13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

72. mál, stjórn flugmála

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. smeygði sér undan því að svara því, hver væri aðaltilgangur þessa frv. Það þarf enginn að fara í grafgötur með það, að tilgangurinn er ekki sá að breyta skipulagi flugmálanna, sem geri rekstur þeirra betri og ódýrari, heldur er hér um að ræða að bola burt ákveðnum manni. Mér finnst þetta ólíkt ráðh. að geta ekki viðurkennt þetta í hreinskilni, heldur að vera með þennan blekkingavef og vera svo illa staddur að flýja burtu úr salnum, þegar umræður fara fram. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sjái til, að ráðh. geti verið viðstaddur. (Forseti: Þess hefur verið æskt, að umræðu verði haldið áfram.) Mér sýnist þetta meir en lítill hrokagikksháttur, að ráðh. skuli neita að vera viðstaddur, og ætla því að bíða um stund. (Forseti: Ráðherra er ekki viðlátinn og umræðu verður haldið áfram.) Ég fer fram á það, að ráðh. geti hlýtt á mál mitt, og vil þá að umr. verði frestað, (Forseti: Ég vil segja ræðumanni það, að forseti vildi gjarnan, að ráðh. væri hér viðstaddur, en það er ekki á valdi forseta að skipa honum að vera hér viðstaddur.) Ég vil segja forseta það, að ég er hér að svara ræðu ráðh., og þykir mér óviðkunnanlegt að tala yfir sæti hans auðu. Mér virðist það meira en lítið virðingarleysi af ráðh. að skipa að halda umr. áfram, en neita svo að vera viðstaddur umræðurnar. Ég vil spyrja forseta, hvort ekki sé hægt að taka fyrir annað mál, á meðan beðið er eftir ráðherra. (Forseti: Ekki er það hægt. Ég hef gert allt, sem hægt er, til að fá ráðh. til að koma og hlusta á hv. ræðumann, og ég hygg, að hið sama yrði uppi á teningnum, þótt málinu yrði frestað, því að ráðherra virðist ekki hafa áhuga á að hlusta á hv. ræðumann.) Finnst forseta það sæmandi af hæstv. ráðh. að skipa að halda málinu áfram og hlaupa síðan í burtu? Vill forseti þá ekki fresta málinu fyrst um sinn? Ég veit ekki dæmi til þess, þegar fram hafa komið eindregin tilmæli frá þingmönnum, að ráðh. neitaði að hlýða á mál þeirra. (Forseti: Þá kemur ráðh., og getur nú hv. þm. haldið áfram ræðu sinni.)

Herra forseti. Mér þykir sárt, ef ég hef truflað hæstv. ráðh. í þýðingarmeiri störfum, en ég vil ekki fallast á, að ráðh. geti haldið ræðu og farið síðan brott úr salnum, en skipi svo fyrir, að umr. skuli haldið áfram. — Ég tók það fram, að hver, sem liti á þskj. 119, hlyti að sjá, að þetta frv. er ekki borið fram til að breyta skipulagi flugmálanna, heldur í þeim smáskítlega tilgangi að bola burt ákveðnum manni úr þjónustu ríkisins. — Nú er því haldið fram, að það sé heppilegt að tengja saman þessi tvö embætti, og finnst mér það skjóta nokkuð skökku við frv. það, sem borið var fram á Alþingi 1947 um breyt. á lögum nr. 65 frá 1945. Þegar þetta frv. var lagt fyrir þingið, þá var talið, að