13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

72. mál, stjórn flugmála

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort hæstv. flugmrh. er hér nálægur, en það væri gott, ef hann væri látinn vita, því að ég vildi gjarnan, að hann væri hér inni. Annars vildi ég út af framkomu hæstv. ráðh. segja, að nærri visst samstarf ríkir á milli stjórnarandstöðunnar og hæstv. ríkisstj. á Alþ., sem gengið er út frá, að báðir aðilar virði. Það hefur verið svo, að þó að stjórnarandstaðan hafi haft ástæðu til að gera ríkisstj. erfitt fyrir með að fá mál í gegnum þingið, þá hefur hún ekki gert það og það er visst „loyaltet“, sem því ræður. En slíkt getur ekki verið bara á aðra hliðina, og ein ríkisstjórn verður að venja sig á að taka tillit til slíks, þegar á hana er deilt og upplýsinga krafizt, og vegna þess, að forseti þarf á tilhliðrun að halda, þegar hann þarf að koma málum fljótt fram, þá er rétt fyrir hann að skapa ríkisstj. aðhald, þegar hún vill fá mál fram, og hún verður að sýna fulla kurteisi. Við tókum eftir því áðan í umr. um III. kafla l. um dýrtíðarráðstafanir, að þessar álögur voru gagnrýndar af hálfu stjórnarandstöðunnar, en mjög stutt, en hæstv. fjmrh. baðst afsökunar á, að þetta skyldi koma fram, og eins að hann þyrfti að fara úr d. á fund í Ed., og er slíkt til fyrimyndar um þetta samstarf, en nú, þegar hæstv. flugmrh. er hér með frv. við 2. umr., sem var mjög lítið rætt við 1. umr., þá er það það minnsta, sem hann getur gert, að vera viðstaddur. Ég er hér að svara ræðu hæstv. ráðh. og vildi mælast til, að athugað væri, hvort hann muni koma. (Forseti: Vald forseta nær ekki til að neyða hæstv. ráðh. til að vera viðstaddir umr. Og ég vil mælast til þess, að hv. þm. haldi áfram ræðu sinni.) Jú, forseti getur algerlega ráðið slíku, þegar hann er beðinn að flýta máli, og ráðh, eru ekki yfir- heldur undirmenn forseta, svo að ráðh. hefur enga afsökun gegn forseta, þó að hann ljúki máli, þegar ráðh. er ekki viðstaddur. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. fór svo í kringum sjálfan sig áðan, að ég má til með að benda honum á það. Ég held því, að það væri bezt að senda eftir hæstv. ráðh., því að það er svo mikill tvíverknaður að tala fyrst við tóman stólinn og síðan við hæstv. ráðh. (Forseti: Ég vildi segja hv. þm. það, að ég hygg, að hæstv. ráðh. muni ekki taka aftur til máls og hann hefur þegar skipzt orðum við hv. 2. þm. Reykv., svo að ég held, að það hafi ekki svo mikla þýðingu að sækja hann nú.) Það skiptir miklu máli, að hæstv. ráðh. viti, hvaða gagnrýni kemur fram á verkum hans. Það er viðkunnanlegra, að ráðh., sem ætlar að píska mál sem þetta í gegnum þingið og afsaka sig síðan með þingviljanum, sé viðstaddur. Það er gott, að hv. þm. viti, að ef einhver hlutdrægni er hér framin, þá segir þessi hæstv. ráðh., að ábyrgðin af því hvíli á Alþ., en það er hans ábyrgð, og ef hv. þm. stjórnarflokkanna gera það af tryggð við ráðh. að fylgja frv., þá er málið á hans ábyrgð, án þess að það dragi úr því, að þeir, sem samþ. það, taka einnig nokkra ábyrgð á sig. Ég vildi spyrja, hvort ekki hefðu komið hér fram brtt. (Forseti: Ekki formlegar.) Ég hefði gjarnan viljað ræða brtt., sem hér koma fram. Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði, þá talaði hann um, að engin breyting væri í þessum l. á aðstöðu embættismanna, þá er það markleysa ein, því að hann fór eins og köttur í kringum heitan grautarpott um það, sem var að gerast, og þorði ekki að koma að því, sem er meginatriði málsins, og hefur ekki fengizt til að ræða það. Viðvíkjandi svörum hans, þá sagði hann, að engin breyting hefði orðið á afstöðu flugfélagsins og afstöðu þess til flugráðs, en þar er því til að svara, að með þessum l. er verið að kippa burt þeim eina embættismanni, sem er óhlutdrægur gagnvart félögunum. Hann sagði orðrétt, að ekki hefði verið kvartað undan því, að stjórn flugfélagsins misnotaði afstöðu sína, en fyrir hæstv. ráðh. liggur fylgiskjal nr. 3. en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í lögunum frá 1947 er t.d. ákveðið, að nýbyggingar flugvalla skuli heyra undir flugmálastjóra, en viðhald þeirra og rekstur heyra undir flugvallastjóra. Þessu hefur í ýmsum tilfellum verið snúið við, þar sem flugvallastjóri hefur ákvarðað um og látið gera flugvelli, væntanlega með samþykki flugráðs; þar sem kostnaðurinn hefur stundum orðið tífaldur við það, sem þessir aðilar hafa áætlað í byrjun, enda hefur enginn þessara manna verkfræðiþekkingu, en flugmálastjóri, sem er verkfræðingur, ekki fengið að hafa þar æskileg áhrif á eða gefa þar ráð um, enda þótt slík verk heyri undir hann samkvæmt lögum.

