15.12.1950
Neðri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

72. mál, stjórn flugmála

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja núna. Ég hafði flutt brtt. við þetta frv., sem er prentuð á þskj. 395. Þar er lagt til, að því verði breytt í frv., þar sem talað er um flugvallastjóra, en í stað þess komi flugmálastjóri, þannig að það verði þá flugmálastjóraembættið sem helzt. Í tilefni af því er lagt til, að 1. málsliður 2. gr. orðist þannig: „Ráðherra skipar flugmálastjóra.“ Ég hafði lýst þeirri skoðun minni hér áður, að ég teldi engin rök hafa komið fram, sem mæltu með því að leggja þetta starf flugmálastjóra niður.

Enda virðist það vera afar hæpið fordæmi að fara þannig með störf embættismanna. Því hef ég flutt þessa till., til að fá úr því skorið, hvort hv. þm. geti fallizt á það sjónarmið, að mögulegt sé á tiltölulega auðveldan hátt að leggja niður svo að segja hvaða embætti sem er og losa sig þannig við ákveðna menn með því einu að breyta lítils háttar um nafn á embættinu. Ég tel, að þessi brtt. eigi að geta skorið úr því, hvort meiri hl. þings geti fallizt á þá skoðun, að þessi leið sé fær. Ég mun svo ekki ræða þetta mál meira, nema þá ef sérstakt tilefni gefst.