þróun flugmálanna hefði verið svo ör, að það væri nóg starf fyrir 1 mann að annast rekstur flugvallanna, nýbyggingarmál o.fl. Þá var talið nauðsynlegt að skipta þessu. Þá var líka bent á, að það væri ekki nein þörf á þessari skiptingu, en ríkisstj. barði hausnum við steininn og stofnaði 2 embætti. Nú er það komið á daginn, að það er ekki tilgangurinn að gera flugþjónustuna betri, heldur þetta smáskítlega sjónarmið að bola starfsmanni í burt. Ég vil leyfa mér að minna hæstv. ráðh. hér á greinargerð, sem fylgdi frv., sem var hér á Alþ. 1947, um breyt. á l. nr. 65 frá 4945. Þar segir svo: „Þessi þróun hefur haft það í för með sér, að stjórn og rekstur flugmála hefur orðið sífellt umfangsmeiri“. Og síðar í sömu grg.: „Skv. lögum hefur ríkið tekið að sér rekstur allra flugvalla í landinu. Er þetta nú þegar orðinn mjög mikill rekstur, og þó sérstaklega rekstur Reykjavíkurflugvallarins“. Og að lokum segir í grg.: „Gert er ráð fyrir því í frv., að tveir menn annist stjórn daglegra framkvæmda í flugmálum, þ.e. flugmálastjóri og flugvallastjóri. Þarf sú skipan í raun og veru ekki mikilla skýringa við. Hún er mjög eðlileg og að vandlega íhuguðu ráði þannig fyrir komið, að flugmálastjóri hafi með höndum öryggiseftirlit, nýbyggingu flugvalla og önnur störf, er snerta flugmálin almennt, og flugvallastjóri ríkisins verði framkvæmdastjóri fyrir flugvellina. Er eðlilegt að skilja þetta að. Má í því sambandi minna á, að sú starfsskipting, sem hér er fyrirhuguð, er ekki ólík því, sem nýlega hefur verið á komið í raforkumálum þjóðarinnar“. — Þetta eru nú rökin, sem voru borin fram 1947.

Þá vildi enginn ráðamanna hafa einungis flugvallastjóra og flugráð. Þá var það nauðsynlegt að hafa embættin tvö. Nú 1950 virðast flugmálin ekki eins umfangsmikil, því að nú er hægt að sameina þetta. Og skulum við bera saman greinargerðina, sem fylgir þessu frv., og les ég, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m.a.: „Ráðuneytið hefur því talið rétt, að þessi óþarfa tvískipting sé afnumin og að flugvallastjóri ríkisins annist einn framkvæmdastjórn flugvallanna og annað, sem flugið varðar. Gerir þetta hvort tveggja í senn, að koma á samræmdri og samhentari stjórn flugvallanna og um leið spara þeim nokkur útgjöld. Er því lagt til, að embætti flugmálastjóra sé lagt niður.“ — Ég verð að segja, að það er ekki mikið samræmi í gerðum stjórnarvaldanna, og þó eiga hér hlut að máli sömu menn og sömu flokkar. Ef þetta er borið saman, þá sést, að tilgangurinn er ekki skipulagslegs eðlis. Hvað hefur breytzt í flugmálum okkar frá 1947, þegar talið var nauðsynlegt að hafa 2 menn til þessa? En nú 1950 er það óþarfi. Og síðan 4947 hafa verið byggðir margir flugvellir, keyptar margar flugvélar, allt flug innanlands aukizt til stórra muna, — og samt er óþarfi að hafa 2 menn til þessa starfs nú, sem var bráðnauðsynlegt 1947.

