18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

21. mál, ríkisborgararéttur

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, þar sem hæstv. landbrh. tók fyrir í ræðu sinni nokkuð af því, sem ég ætlaði að segja. En ég vil benda hæstv. dómsmrh. á það, sem kom og fram í ræðu hv. þm. Barð., að þótt það sé hans skoðun, að ríkisborgararétt eigi ekki að veita samkvæmt föstum lögum frá Alþ., þá felast ekki nein ákvæði um slíkt í till. þeirri til rökstuddrar dagskrár, sem hv. þm. Barð. hefur lagt fram. Það felst ekki í henni, að Alþ. hætti að veita ríkisborgararétt með lögum í hvert sinn. Það er því óhætt að samþ. rökstuddu dagskrána þess vegna, að hún þarf ekki að leiða til stjórnarskrárbrots. Ég benti á það áður, að ég teldi fulla ástæðu til að endurskoða reglurnar um veitingu ríkisborgararéttar, bæði um það, hverjir skuli fá ríkisborgararétt, og enn fremur og ekki síður að breyta reglunum um meðferð þessara mála í sambandi við umsóknirnar. Það er nauðsynlegt að breyta eitthvað meðferð og undirbúningi þessara mála, áður en þau koma fyrir þingið. Þess vegna sé ég ekki, að hæstv. dómsmrh. þurfi að þvertaka fyrir það að láta fara fram endurskoðun á þessum reglum, sérstaklega með það fyrir augum, að meðferð umsóknanna um ríkisborgararétt verði breytt, enda þótt ríkisborgararéttur verði veittur með lögum frá Alþ. eins og áður samkvæmt stjórnarskránni. — Ég vil benda á, að hluti nefndarinnar, sem ég hélt að væri meiri hl., en ég sé nú, að svo er ekki, hefur gert till. um að taka þrjá menn inn í frv., sem uppfylla ekki skilyrðið um 10 ára dvöl hérlendis, en það skilyrði er í lögunum frá 1935, og fær það því ekki staðizt, að nefndir í þinginu hafi haldið þessar reglur, sem í lögunum eru. Það er líka vitað, að hv. allshn. Nd. hefur ekki farið eftir þessari reglu í a.m.k. einu tilfelli, þar sem hún hefur ekki tekið upp mann, sem uppfyllti öll skilyrðin, en tók aftur á móti út einn mann, sem nefnd þessarar hv. deildar hafði tekið inn, vegna þess að hann uppfyllti ekki skilyrðið um 10 ára dvöl hér á landi. Það er því sýnilegt, að hér er ekki farið eftir reglum laganna frá 1935, auk þess sem engar reglur eru til um meðferð málsins í heild.