18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

21. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Eins og segir í nál. á þskj. 606, hefur allshn. mælt með því, að frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar, sem er á þskj. 492, verði samþ. með þeim breytingum, sem n. leggur til á þskj. 607. Þess ber að geta, að á þeim fundi, sem ákvörðunina tók, voru ekki mættir nema þrír nm. og þar af undirritaði einn nál. með fyrirvara.

Það er svo, að við afgreiðslu þessa máls hafa gilt mismunandi sjónarmið. Sams konar frv. hefur verið borið fram hér í deildinni áður, og var þá unnið að því af allshn. þessarar d., sem var skipuð sömu nm. og nú. Sjónarmið n. var þá að afgreiða málið allþröngt, þ.e.a.s., að nærri enginn skyldi fá ríkisborgararétt, nema hann væri af íslenzku bergi brotinn, fæddur af íslenzku foreidri, og svo Norðurlandamenn. Þegar frv. var afgreitt í Nd. á síðasta ári, kom í ljós, að allshn. gat ekki litið svo á málið sem n. þeirrar hv. d. né fylgt þeirri reglu, sem þar var fylgt, og gekk nauðug inn á þá braut, sem hún fór þá. — Í Nd. voru nú allir teknir inn á frv., sem höfðu dvalizt hér 10 ár og umsóknir komu frá, en aðrir, sem ekki höfðu dvalizt hér þann tíma, voru allir felldir niður án tillits til þess, hvort þeir væru fæddir Íslendingar og væru af íslenzku foreldri eða ekki. Þeir hafa sett sér þessa reglu og skáru alla hina úr frv. Þegar frv. kemur svo til allshn. Ed., eru nm. ekki ánægðir með þessa afgreiðslu. En vegna þess að svo margir tengja vonir sínar við afgreiðslu þessa máls, vill n. freista þess að fá það afgreitt með þeim brtt., sem hún hefur gert.

Eins og málið horfir nú, þótti n. ekki rétt að gera neina allsherjar athugun á þeim, sem sóttu og voru teknir, og hinum, sem ekki voru teknir. Leggur n. fram brtt. sínar á þskj. 607, er byggjast eingöngu á einstökum upplýsingum, sem n. fékk. Mun ég gera nokkra grein fyrir þeim.

Nr. 1 og 5 voru upphaflega á frv., en voru felldir burt samkv. reglu n. Þessir menn eru báðir danskir og hafa dvalizt hér í rúm 5 ár, þannig að ríkisstj. getur veitt þeim ríkisborgararétt, því að það ár, sem þeir komu, voru sett ákveðin takmörk, hvort heldur um var að ræða Dani eða Íslendinga. Af þeirri ástæðu leyfum við okkur að leggja til, að samþ. verði að veita þessum tveimur mönnum ríkisborgararétt. Þá er það nr. 2 á brtt. 607. Hann er búinn að dvelja hér tilskilinn tíma. — Nr. 3 er nunna í Hafnarfirði. Virðist það hafa stafað af misskilningi, að hún var ekki tekin með, því að önnur nunna var tekin og eins stendur á um báðar. Nr. 4 er íslenzk kona, rúmlega tvitug, sem giftist Færeyingi hér og fluttist til Færeyja og missti sinn íslenzka ríkisborgararétt. Bjó hún rúmt ár í Færeyjum, en fór svo heim í sumar til stuttrar dvalar. En eiginmaðurinn fór þannig að ráði sínu, að hann seldi eigur þeirra og fór á skip. Veit hún ekkert, hvar hann er niður kominn. Er ekki annað fyrir hana að gera en vera hér kyrr og fá skilnað. Er því mjög erfitt fyrir hana að vera erlendur ríkisborgari. Mér er kunnugt um, að þetta er rétt, því að ég reyndi að bjarga eignum hennar, en það var of seint. — Nr. 6 er fræðimaður af þýzkum uppruna, sem er búinn að dveljast hér samfleytt síðan 1935. Mér þótti rétt að gera grein fyrir þessu.

Ég vil skjóta því til hæstv. dómsmrh., að sú aðferð, sem höfð hefur verið við veitingu ríkisborgararéttar, er vægast sagt mjög óheppileg. Er það sérstaklega áberandi, þegar deildirnar hafa hvor sína aðferð til að vinna eftir og geta ekki komið sér saman um neinar reglur. Virðist nauðsynlegt, að málið sé betur búið í hendur þingsins, ef það á að afgreiðast vel.

Ef litið er á upphaflega frv., má sjá, að þar eru teknir aðeins sjö umsækjendur, en síðan hafa margir bætzt við. Allur skjalabunkinn er svo sendur til n., og er ekkert undarlegt, þó að einhver mistök verði við afgreiðslu jafnumfangsmikils máls, þegar til er ætlazt, að það sé afgreitt með slíkum hætti sem nú. Leyfi ég mér að benda á, að eðlilegt væri að afgreiða málið með öðrum hætti í framtíðinni. Það kann ekki góðri lukku að stýra, þegar deildirnar geta ekki verið sammála um þá aðferð, sem nota á við afgreiðslu málsins. — Legg ég til, að frv. verði samþ. með áorðnum breytingum.