Það er, sem sagt, alveg ljóst af þessum samanburði, að hér er verið með loddaraskap og verið að fela eitthvað, sem hæstv. ríkisstj. — og beini ég því sérstaklega til viðkomandi ráðh. — ekki þorir að segja. Og lítilmannlegt finnst mér, að hæstv. ráðh. getur ekki hreinskilnislega um, hvað fyrir honum vakir. Það er kannske ekki neitt við þessu að segja, þó hæstv. ráðh. vilji bola einhverjum manni frá starfi. En það er lítilmannlegt að fara svona að því. — Það hefur verið bent á, að undir því yfirskini, að verið sé að framkvæma skipulagsbreyt., sé hægt að bola frá starfi hvaða manni sem vera skal. T.d. væri hægt að stofna hafnarmálastjóraembætti ásamt vitamálastjóraembættinu, undir því yfirskini, að hafnar- og lendingarbætur væru svo miklar, að eftirlitið með þeim væri svo umfangsmikið, að þar þyrfti sérstakan embættismann til að gegna því. Og svo væri hægt eftir einn eða tvo mánuði að segja: Tvískipting á þessu er óþörf, og það er sparnaður fyrir ríkið að gera þetta einfaldara og sameina þessi tvö embætti og afnema vitamálastjóraembættið. Svona framkoma af hendi valdamannanna er vægast sagt ákaflega misheppnuð og í raun og veru mjög auðvirðileg. Þegar svona áberandi vöntun á einurð kemur fram hjá ráðamönnunum, þá finnst mér þeir lýsa yfir, að þeir séu ekki færir um að standa í þeim ábyrgðarstöðum, sem þeir hafa að sér tekið. Enda finnst mér, að hæstv. ráðh. vilji koma sér hjá að ræða þessi mál. Hann nefnir einhverja smávægilega breyt. í sambandi við gjaldeyriseftirlit til flugmála og að það sé ástæða til að gera eitthvað í því efni skýrara en verið hefur. Þetta er í raun og veru fjarstæða, því að í gildandi l. eru skýr fyrirmæli, og ráðh. getur samkv. l. gert skýr fyrirmæli um flugmál. Því að á viðskiptasviðinu held ég, að ekki sé einn einasti hlutur, sem ráðh. geti ekki gert tilskipun um. Svo mikil eru viðskiptahöftin hér í landinu. Þetta er því alveg út í bláinn. Enda er þetta sagt í þeim kringumstæðum, að ráðh. hreytir þessu út úr sér og fer svo af fundi, af því að hæstv. ráðh. hefur engin rök. — Það, sem við erum að innleiða með þessum vinnubrögðum, er það, að hver sú ríkisstjórn, sem tekur við völdum, skuli hafa rétt til þess, ef henni sýnist, að víkja frá störfum hverjum opinberum starfsmanni, sem henni líkar ekki við, án þess þó að nefna nokkur rök fyrir því, að viðkomandi embættismaður hafi ekki verið starfi sínu vaxinn, bara af því, að hann fellur ekki í geð pólitískum andstæðingum eða þ.h. Hér er verið að innleiða nýjar reglur og skapa fordæmi. Og þessi ráðh., sem fyrir því stendur, virðist ætla að láta sér sæma að gera það þannig, eins og honum finnist hann ekki þurfa að bera fram nein rök fyrir till. sínum. Það má náttúrlega segja sem svo, að við þessu sé ekkert að segja, að ríkisstj. taki upp þessa siði, að gera þetta að almennri reglu, að hver ríkisstjórn, sem við völdum tekur, skuli skipa alla embættismenn ríkisins eftir sínum höfðum. Þetta þekkist í landi því, sem hæstv. ráðh. telur fullkomnasta ríki veraldarinnar, Bandaríkjunum. Þar er föst regla, að þegar forsetaskipti verða í því landi, er skipt um alla embættismenn ríkisins, frá þeim efsta og til þess lægsta. Og fylgi við flokkana þar byggist á því, að ýmsir fylgismenn þeirra gera sér vonir um að verða aðnjótandi þeirra embætta, sem fylgismenn flokka þar fá, þegar stjórnarskipti verða. Þetta virðist eiga að innleiða