13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

72. mál, stjórn flugmála

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég sé, að þeir hv. þm., sem talað hafa, hafa haft löngun til að draga þessar umr. fram eftir kvöldinu, og skal ég ekki hindra þá í því. — Ég skal þá koma að því atriði í ræðu hv. síðasta þm., þar sem hann spurði, hvort ríkið yrði ekki að greiða þeim embættismanni laun áfram, sem vikið er úr embætti. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. hugsar sér það, að embættismaður ríkisins, sem búið er að víkja úr embætti, geti haft sín laun áfram. Það er almennt viðurkennt, að sé embætti lagt niður, þá er viðkomandi embættismanni gefinn ákveðinn uppsagnarfrestur. Þar sem hér er verið að leggja niður embætti, þá er þessum embættismanni sagt upp með hæfilegum fyrirvara.

Hv. 2. þm. Reykv. gat þess hér áðan, að þetta mál væri undir hlutdrægum ráðherra. Þetta mál er auðvitað lagt undir Alþingi, og það getur rætt það eins og það vill og síðan skipað sínum ráðh. fyrir eftir samþykki meiri hlutans. — Aðallega vil ég leiðrétta þann misskilning hjá hv. 2. þm. Reykv., að hér sé verið að auka vald nokkurra manna með því að leggja niður embætti flugmálastjóra. Hér er engin breyting á þessu hvað þetta snertir. Embætti flugmálastjóra hefur heyrt undir flugráð, og hér verður engin breyt. á þessu, og ekki er verið að færa valdið saman frá því, sem áður var. Breytingin er engin. — Hv. 2. þm. Reykv. sagði enn fremur, að hér væri verið að veita öðru flugfélaginu sérstöðu. Ekki er þetta rétt. Flugfélagi Íslands er ekki gefin nein sérstaða með þessu. En það er rétt, að í flugráði eru menn, sem eru í stjórn Flugfélags Íslands, og af því munu umrædd ummæli sprottin. Ég hef aldrei vitað, að um það hafi veríð kvartað, að þeir menn úr Flugfélagi Íslands, sem eru í flugráði, hafi misnotað sína aðstöðu að nokkru leyti. En ég skil, að hitt flugfélagið sé óánægt yfir því að hafa ekki fengið menn inn í flugráð líka, þegar þessi breyt. var gerð. Ég vil halda því fram, að þessi ummæli um sérdrægni hafi ekki við rök að styðjast. Hins vegar má segja, að æskilegast væri að hvorugt flugfélagið hefði aðild í flugráði, því að félögin þurfa mikið undir flugráð að sækja. Þegar þessi skipun var gerð, var ekki verið að breyta því mannvali, sem fyrir var, enda rennur nú tími flugráðs bráðum út, og má þá vel athuga það, hvort ekki sé æskilegt að gera breyt. á flugráði. — Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri hæpið að leggja þetta vald í hendur ráðherra, eins og segir í frv. Um þetta er beðið vegna þess, að samkeppni beggja félaganna hefur farið út í öfgar. Það er eðlilegt að gera ráðstafanir til þess að þessi dýru tæki og eldsneyti þeirra sé ekki eytt að óþörfu í svo öfgafullri samkeppni. Flugmálastjóri segir að vísu í bréfi til samgmn., að ráðh. hafi vald til að gera þetta. Það má oft um það deila, hversu víðtækt vald lög veita ráðherra. Mér hefur veríð bent á þetta, en ég tel þessa lagagrein svo tvíræða, að þetta orki tvímælis. Þá má deila um það, hvort þessi 1. gr. veiti ekki ráðh. heimild til að skipa fyrir, en vegna þess, hversu þetta er mikið hitamál hjá viðkomandi aðilum, þá vil ég hafa ótvíræða heimild, ef ég á að framkvæma þetta.