18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

72. mál, stjórn flugmála

Frsm, minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Það er að vísu naumast rétt, sem stendur í hinu stutta nál. meiri hl. n., að n. hafi rætt það mál, sem hér liggur fyrir. Það var að vísu skotið á nefndarfundi hér fyrir hádegi í morgun, rétt áður en klukkan var 12, þar sem mættu þrír nm. Málið var að vísu tekið fyrir, en ekki á nokku,rn hátt krufið til mergjar, heldur skiptust menn án allra umr. á þann hátt, sem nál. bera með sér. Ég held, að þessi afgreiðsla n., þó að hún sé afsökuð með því, eins og oftast er, þegar þingi er að ljúka eða verið er að fresta því, eins og nú er, og mál hrúgast mjög upp; að enginn tími sé til að kryfja málin til mergjar, þá held ég, að megi segja, að þessi afgreiðsla sé nokkuð einkennandi fyrir meðferð málsins í heild frá því fyrsta. Mér er sem sé ekki kunnugt um það, að í allri meðferð málsins hér á þingi hafi komið fram eða verið flutt fram nokkur ástæða, sem hægt sé að telja veigamikla fyrir því, að nauðsyn sé á því að gera þá breyt. á stjórn flugmála, sem hér er lagt til, að gerð sé. Í hinni stuttu grg. fyrir frv. kemur að mínu áliti ekki neitt það fram, sem geti talizt sannfærandi um það, að nauðsyn sé að gera þessa breyt. Mér er ekki heldur kunnugt um, að það hafi komið fram í þeim umr., talsvert miklu umr., sem orðið hafa um þetta mál í Nd., og í þeim umsögnum, sem Alþingi hafa borizt um þetta mál, hefur ekki verið gerð nein tilraun til að bera fram veigamiklar ástæður fyrir þessu, í þeim umsögnum, sem þó munu vera taldar mæla með framgangi málsins, en í öðrum umsögnum koma hins vegar fram ástæður, sem ættu að verða til þess, að málið yrði ekki samþ., og í framsöguræðu þeirri, sem hér var nú flutt fyrir hönd meiri hl., gat ég ekki heldur heyrt, að fluttar væru fram neinar sérstakar ástæður fyrir því, að þyrfti að samþ. þetta frv., þó að meiri hl. n. hafi nú mælt með því, að svo skuli gert. Eina ástæðan, sem nefnd hefur verið, er að þetta sé sparnaðarráðstöfun. Það má kannske segja það, en það er þá líka það eina atriði, sem fært hefur verið fram til stuðnings því, að þetta skuli gera, en í því efni kveður þá a.m.k. við annan tón en þegar sett voru l. um stjórn flugmála 1947, sem nú er verið að breyta, þegar ákveðið var að tvískipta embætti flugmálastjóra, sem nú er verið að afnema. Þá var það atriði ekki talið mikilsvert. Þá var kostnaðurinn af tvískiptingunni ekki talinn standa í vegi fyrir, að svo væri gert, svo að þetta getur ekki verið veigamikil ástæða fyrir að breyta þessu fyrirkomulagi á ný. Nei, ég held, að þetta, sem ég hef nú verið að rekja, sá algerði skortur á því, að færðar séu fram ástæður, sem hægt sé að nefna því nafni, fyrir nauðsyn á þessari breyt., sé vottur um það, að það er allt annað, sem liggur til grundvallar fyrir flutningi þessa frv., heldur en það, að raunveruleg þörf sé á að breyta stjórn flugmála í það horf, sem lagt er til í frv., vegna flugmálanna sjálfra, heldur sé það annað, sem þar liggur til grundvallar. Ég geri líka í raun og veru ráð fyrir, að hv. þdm. sé um það kunnugt, hvað það er, sem hér liggur til grundvallar og lá eingöngu til grundvallar fyrir þeirri breyt., sem gerð var á stjórn flugmála 1947, þegar embætti flugmálastjóra var skipt á þann hátt, sem þá var gert. Ég býst við, að öllum hv. þdm. sé kunnugt, að þá var stigið fyrsta skrefið til þess að draga úr valdi þessa embættismanns, flugmálastjóra, og rýra áhrif hans á stjórn flugmála, og það, sem nú er gert með þessu frv., er, að það skref er stigið til fulls til að losna á þann hátt við þennan embættismann ríkísins. Ef þetta er viðurkennt, sem í raun og veru er ekki hægt annað en viðurkenna, þá virtist mega ætla, að einhverjar veigamiklar ástæður væru til þess, að losna þyrfti við þennan embættismann, þ.e.a.s. að embættisfærsla hans væri í ólagi og hann hafi gert þau afglöp, sem gerðu það nauðsynlegt, að hann starfaði ekki lengur að þessum málum. En ef það væri, þá þyrfti ekki að fara þessa leið, heldur mætti losna við hann á einfaldari hátt en þennan. En einmitt af því, að þessi maður hefur reynzt fyllilega starfi sínu vaxinn, er það, að hæstv. ríkisstj. fer þessa krókaleið til að losna við hann úr embætti, og það er tilgangur hennar með flutningi þessa frv.