hér. — En síðasta ræða hæstv. ráðh. hefur alveg tvímælalaust sýnt, að hann hefur engin rök hér fyrir þeim till., sem hann er að flytja fram hér, heldur er hér verið með bolabrögð við einstaka embættismenn, sem ríkisstj. vill bola frá störfum. Það eina, sem þessi hæstv. ráðh. gat sagt við ásökunum þeim, sem fram höfðu komið um, að hér væri um hlutdrægni að ræða og misbeitingu valds, var, að það gæti ekki talizt hlutdrægni af ráðh., sem með þessu frv. væri staðfest, ef þingið samþ. frv. Eina vörn þessa ráðh. var sem sagt þetta: „ef þingið samþ. það“. Hann gaf upp að verja það, að þetta væri skipulagsbreyting, og hæstv. ráðh. finnur sig alveg rökþrota. Og það seinasta, sem hann grípur til, er að segja: Ja, ef þingið samþykkir þetta, þá er það ekki hlutdrægni. En málið er ekki svo einfalt. Það vita allir, hvernig fylgi þingmanna er. Hæstv. ríkisstj. er vön að ákveða málin bak við tjöldin og leggja þar bönd á sína stuðningsmenn, og þeir koma hér járnaðir inn í deildina og fylgja því, sem fram er borið af hæstv. ríkisstj. Og við höfum dæmi um það í sambandi við skattamálin, sem hæstv. ráðh. hefur komið með inn í þingið sem brtt. við frv. við 3. umr. þess, eftir að þingið er búið að fjalla um málið við 2. umr. og það er búið að vera til athugunar í n. Hæstv. fjmrh. kemur þá með brtt. við frv., við 3. umr., um skattaálögur, sem nema um 6 til 7 millj. kr. álögum á þjóðina, án þess að nokkur n. hafi athugað það efni, sem er í brtt., og hafa þær þó eytt sínum tíma til athugunar á málum, sem óþarfara væri um að fjalla en efni þeirrar brtt., þessi skattauki. Þetta sýnir, hvernig hæstv. ríkisstj. stjórnar sínum fylgjendum hér á þingi. Og það er í skjóli þess, að handjárnin bili ekki, sem stjórnin er búin að leggja á sína menn, að hæstv. ráðh. finnur nú þessa afsökun, sem ég nefndi, fyrir því auðvirðilega athæfi sínu, og með því hyggur hann, að hann verði leystur undan öllum grun um hlutdrægni í þessu máli, að meiri hl. hv. þm. greiði atkv. með þessari tili. hans. Ég veit ekki, hvort allir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. ætla að gera það. En ég hef ástæðu til að ætla, að þeir séu svo handjárnaðir, sem að ríkisstj. standa, að það gefi hæstv. ráðh. alls ekki neina afsökun fyrir sínu athæfi, þó þeir samþ. frv. þetta. Í stað þess að færa fram rök fyrir till. sínum í þessu frv., hefur hæstv. ráðh. leitazt við að vera sem minnst viðstaddur hér í hv. þd., þegar um þetta mál er rætt hér. Hann hefur komið snöggvast og talað hér einhver afsökunarorð fyrir þessu frv., meira og minna úr lausu lofti gripin, og svo sem allra skjótast á eftir verið hlaupinn á brott úr fundarsalnum, en hann hefur jafnframt gefið hæstv. forseta d. fyrirmæli um það, að málinu skuli fram haldið og umr. um það lokið á fundinum, þó hæstv. ráðh. treysti sér ekki til að bera fram nein rök í þessu máli.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé ekki verið að auka völd neinna manna með þessu frv. Það er að vísu rétt, ef maður ber saman lögin frá 1947 og þetta frv., þá er ekki verið að auka vald þessara manna. En staðreyndin er sú, að þegar l. frá 1947 voru sett, voru fulltrúar annars flugfélagsins settir inn í flugráð, sem átti að hafa yfirstjórn flugmálanna. En nokkur trygging var það í sambandi við rekstur flugmálanna, að bygging flugvalla væri undir sérstakan embættismann gefin og embættismann, sem ekki væri