14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

21. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í gær hefur n. aðeins tekið til meðferðar þær till., sem umsóknir lágu fyrir um. N. hefur ekki athugað till. hv. þm. N-Ísf., og ég vildi því mælast til þess, að hann tæki þær aftur til 3. umr., eins og hann líka talaði um, svo að n. geti athugað þau skilríki, sem þeim fylgja.

Hæstv. menntmrh. vék að því, að nauðsynlegt væri að fylgja föstum reglum við veitingu ríkisborgararéttar. Allshn. hefur alla þá tíð, sem ég hef átt þar sæti, reynt að fara eftir föstum reglum og fyrst og fremst stuðzt við hina almennu löggjöf um þetta. Þó að það hafi stundum borið við, að Alþ. hafi hvikað frá reglunum, ætla ég ekki, að allshn. verði um það kennt. N. hefur haldið nokkuð fast við það, að öllum skilyrðum laganna væri fylgt, og þannig hefur málið líka verið afgr. að þessu sinni. Af þeim ástæðum hefur n. ekki getað fallizt á tvo menn, sem stj. tók upp, því að það skortir á, að þeir hafi búið hér nógu lengi.

Hæstv. ráðh. taldi eðlilegt, að þeir útlendingar, sem veittur væri íslenzkur ríkisborgararéttur, tækju upp íslenzk nöfn, því að er frá liði yrðu hin erlendu nöfn til lýta á tungunni. Ég er hæstv. ráðh. sammála um þetta, og það hefði fyrr mátt setja reglur um það. Það ætti að vera öllum útlátalaust, þó að þessari reglu verði komið á, og ég býst við, að n. hafi ekkert við það að athuga, að þessi regla verði upp tekin.