14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

21. mál, ríkisborgararéttur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. um það, að Knauf, Edvard Carl Walter, blikksmið á Ísafirði, verði veittur ríkisborgararéttur. Hann fluttist til landsins árið 1934 og dvaldist þá fyrst 3 ár ú Djúpuvík og síðan 4 ár á Ísafirði. En eins og mönnum er kunnugt, þá voru svo að segja allir Þjóðverjar, sem dvöldust hér á landi um það leyti, sem Bretar hernámu landið, teknir höndum og haldið sem stríðsföngum í Bretlandi, þar til styrjöldinni lauk. Þessi maður var einn af þessum ólánssömu mönnum, sem hrepptu þessi dapurlegu örlög. Hann dvaldist siðan í 6 ár í Bretlandi, en kom heim strax og honum var sleppt úr haldi og dvaldist þá 2 ár á Þingeyri, en fluttist síðan til Ísafjarðar og hefur dvalizt þar síðan. Hann er kvæntur íslenzkri konu og talar íslenzku. Ef til þessa hefði ekki komið, væri hann búinn að vera hér í 17 ár. Ég flutti tili. um það á síðasta þingi, að honum væri veittur ríkisborgararéttur, en þar sem langt var liðið á þingið, þá varð ég við þeirri ósk að draga till. til baka. Mér finnst því sanngjarnt, að þessum manni verði nú veittur ríkisborgararéttur.

Hin brtt. er um það, að Vroomen, Pieter Martin Hubert, sem fæddur er í Hollandi 1906, verði veittur ríkisborgararéttur. Hann fluttist hingað 31. marz 1935, var síðan í Hafnarfirði 1935–38, í Stykkishólmi 1938–39, í Reykjavík 1940–43, síðan var hann aftur um tíma í Stykkishólmi 1943, en hefur annars verið í Reykjavík siðan 1943 og er þar nú. Þessi maður er prestur við Kristskirkju í Landakoti. Hann talar íslenzku eins og Íslendingur og er ráðvandur og elskulegur maður, sem skotið hefur hér rótum. Ég vil því eindregið mæla með því, að honum verði veittur ríkisborgararéttur. Áður hefur ýmsum starfsmönnum Kristskirkju verið veittur ríkisborgararéttur. Þeir vinna hér mannúðarstörf og eru eftir langa dvöl hér orðnir ágætir Íslendingar. Ég tel því sjálfsagt, að þessum manni verði veittur ríkisborgararéttur.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ef hv. n. óskar eftir því að athuga till., er ég fús til að taka þær aftur til 3. umr. N. hefur ekki fjallað um þær, svo að það er kannske eðlilegast að taka þær aftur til 3. umr.