tengdur vissu flugfélagi. Og það var á allan hátt verra fyrir félögin að geta haft þar hönd í bagga. En það er óheppilegt, að flugfélög hafi nokkuð með stjórn flugmála að gera. Því að veigamesti þátturinn í starfi flugmálastjóra eru öryggismálin. Við höfum orðið fyrir stórkostlegum flugslysum, og ég held, að engin þjóð hafi orðið fyrir meiri slíkum slysum hlutfallslega. Við höfum misst flugvél á hræðilegan hátt, þar sem 25 menn fórust, og aðra þannig, að vélin eyðilagðist, en fólkið slapp fyrir mikla mildi lifandi, en þó eitthvað slasað sumt. Við höfum auk þess misst flugvél á Hellisheiði fyrir ekki löngu og enn fremur smærri flugvélar. Það er ekki minnsti efi á því, að þess er full þörf, að öryggiseftirlitið með flugferðum og flugförum sé mjög strangt. Það er ekki verið að væna flugfélögin um, að þau viljandi stofni til slysa. En hitt er hins vegar ómótmælanlegt, að það er ekki nema mannlegur veikleiki, að flugfélögin sjái gegnum fingur í sambandi við strangar öryggiskröfur, sem valda félögunum stórfelldum útgjaldagreiðslum og kannske útgjöldum, sem þau telja óeðlilega há, miðað við þær tekjur, sem flugfélögin telja sig hafa af flugferðunum. Einmitt með tilliti til þessa nær það engri átt að láta menn úr stjórn flugfélags vera í þeirri stjórn, sem hefur með yfirstjórn flugmálanna að gera. — Ég vil ekki láta loka ráðherraherberginu, því að ég er að tala við hæstv. ráðh. Hann virðist ekki vilja hlusta hér á umr. Er þá ekki rétt af hæstv. forseta að fresta umr. málsins, úr því að hæstv. ráðh. er svo léttlyndur, að hann vill ekki hlusta hér á umr.? (Forseti: Ég vil nú biðja hv. þm. að vera ekki of hótfyndinn við forseta. Forseti hefur ekki nema takmarkað vald ýfir því, hverjir eru inni í hv. þd. Þegar ekki er atkvgr., þá er vald forseta til að hemja hv. þm. í sætum sínum takmarkað.)

Ég vil ekki viðurkenna, að það sé hótfyndni hjá mér, að ég vil, að hæstv. forseti mælist til þess við hæstv. ráðh., sem sérstaklega hefur krafizt þess, að málinu verði fram haldið, að hann leggi það á sig að vera inni í deildinni, meðan verið er að ræða málið. Mætti ekki reyna, hæstv. forseti, að hringja í hæstv. ráðh. og vita, hvort hann vill ekki koma. (Forseti: Ég endurtek, að ég hef gert ítrekaðar tilraunir í þessu efni, og þær hafa borið árangur, því hæstv. ráðh. er hér viðstaddur á næstu grösum. (Hurðin að ráðherraherberginu opnast.)) Ég vil aðeins víta framkomu hæstv. ráðh. Hún er óviðeigandi og mjög einkennileg. Og mér virðist þessi hæstv. ráðh. temja sér meiri hroka í umgengni við þm. heldur en ég hef vanizt hjá öðrum ráðh., enda hefur hann einn ráðherranna látið sér sæma að brjóta skýlaus fyrirmæli þingskapa með því að neita að svara spurningum. Þó hann hefði ekki talið sig geta aflað sér þeirra upplýsinga, sem hann var spurður um, þá var það hans skylda að svara þeim spurningum, sem fyrir hann voru lagðar, samkv. þeim upplýsingum, sem hann hafði. En hann kaus að sýna þinginu þá óvirðingu og hvað hann væri mikill maður, einmitt með því að neita að svara. Þessi framkoma er í alla staði ósæmileg. Og mér finnst, vægast sagt, það vera dómur um það, að hæstv. forseti okkar hv. d. hér sé um of undir valdi þessa hæstv. ráðh., ef hann ekki getur komið til leiðar öðru eins og því, að þessi hæstv. ráðh. sé viðstaddur hér. En ég ætla ekki að fara að deila við hæstv. forseta hér og mun því halda áfram ræðu minni.