Að ýmsu þessu athuguðu teljum vér, að nær lægi að gera ráðstafanir til að lögin frá 1947 verði framkvæmd að öllu leyti, til þess að full reynsla fengist, heldur en að setja ný lög, sem ekki virðast hafa neitt nýmæli til bóta, nema síður sé. í þessu sambandi viljum vér taka fram, að vér álítum, að núverandi flugmálastjóri hafi rækt starf sitt vel, eftir því sem aðstaða hans hefur leyft, og hefur okkur virzt hann algerlega óhlutdrægur og réttsýnn gagnvart flugfélögunum.

Eins og flugráð er nú skipað, getur félag vort ekki treyst því sem óhlutdrægum aðila, og teljum því ekki ráðlegt að færa meira af þessum málefnum undir það. Þegar núverandi flugráð var skipað, var þannig háttað vali manna í ráðið, að 3 aðalmenn þess af 5 voru 2 stjórnarmeðlimir Flugfélags Íslands og framkvæmdarstjóri þess; síðar gekk þó núverandi flugvallastjóri úr stjórn Flugfélagsins, en sem varamaður flugvallastjóra í flugráði var þá tekinn 1. flugstjóri Flugfélags Íslands. Hins vegar var félagi voru aðeins gefinn kostur á 1 varamanni af öllum aðalmönnum og varamönnum flugráðs. Teljum vér, að ýmis störf og ákvarðanir flugráðs beri þess glöggt merki, að sömu menn eru ráðandi á báðum þessum stöðum, Flugfélagi Íslands og flugráði. Það er því ákveðin skoðun vor, að nauðsyn beri til, að flugráð verði skipað á annan hátt, þar sem jafnt tillit sé tekið til beggja flugfélaganna og að framkvæmdir þess verði að öllu leyti óhlutdrægar.

Virðingarfyllst,

Loftleiðir h.f. Kr.

