði, sem er fyllilega þess virði, að tekið sé tillit til þess? Er það ekki þess virði, er félag, sem er að brjótast við að halda uppi flugferðum, lýsir því yfir, að það geti ekki treyst þessari flugstofnun sem óhlutdrægum aðila, að staldrað verði við og athugað, hvað er að gerast á þessu sviði? Það er eitt af því, sem við hér á hv. Alþingi eigum að sjá um, að borgararnir njóti jafnréttis og að þeir geti treyst embættismönnum þjóðarinnar. Hér kemur yfirlýsing frá félagi um þetta efni, félagi, sem ég þykist vita, að engum detti í hug að segja að hafi pólitíska ástæðu til að taka afstöðu með flugmálastjóra og gegn flugvallastjóra og flugráði. Og það er ástæða til að halda, að þeir menn, sem standa að þessu félagi, séu nokkuð óhlutdrægir í sínum dómum og svo vandaðir, að þeir beri ekki upp svo ákveðnar kvartanir nema ástæða sé til þess.

En hvað er hér á seyði? Jú. Í stjórn Flugfélags Íslands h/f (og ég vil taka fram, að þó ég deili á stjórn þess félags, þá er ég ekki að deila á félagið sjálft eða draga úr þeirri forustu, sem það hefur haft í flugmálum Íslendinga), í stjórn þess og flugráði eru að nokkru leyti sömu mennirnir, því að þegar flugráð var skipað þá voru 3 ráðamenn Flugfélags Íslands h/f teknir til að mynda meiri hl. þess. Enn fremur má ef til vill minna á, að Eimskipafélag Íslands h/f setti um svipað leyti allmikið kapítal í flugfélagið, og nú sem stendur er framkvæmdastjóri Eimskipafélagsins formaður Flugfélags Íslands h/f, og böndin á milli þessara tveggja félaga eru orðin mjög náin, sem eðlilegt er, þar sem stjórnarmeðlimir þeirra eru að nokkru leyti sömu mennirnir. Og þetta eru menn, sem eru tengdir núverandi ríkisstjórn bæði bræðra- og venslaböndum. Við vorum hér í dag að samþykkja skattfrelsi til handa Eimskipafélagi Íslands h/f, og nú eigum við að samþykkja eins konar einokunarvald til handa Flugfélagi Íslands h/f á flugmálum Íslendinga, og þótt annar aðilinn í flugmálunum lýsi því yfir, að hann treysti ekki því valdi til stjórnar í þeim málum. Finnst nú hv. þdm. ekki nokkuð langt gengið í að sölsa undir einstakar persónur völd í embættis- og fjármálum þjóðarinnar, þegar svona er farið að? Ég held a.m.k., að þessi skipun mála, sem þarna er, væri þess verð, að hv. þdm. athuguðu, hvað væri að gerast. Ég vil spyrja, hvort tilgangurinn með þessari meðferð mála sé sá að fara að skapa misrétti á milli þegna þjóðfélagsins; hvort það sé markviss stefna hæstv. ríkisstj. að hindra, að menn geti rækt ákveðin störf, ef menn eru ekki af ákveðinni ætt eða í ákveðnum félagsskap. Ég hefði viljað geta rætt þetta mál nú, svo að hv. þm. gerðu sér ljóst, hvað raunverulega væri að gerast, og ég vil gera það í þessari ræðu. Og ég vil taka fram, að ég álít ekki forsvaranlegt að halda lengi áfram fundi, eftir að ráðherra í því máli, sem rætt er, er kominn af fundi, og beini því til hæstv. forseta, hvort ekki sé réttast að fresta fundi nú, þegar svona stendur á. (Forseti: Það er hugsað að slíta fundi kl. 7,30 í kvöld, en verði þá einhverjir á mælendaskrá, þá mun fundi að sjálfsögðu verða frestað.) Ég verð ekki búinn með mína ræðu kl. hálf-átta, og það er aðeins það, að ég vildi leggja fyrir hæstv. ríkisstjórn nokkrar spurningar, en þegar ráðh. mætir ekki, þá er þýðingarlaust að þylja þær upp. Og við þingmenn eigum að krefjast þess, að ráðherrar séu hér viðstaddir til andsvara í þeim málum, sem þeir bera fram, og að þeir standi í sínu embætti og slíkt verði ekki látið haldast uppi. Ég vil geta þess, að það hefur nokkrum sinnum komið fyrir, að forseti hefur orðið að slíta fundi kl. 2, vegna þess að ríkisstj. hefur ekki getað verið viðstödd. Og þegar kemur lengra fram á þingtímann, þá tekur maður eftir því, að ráðherrarnir tínast smátt og smátt út, er líða tekur á fundartímann, og þeir svara jafnvel ekki því, sem fyrir þá er lagt. Ég álít, að hæstv. ríkisstj. beri að rækja sína skyldu gagnvart Alþingi, og að það sé eitt af störfum hæstv. forseta að koma ráðherrunum í skilning um, hvernig þeim beri að rækja sínar skyldur. Það er því óviðkunnanlegt, að hæstv. flugmrh., sem lagt hefur fram þskj. með ýtarlegri og rökstuddri greinargerð fyrir þessu máli, skuli ekki vera í deildinni til þess að svara þeim fyrirspurnum, sem fyrir hann kunna að verða lagðar. Hitt er gefið, að hann kemst ekki undan því að svara þeim fyrirspurnum, sem ég legg fram, því að ég mun leggja þær fyrir hann seinna. Þær eru um margt, svo sem um vanrækslu við að gefa út erindisbréf, vanrækslu við að líta eftir verkaskiptingunni, skeytingarleysi um það, hvernig unnið er, og skeytingarleysi yfirleitt um þessi mál. Það er eðlilegt, að ráðherra beri að vera viðstaddur til að svara slíkum fyrirspurnum. Ráðherra, sem leggur hér fyrir frv. sem þetta, verður að geta sannfært hv. Alþingi um það, að hann sé hlutlaus í þessum málum. Því að þegar ráðh. fer fram á að mega skipta einokun á milli þegna þjóðfélagsins, þá er eðlilegt, að þm. vilji fá að vita, hvernig hann notar sitt vald. Það er því óhlutvendni að ætlast til, að Alþingi afgreiði þetta frv., án þess að hæstv. ráðh. svari til saka og þeim spurningum, sem fyrir hann eru lagðar í þessu máli. Ég mun því leggja mínar spurningar fyrir hann, er hann mætir. Þetta mál er það mikilvægt, því að það er ekki aðeins efnahagslegt öryggi þegnanna, heldur og líf þeirra, sem undir því er komið, að haldið verði þannig á þessum málum, að ekkert verði til sparað að tryggja öryggi þeirra, sem við þetta búa. Þarna á engan veginn við að kasta til höndunum, þarna er hin mesta nauðsyn á fyllstu gætni í afgreiðslu þessara mála og að það sé ekki sótt með neinu offorsi, heldur með alhliða athugun. [Frh.]