Ég var að ræða öryggismálin í sambandi við flugið. Það er vitað, að sá maður, sem gegnir starfi flugvallastjóra ríkisins, er í Flugfélagi Íslands, var lengi form. þess félags, um mörg ár. Og það er vitað, að félagið hefur mikil samráð við hann. Enda vil ég benda á, að þegar fyrst var um að ræða að koma skipan á íslenzk flugmál, þá var þetta félag mjög áberandi þáttur í því eða vildi pota sér inn í það að verða mjög fyrirferðarmikill aðili í sambandi við stjórn flugmálanna. Það var lagt einu sinni fram frv. í þessari hv. d. — og það mun hafa verið lagt fyrir af hæstv. núv. viðskmrh., og flugmálaráðh. var meðlimur í stjórninni. Ég man ekki, hvort flugmálin flokkuðust þá undir hann, það kann að hafa verið Vilhjálmur Þór, sem þau mál flokkuðust undir. En þetta frv. var lagt fram á þinginu 1943. Og þá var í 6. gr. þess frv. ákvæði, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið hefur yfirstjórn allra flugmála. Vegamálastjóri skal fyrst um sinn stjórna framkvæmdum í þessum málum í samráði við stjórn Flugfélags Íslands . “ o.s.frv. Þetta frv. var lagt fram hér sem stjfrv. Það var sem sagt skoðun þeirrar ríkisstj., sem þá var og núv. viðskmrh. var ráðh. í, að það ætti að hafa samráð um þetta við Flugfélag Íslands. Enda hefur framkvæmdin verið sú, að menn úr Flugfélagi Íslands voru í flugráði. Og ég vil ekki væna þessa menn um að hafa beitt óviðurkvæmilega þessu valdi, heldur vil ég segja, að það er ekki nema mannlegur veikleiki að sjá í gegnum fingur í sambandi við þær öryggisráðstafanir, sem settar eru gagnvart flugfélagi, en kosta mikið fé. Og það er af þessum og þvílíkum ástæðum, að það er viðurkennt á öllum sviðum, þar sem það opinbera þarf að beita öryggisráðstöfunum til að fyrirbyggja slys, þá er reynt að komast hjá því af þeim, sem fyrirtækjum stjórna, að leggja í mikinn kostnað vegna öryggisins.

Ég vil líka benda á, að í n. um þetta mál voru skipaðir þeir Geir Zoëga vegamálastj., sem vitanlega hefur ekki flugþekkingu, Agnar Kofoed-Hansen flugvallastjóri ríkisins og Örn Johnson flugmaður. Og þessi n. var skipuð 1943 af utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar, þar sem núv. hæstv. viðskmrh. átti sæti í. Þá kom fram frv., sem lagt var hér fyrir þingið, og þar er sagt í grg. þessa frv. á þá leið, að vitanlega verði það flugmálaráðunautur ríkisins og Flugfélag Íslands, sem leggi á ráðin um sérgreinar flugmálanna. Þarna er því enn haldið fram, að það eigi að vera Flugfélag Íslands, sem eigi að hafa þarna ráð um, hvernig flugmálunum skuli fyrir komið, og þar með öryggismálunum í sambandi við flugmálin. Þegar þetta kom fyrir þingið, þótti hv. þm. þáverandi ekki við þetta hlítandi, og var þessu því breytt. Þingið taldi ekki rétt, að stjórn flugmálanna væri á nokkurn hátt undir áhrifum stjórnar einstakra flugfélaga. Og ég er viss um, að rökin voru þau, að ekki var talið, að öryggið í flugmálunum væri nægilega tryggt með því, ef þeir menn væru til kvaddir til að sjá um það öryggi, sem hefðu hagsmuni af því fyrir sitt félag að sjá í gegnum fingur við eftirlitið með örygginu á einhvern hátt með því að vera ekki of strangir, heldur kynnu að freistast til þess að vera slappari í kröfum um það heldur en góðu hófi gegndi um öryggiseftirlitið. Þessi nefnd var líka mjög afturhaldssöm og þröngsýn í sambandi við möguleika þess að byggja flugvelli. Sú n. setti Vestmannaeyjar í 4. flokk í sambandi við byggingu flugvalla, af því að hún komst að þeirri niðurstöðu, að flugskilyrði þar væru mjög örðug. Sem sagt, þeir töldu ekki mögulegt að útbúa þarna flugvöll, sem nú hefur þó verið gert og með góðum árangri, sem hefur orðið til þess, að stöðugum flugsamgöngum hefur verið haldið uppi við þetta íslenzka eyríki, til hagræðis fyrir alla, sem við Vestmannaeyjar þurfa að skipta. En þessi n., sem ég gat um, komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri ekki heppilegt, — og vafalaust af því, að flugfélagið taldi sig ekki hafa handhægar flugvélar til þess að annast flug til Eyja. Þannig hafa sérhagsmunir eins félags haft áhrif á skoðanir þessara manna. Þetta er ekki nema mannlegur breyzkleiki. Og ég vil ekki draga í efa, að þetta hafi verið gert í góðri meiningu, en reynslan hefur sýnt, að mjög hefði verið óheppilegt að fara að ráðum þessara manna, hefðu þeir verið látnir vera ráðunautar í flugmálum. Nú hefur hins vegar verið horfið inn á þá braut að halda uppi flugi til Vestmannaeyja, sem ég tel mjög heppilegt.