Af þeim umsögnum, sem Alþingi hafa borizt og sendar hafa verið samgmn. og prentaðar hafa verið sem fylgiskjöl með áliti minni hl. samgmn. Nd., þá kemur það líka þvert á móti fram, sem ég nú var að segja, að þessi embættismaður hefur samkv. áliti þeirra aðila, t.d. samkv. umsögn frá stj. annars aðalflugfélagsins hér, Loftleiða, gegnt embætti sínu mjög vel og samvizkusamlega, og það mun þess vegna ekki horfa til bóta, að embætti hans sé lagt niður og honum þar með vikið frá starfi því, sem hann hefur gegnt. Þetta kemur mjög glöggt fram í umsögn þessa flugfélags. Þar er komizt svo að orði, eftir að þeir hafa talað nokkuð um þær framkvæmdir, sem gerðar hafi verið á síðustu árum, eftir að þessi tvískipting var ákveðin á embætti flugmálastjóra: „Að ýmsu þessu athuguðu teljum vér, að nær lægi að gera ráðstafanir til, að lögin frá 1947 verði framkvæmd að öllu leyti, til þess að full reynsla fengist, heldur en að setja ný lög, sem ekki virðast hafa neitt nýmæli til bóta, nema síður sé. Í þessu sambandi viljum vér taka fram, að vér álítum, að núv. flugmálastjóri hafi rækt starf sitt vel, eftir því sem aðstaða hans hefur leyft, og hefur okkur virzt hann algerlega óhlutdrægur og réttsýnn gagnvart flugfélögunum.“ Þetta kemur fram í því, að stjórnir þessara félaga telja, að samþykkt þessa frv. sé miður heppileg og ekki til bóta á nokkurn hátt, heldur hið gagnstæða.

Hið sama kemur fram í umsögn félags flugvallastarfsmanna ríkisins, sem skv. eðli málsins hefur mikinn kunnugleika á starfi flugmálastjóra. Á fundi, sem þetta félag hélt 8. nóv. s.l., gerði það samþykkt varðandi þetta mál. En þar í segir, með leyfi hæstv. forseta: „Fundur haldinn í félagi flugvallastarfsmanna miðvikudaginn 8. nóv. 1950 harmar, að í frv. því til laga um stjórn flugmála, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþingi, það er nú situr, skuli vera gert ráð fyrir að leggja niður embætti flugmálastjóra og þar með svipta flugmálin embættismanni, sem nýtur fyllsta trausts flugvallastarfsmanna fyrir ágæta samvinnu, samvizkusemi, hagsýni og skipulagsgáfu.“

Þegar slíkar umsagnir liggja fyrir sem þessar frá aðilum, sem þetta mál varðar miklu og eru þessu kunnugastir, þá liggur það augljóst fyrir, að ríkisstj. flytur hér frv., sem felur raunar ekkert annað í sér en að losna við slíkan embættismann, sem hér er lýst, og þótt að sjálfsögðu engu verði um þokað varðandi afgreiðslu þessa máls, sem augsýnilega er fyrirfram ákveðin, þá vil ég þó nota þetta tækifæri hér til þess að mótmæla slíkum aðförum sem þessum og tel þær í hæsta máta óviðeigandi.

En ef einhver alvara fylgdi nú þessum málum, sem ríkisstj. segir að sé orsökin til flutnings þessa máls, þ.e. að framkvæma sparnað í rekstri flugmálanna, þá lægi auðvitað beint við að leggja það embætti niður, sem stofnað var til með breyt. 1947, þ.e. embætti flugvallastjóra, en það, að þetta er ekki gert, staðfestir það, að sparnaðurinn er ekki hin raunverulega ástæða, heldur er tilgangurinn sá að losna við þann mann, sem gegnt hefur embætti sínu með samvizkusemi og hagsýni. Og ég þarf áreiðanlega ekki að benda sérstaklega á, hverjar ástæðurnar eru, — ég hygg, að hv. þm. þekki þær fullvel.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frv., en vil ítreka, að ég er andvígur því af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt hér, þ.e.a.s., að í því felst engin bót á rekstri flugmálanna né meira öryggi, heldur hið gagnstæða. Það er einungis fram borið í þeim tilgangi að bola frá manni, sem innt hefur starf sitt vel af hendi og framkvæmt merkilegt brautryðjandastarf á sviði flugmála og hefði átt allt annað skilið en það, sem í frv. felst.