Jóh. Kristjánsson,

form.“

Hæstv. ráðh. var að sleppa orðinu, að enginn hefði kvartað, en ég var að lesa það, sem stendur hér á bls. 3 á þskj. 316, en það er yfirlýsing frá flokksbróður og samframbjóðanda hæstv. ráðh. Og svo segir hæstv. ráðh., að ekki hafi verið kvartað, og þegar hann er búinn að segja, að ekki hafi verið kvartað, þá segir hann, að ummæli þeirra hafi ekki við rök að styðjast. Jú, það hafa sem sé komið kvartanir, og þar með viðurkennir hann, að það sé rangt, sem hann var að enda við að segja, en þessar kvartanir hafa bara ekki við rök að styðjast; flokksbróðir hans í stjórn Loftleiða er því að dómi hæstv. ráðh. að fara með rakaleysu, en af hverju reynir hann ekki að hrekja það, heldur fullyrðir bara, að það hafi ekki við rök að styðjast, heldur hleypur bara frá því? En hann er ekki fyrr búinn að sleppa þessu en hann kemur með þriðju ummælin og segir að hvorugt félagið ætti að hafa slíka aðstöðu. (Viðskmrh.: Ég sagði aðild.) Ég hafði nú samt skrifað hitt hjá mér. Hann segir, að hvorugt félagið ætti að hafa slíka aðild. En hvers vegna segir hann það? Er það ekki vegna þess, að honum finnst, að Loftleiðir hafi verið órétti beittar? Hæstv. ráðh. segir því: 1. Enginn hefur kvartað. 2. Kvartanirnar hafa ekki við rök að styðjast. 3. Kvartanir þessar hafa við þau rök að styðjast, að hvorugt félagið ætti að hafa aðild að flugráði. — Ég veit ekki, hvað verður eftir af frv. rakalega séð, þegar hæstv. ráðh. er búinn að halda tvær til þrjár slíkar ræður, og er sannarlega ekki að furða, þó að hann vilji koma sér hjá frekari umr. um málið, enda finnur hann, að hver setning í ræðu hans byltir þeirri næstu. En hvað gerir svo hæstv. ráðh., þegar hann segir, að hvorugur aðilinn eigi að hafa aðild að flugráði? Hann ber fram frv. hér í þinginu, sem hefur það í för með sér, að fyrrv. form. og brautryðjandi Flugfélagsins á að vera í einu flugvallastjóri og flugmálastjóri ríkisins. Maður. sem Flugfélagið treystir algerlega og hefur haft aðild fyrir félagið, hann á að vera alvaldur í flugmálum Íslendinga. Þetta er afleiðingin af þeirri niðurstöðu, að hvorugt félagið skuli hafa aðild að flugráði. Ég er hræddur um, að það sé vissara fyrir hæstv. ráðh. að ræða málið ekki mikið, ef hann heldur margar slíkar ræður, og er auðséð, hvert hann mundi stefna með því, hann mundi rífa frv. algerlega niður. Ég neita því ekki, að margar röksemdir mæla með því, að rétt sé að skipta niður leiðum milli aðilanna, sbr. 3. gr., en það er ef til vill ekki nægilegt að sjá, hvað er skynsamlegt. Það er nauðsynlegt að gæta sanngirni gagnvart þegnunum, og svo lengi sem um einstaklingsrekstur er að ræða, þá er óheppilegt, að beim aðilum, sem hagsmuna hafa að gæta, séu gefin of mikil áhrif. Ef skipta ætti flugrútum, þá mundi vera leitað til flugráðsins, sem er nokkuð það sama og Flugfélag Íslands. Nú vil ég biðja hæstv. ráðh. að stinga hendinni í eigin barm. Við skulum segja, að skipuleggja ætti öl- og gosdrykkjaframleiðsluna í landinu og setja ætti öl- og gosdrykkjaráð, sem ákveða skyldi, hvaða verksmiðjur framleiddu hvað. Hér eru nú gamlar verksmiðjur, sem hafa kannske naumt af því, sem þær eru vanar að framleiða, eins og t.d. maltöli, sem er hollt handa börnum og sjúklingum. Hins vegar eru svo verksmiðjur eins og Vífilfell, sem hæstv. ráðh. kannast ef til vill við, sem vantar ekkert, sem hún þarf til sinnar framleiðslu. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., ef öl- og gosdrykkjaráðið væri nú skipað að meiri hluta mönnum úr stjórn h/f Vífilfells og hæstv. ráðh. ætti að taka ákvarðanir um það, hvaða gosdrykkjategundir mætti framleiða svo og svo mikið af, — hvort mundi honum finnast viðfelldið, að hann með hliðsjón af því, sem öl- og gosdrykkjaráð legði til, tæki ákvarðanir um það, hvernig þeirri framleiðslu yrði háttað? Það væri gaman að heyra skoðun hæstv. ráðh. á þessum málum, hvort honum fyndist viðfelldið að taka slíkt vald í sínar hendur. Það er sitt hvað, þó ráðh. hafi áhrif á það, hve þessar stofnanir fá mikinn sykur, hve þær hrifsa mikinn sykur frá húsmæðrunum. En hvað mundi gerast, ef hæstv. ráðh. fengi það vald, sem hann fer hér fram á? Hvert ætti hann að leita umsagnar viðvíkjandi þessum málum? Jú, auðvitað til flugráðs og flugvallastjóra, sem er nokkurn veginn það sama og leita til Flugfélags Íslands h/f, eftir að aðilar í þessum málum, sem ekki mun vera hægt að saka um pólitíska afstöðu til málsins, hafa lýst því yfir, að þeir geti ekki treyst flugráði sem óhlutdrægum aðila. En þetta er það, sem hæstv. ráðh. fer fram á, og svo þegar hann er spurður, hvort honum finnist þetta ekki hlutdrægni, svarar hann: Það er ómögulegt að segja, að ég sé hlutdrægur þarna. Ef það er einhver, þá eru það þingmennirnir. Nú veit hæstv. ráðh., að þegar komið er fram með mál eins og þetta og þar sem líka annar ráðh. er því hlynntur, þá er bara sagt í þingflokkunum sem svo, að þetta mál verði að ganga fram, þó að þingmenn séu óánægðir. Sú óánægja er bæld niður. Og ég man ekki betur en það kæmi í ljós hjá hæstv. forseta, sem var frsm. meiri hl. samgmn. í þessu máli, að hann væri ekki fastur í trúnni á það, að það væri hægt að vera öruggur um óhlutdrægni. Ég man ekki betur en hæstv. forseti léti orð falla í þá átt, að það þyrfti að taka tillit til beggja flugfélaganna. Það er enginn vafi á því, að það hafa fæðzt efasemdir hjá hv. þm. í sambandi við þetta mál. Og það er eftirtektarvert, að sá flokkur, sem átti flugmálaráðherra 1947 og lagði þá mikla áherzlu á, að lögin um þetta efni næðu þá fram að ganga, sá flokkur, Framsfl., lætur nú ekkert frá sér heyra. Það er eins og honum sé ljóst, að nú er verið að gera að skrípaleik allt það, sem hann gerði í þessum málum þá. Ég tók eftir því það augnablik, sem hæstv. ráðh. kom hér inn í deildina áðan, að honum leizt ekki á blikuna, er farið var að leiðrétta það, sem hann sagði, og er hann sá mótsagnirnar í ræðu sinni, svo að hann hvarf skjótt á brott. Ég held, að þegar ráðh. kemur þannig fram í sambandi við mál, sem hann flytur, þá beri Alþingi að fella það.