Það er ákveðinn klukkustundafjöldi, sem flugvélar mega fljúga á milli þess, sem skoðun fer fram á vélunum. Slík skoðun kostar mikið fé, og kannske er ekki hægt að framkvæma hana hér á landi. Og það er nú ekki nema mannlegt, að þeir menn, sem veita þessu flugfélagi forstöðu, sem hefur þessa sérstöðu um stjórn flugmálanna, hugsi sem svo, að það sé nú hægt kannske að draga það nokkrum flugklukkustundum lengur eða nokkrum vikum lengur, að þessi allsherjarskoðun fari fram á flugvélunum, og beiti þá áhrifum sínum til þess. En ástandið er þannig með flugvélar, að ef bilun verður meðan vél er á lofti, þá er nær útilokað, að það leiði ekki til slyss, en það er sá stóri munur á þessu farartæki og öðrum farartækjum. Bifreiðar má oft keyra á meðan þær ganga og þær gera ekki meira en stöðvast, og leiðir slíkt sjaldnast til slyss, en komi slíkt fyrir flugvél, er nærri víst, að það leiðir til slyss. Það er því mjög óheppilegt að láta flugfélögin hafa áhrif á sviði flugmálanna, og ég býst ekki við, að dæmi séu til um það meðal nágrannaþjóða okkar, að flugfélögin hafi menn í stjórn þeirra stofnana, sem sjá um öryggismál í sambandi við flugið, hvað þá að einu flugfélagi sé gert hærra undir höfði í þessum efnum en öðru, og er slíkt algerlega ósæmilegt af hæstv. ríkisstj. En Flugfélag Íslands er hér tekið fram yfir hin félögin, og það kemur fram hjá Loftleiðum, að það félag er á móti þessu fyrirkomulagi og telur sínum kosti þröngvað með því að gefa keppinaut sínum þetta vald. Ég hef nú rakið rök á móti þessum tiltektum hæstv. ráðh. og ríkisstj., svo að nú stendur ekki steinn yfir steini í röksemdum þeirra, og hæstv. ráðh. staðfestir það með því að víkja af fundi, því að hann er kominn í alger rökþrot, eins og síðasta ræða hans sannaði bezt. Ég vil undirstrika það, að það er vottur um pólitíska spillingu hjá hæstv. ríkisstj. og hæstv. flugmrh. að beita sér sérstaklega fyrir því, að ríkið reki þá embættismenn úr þjónustu sinni, sem ríkisstj. eða ráðh. hafa ekki velþóknun á, þó að engin frambærileg rök séu fyrir slíkri ráðstöfun. Það er sjálfsagt að víkja þeim úr embættum, sem ekki eru starfi sínu vaxnir, en slíkt á að rökstyðja með réttum rökum, en að læðast svona aftan að mönnum með augljósu falsi, eins og hér er gert, það er andstyggilegt og hlutur, sem ísl. alþýða fordæmir og ísl. valdamenn hafa forðazt, en þessi hæstv. ráðh. tekur upp af hroka og drambi og telur sig mann að meiri, einkum ef hann kemur því fram á Alþ., en ég vil minna hann á, að dramb er falli næst, og sá hroki, sem hann hefur sýnt deildinni og þinginu, veit ekki á gott um framtíð hans sem leiðandi stjórnmálamanns, og margir, sem með misjöfnu áliti á honum hafa ýtt honum þetta áfram, munu varla verða honum svo fylgispakir til langframa.