14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

21. mál, ríkisborgararéttur

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. menntmrh. um, að það á að vera vel á verði um veitingu ríkisborgararéttar. Um það höfum við að vísu lög, sem kveða á um skilyrði, sem menn þurfa að uppfylla til þess að öðlast ríkisborgararétt. Þessi lög hafa margsinnis verið sniðgengin, og er þar skemmst að minnast hneykslisins, sem varð fyrir einu eða tveimur árum í sambandi við hinn þýzka fiskiðnaðarfræðing.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. menntmrh. sagði um hin erlendu nöfn, er það vel ætlandi að gera kröfu til þess, að þessir menn öðlist ekki meiri rétt en Íslendingar sjálfir, þar sem þeim er lögum samkvæmt bannað að taka upp ættarnöfn, og þeir verði skilyrðislaust að hlíta þessum ákvæðum. Það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh., að það er mjög óviðkunnanlegt að fá þessi nöfn inn í íslenzka tungu og alveg sérstaklega þegar menn, sem eru íslenzkir að þjóðerni, fara að bera þau.

Ég flyt hér brtt. á þskj. 432, og þegar mál þetta var tekið fyrir í þessari hv. d. í gær, bað ég um frest, þar eð ég óskaði, að hæstv. utanrrh. væri viðstaddur. Vegna þess að hæstv. ráðh. er einnig fjarverandi nú, vil ég enn á ný fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann taki málið ekki til umr., nema hæstv. ráðh. sé viðstaddur. Ég vil endurtaka það, að ég mælist eindregið til þess, að hæstv. ráðh. verði viðstaddur umr., þar sem hann hefur manna mest fjallað um mann þann, er um getur í brtt. minni.