18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

21. mál, ríkisborgararéttur

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Þegar þetta mál var afgr. í fyrra, tók ég þátt í afgreiðslu þess. Nefndarmenn höfðu skiptar skoðanir á því, hvaða reglu bæri að fylgja í þessum efnum, og komu þar aðallega til greina þrjár reglur, en allir voru sammála um það, að einhverri reglu yrði að fylgja og það væri óviðunandi, að þar væri engin regla, sem hægt væri að fara eftir. Í þetta skipti var farið eftir ákveðinni reglu, en allir voru sammála um það, að sú regla væri ekki ætluð til frambúðar, en ég var henni fylgjandi, af því að ég taldi, að aðalatriðið væri, að þarna væri einhver regla, sem hægt væri að fara eftir. Hitt er algerlega óviðunandi, að veiting ríkisborgararéttar fari eftir því, hvað einstakir deildarmenn eru duglegir að róa og reka áróður fyrir þeim mönnum, sem þeir vilja veita ríkisborgararétt, og þar komi til greina persónuleg vinátta þeirra við þessa menn og jafnvel vitneskja manna um pólitískar skoðanir þeirra. Nú heyri ég það á máli þeirra þriggja manna, sem hér hafa talað um þetta mál, að þeir eru allir á sama máli og þeir voru í fyrra, og vekur það því meiri furðu mína, að þeir skuli leggja til, að frv. verði samþykkt með þeirri handahófsafgreiðslu, sem hér er lagt til.

Ég verð að segja, að ég tel það vera algerlega ósamboðið virðingu Alþingis og vítavert, að dómsmrn. skuli leggja málið þannig fyrir. Það er engan veginn samboðið virðingu þingsins að afgreiða málið á svona losaralegan hátt. Ég tel, að þessi afgreiðsla sé svo vítaverð og svo mikill skrípaleikur, að ég mun ekki taka þátt í afgreiðslu þess og ekki greiða atkvæði um það, — ég tel, að það sé ekki samboðið neinum manni að taka þátt í slíkri afgreiðslu máls sem þessari.