18.12.1951
Neðri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

21. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Allshn. hefur leyft sér að bera fram við frv. brtt. á þskj. 467 um, að bætt sé við þremur mönnum, sem fái einnig ríkisborgararétt. Þannig er ástatt um þá tvo fyrst nefndu, að þeir hafa dvalizt hér þann áskilda tíma, sem ætlazt er til um útlendinga samkvæmt lögum um ríkisborgararétt. Umsóknir höfðu ekki legið fyrir frá þeim, og fyrir þær sakir hafði n. ekki tekið þá upp á till. sína fyrir 2. umr. Um þriðja manninn er það að segja, að hann hefur líka dvalizt hér tilskilinn tíma. Pietseh, Heribert Jósef, kom hingað til landsins 1933 og dvaldist til 1940, en var þá tekinn af Bretum og farið með hann til Englands. Þar var hann svo þangað til hann kom aftur hingað til landsins. Hann átti kost á því að fara í fangaskiptum yfir til Þýzkalands, en hafnaði því, og var svo hjá Bretum, þar til hann kom aftur hingað. Ef ekki er tekið tillit til þess, að dvalartími þessa manns slitnaði í sundur af þeim ástæðum, sem voru honum alveg óviðráðanlegar, þá hefur hann dvalizt hér tilskilinn tíma. Hann er kvæntur íslenzkri konu, og þau eiga tvö börn. Skjöl hans eru í bezta lagi. Hann hefur stundað keramiksmíði og fær hinn bezta vitnisburð, m.a. frá þeim, sem hafa haft náin kynni af honum og hann hefur starfað fyrir. Þar sem svo er ástatt um þennan mann, sá n. sér ekki fært annað en að leggja til, að honum verði veittur ríkisborgararéttur og honum ekki getið að sök, þó að dvöl hans hlutaðist sundur af þeim ástæðum, sem voru honum alveg ósjálfráðar.

Þá flytur n. auk þess till. um, að þeir útlendingar, sem hljóta hér íslenzkan ríkisborgararétt, taki upp íslenzk heiti. Hæstv. menntmrh. hafði orð á því við 2. umr. málsins og benti þá réttilega á, að það væri varhugavert fyrir íslenzka tungu í framtíðinni, ef það væri látið halda svo áfram að þessir útlendingar og niðjar þeirra héldu sínum erlendu heitum. Í framtíðinni yrði þetta mjög afkáralegt og óæskilegt, ef það yrði látið svo til ganga. Ég er alveg sammála hæstv. menntmrh. um, að þetta eru orð í tíma töluð og að rétt sé að ráða bót á þessu nú þegar. — Það kann að þykja nokkur strangleiki í því fólginn, að þessir menn þurfi jafnvel að skipta um nafn. En þegar þess er gætt, hvað okkar tunga á í hættu, þá tel ég það alls ekki of harða kröfu, ef þeim er mikið kappsmál að verða íslenzkir ríkisborgarar, þó að þeir taki sér nýtt nafn. — N. vitnar í till. sinni í lög um mannanöfn og ætlast til, að farið verði eftir ákvæðum þeirra laga. Skulu þeir sækja um heiti til ríkisstj., og það verði það nafn, sem þeir vilja taka upp, og verður það löggilt með þessum hatti. — Nm. eru einnig þeirrar skoðunar, að það verði þá betur gætt þess, að eftir þessum lagaákvæðum sé farið heldur en undanfarið. Ég treysti því, að hæstv. ríkisstj. gefi þessu betri gætur en nú um alllangt skeið. Það er óþarft fyrir okkur Íslendinga að herma eftir erlendum siðum í þessu efni. Það fer vel við okkar mál, að synir og dætur kenni sig við feður sína. En það er afkáralegt, þegar konur hætta að kenna sig við feður sína, en taka að kenna sig við feður eiginmanna sinna. Allt þetta fer mjög illa við mál okkar, okkar þróttmiklu og fögru tungu. Síðar meir mundi vera hin mesta nauðsyn að ganga enn betur frá þessu efni með því að endurskoða l. um mannanöfn, og eitt af þeim grundvallarskilyrðum, sem við viljum setja inn í hina almennu löggjöf um veitingu ríkisborgararéttar gagnvart þeim erlendu mönnum, sem öðlast þennan rétt, er það, að þeir taki upp íslenzk heiti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. N. hefur athugað brtt. hv. þm. N-Ísf. og felist á að mæla með þeim. Það er að vísu þannig ástatt um þann mann, sem nefndur er undir fyrri tölul., að hann hefur ekki dvalizt hér tilskilinn tíma, en það er eins ástatt um hann og manninn undir 3. tölul. í brtt. n., að hann hefur að vísu dvalizt eitthvað erlendis, en kom svo heim og er búinn að vera hér alls í 10 ár. En þar sem stendur eins á um þessa menn báða og þeir hafa beztu meðmæli, sér n. ekki ástæðu til að gera upp á milli þeirra og leggur þess vegna til, að þessi brtt. verði samþ.

Að því er snertir brtt. á þskj. 473, frá hv. 3. landsk. og hv. 5. þm. Reykv., þá er þannig ástatt um þessa menn alla, að þeir hafa verið hér of stuttan tíma, þar sem þeir hafa allir komið hingað 1946 og verið hér síðan. Tveir þeirra, þ.e. þeir, sem eru undir 1. og 3. lið, voru á frv. hæstv. ríkisstj., og skjöl þeirra eru í bezta lagi, en n. sá sér ekki fært að gera till. um það af sinni hálfu, að þeir yrðu teknir upp, þar sem þeir hafa ekki dvalizt hér nógu lengi. Það er eins ástatt um mann þann, sem er undir 2. lið, en að öðru leyti virðist standa nákvæmlega eins á um hann, skjöl hans öll eru í bezta lagi og þetta eina skilyrði aðeins, sem hann skortir. Hv. d. verður að skera úr um það, hvað hún vill samþ. í þessu efni, meðmæli þessara manna eru góð, það er ekkert að þeim að finna, og hef ég þess vegna ekkert frekar um þetta að segja að sinni.