18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

21. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú talað tvisvar um þetta mál, en ég spurði um það í fyrri ræðu, hvort hæstv. dómsmrh. gæti ekki verið viðstaddur, en var þá sagt, að hann væri fjarverandi, og vil ég því leyfa mér að segja nokkur orð núna.

Hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir, að það væri ekki hægt að samþ. rökstuddu dagskrána vegna þess, að hún stríði á móti ákvæðum stjórnarskrárinnar, enda væru lögin frá 1935 einskis virði. Ég skal nú ekki fara að taka upp umr. við hann um svo veigamikil lagafyrirmæli. Hins vegar virðist mér, að samstarfsmaður hans í ríkisstj. sé nokkuð á annarri skoðun í þessu efni. Þegar ég talaði um þetta mál áður, benti ég á, að mér fyndist eðlilegast fyrir okkur hér að koma á föstum reglum um skilyrðin fyrir því, að hægt væri að veita ríkisborgararétt, svo að ráðuneytið gæti síðan veitt hann án þess að spyrja Alþ., og ég get ekki skilið, að slíkar reglur þyrftu að brjóta í bága við stjórnarskrána. Og þegar bornar eru hér fram breytingar, þá verða þær að koma fram við þau lög, sem gilda í þessu efni. Mér finnst þetta eðlilegri starfsaðferð en að hér sé sett fram frv. um þetta efni á hverjum tíma og þá velti allt á kunningsskap og áróðri, hverjir fá ríkisborgararéttinn og hverjir ekki. Ég vænti því, að hæstv. dómsmrh. sjái sér fært að láta útbúa fastar reglur um þessa hluti, eins og gert var 1935, sem séu a.m.k. til leiðbeiningar fyrir Alþ. Ég veit ekki betur en farið hafi verið eftir lögunum frá 1935 í stórum dráttum og oft vitnað í þau, svoleiðis að eitthvert gildi hafa þau haft. — Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta atriði. En ég vildi spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvort til ráðuneytisins hafi ekki borizt umsókn um ríkisborgararétt fyrir Björn Hallsson, fæddan í Danmörku, en faðir hans er íslenzkur. Faðir hans hefur sagt mér, að hann hafi lagt fram í ráðuneytinu umsókn fyrir nokkru, en ég sé, að hann er ekki tekinn hér með, og mér er sagt, að skjöl hans hafi ekki komið til hv. allshn. En ég vil óska eftir þeim upplýsingum, hvort hans umsókn hafi ekki borizt til ráðuneytisins og hvort það hafi þá lagzt á móti henni. Ég mun þá kannske við 3. umr. bera fram brtt. um þennan mann, og ég vildi óska, að hv. nefnd geti tekið gögn hans til athugunar, ef þau hafa borizt til ráðuneytisins.