14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

21. mál, ríkisborgararéttur

Áki Jakobsson:

Ég vil þakka hæstv. forseta, ég get ekki gert kröfu til þess, að hæstv. utanrrh. mæti hér.

Ég flyt á þskj. 432 till. um það, að Heinz Karl Friedlaender verði veittur ríkisborgararéttur. Þessi maður kom til Íslands í ágúst 1935, og hefur legið fyrir umsókn frá honum um ríkisborgararétt síðan 1945, en þá vantaði hluta úr ári til þess að hann hefði verið hér búsettur nægilega lengi, því að l. segja, að menn þurfi að hafa verið búsettir hér samfleytt í 10 ár til þess að fá ríkisborgararétt. Hann hefur endurnýjað umsókn sína á hverju þingi síðan, og hann fullnægir öllum skilyrðum laganna. Hann hefur lagt fram öll skilríki og vottorð, en þrátt fyrir það er umsókn hans alltaf vikið til hliðar og komið í veg fyrir, að hann fái ríkisborgararétt. Það er því óhjákvæmilegt að skýra nokkru nánar frá þessum manni, sem ég þekki lítils háttar.

Hann er fæddur 27. ágúst í Berlín, er af Gyðingaættum og fór þess vegna burt frá Þýzkalandi í ágúst 1935 og settist að á Íslandi. Hann hefur gert grein fyrir veru sinni hér, svo að fylgjast má með því, hvar hann hefur verið. Þá hefur hann lagt fram hegningarvottorð, sem sýnir, að hann hefur ekki brotið nein lög og ekki sætt neinni ákæru eða refsingu fyrir meint brot. Samkv. vottorði frá borgarstjóranum í Reykjavík frá 12. des. 1945 hefur hann ekki fengið framfærslustyrk og staðið í skilum með gjöld sín.

Þessi maður er kvæntur íslenzkri konu, dóttur Halldórs Jenssonar frá Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði, og hefur hann hér reynt að greiða fyrir tengdasyni sínum, þar sem hann vill verða íslenzkur borgari.

En þó að þessi maður uppfylli öll þau skilyrði, sem lögin gera ráð fyrir, hefur það reynzt honum erfitt að fá íslenzkan ríkisborgararétt, og erfitt hefur verið að finna, hver það er, sem berst á móti því. Ég hef talað við alla hv. samnm. mína, og þeir viðurkenna allir, að öllum skilyrðum sé fullnægt. Hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Ak. hafa einu sinni glæpzt til þess að mæla með málinu, en fengið bágt fyrir, og nú eru þeir ófáanlegir til þess, þó að þeir geti ekki nefnt neina ástæðu. Málið er ekki rætt á fundum n., heldur eru nm. kallaðir út og hvíslað að þeim þar.

Ég hef nú reynt að komast að því, hvaðan þessi andstaða stafar, og virðist svo, að hún stafi frá hæstv. utanrrh. Það lítur út fyrir það, að hæstv. utanrrh. hafi fengið þennan mann á heilann og megi ekki heyra það nefnt, að honum verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Ég hef heyrt, að tengdafaðir þessa manns hafi átt tal við þm. og beðið þá að mæla með tengdasyni sínum, en að þeir hafi svarað því til, að þeir þyrðu ekki að baka sér reiði utanrrh. Hæstv. forseti sér af þessu, að það er ekki að ástæðulausu, að ég vil tala við hæstv. utanrrh. Hann heldur í spottann, og kjarkur nm. er ekki meiri en það, að af þeim ástæðum þora þeir ekki að mæla með umsókninni.

Ég skal ekki tefja umr., en ég vildi, að þetta kæmi fram, og ég tel hæstv. utanrrh. minni mann, ef hann þorir ekki að mæta hér til þess að ræða málið og leggja fram rök sín.

Ég skal ekki ræða þetta frekar nú, en vænti þess, að ég fái tækifæri til að ræða málið við hæstv. utanrrh. við næstu umr. Í þeirri von mun ég taka brtt. mína aftur til 3. umr.