18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

21. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. Barð. er það sannast að segja, að ég man ekki með neinni vissu eftir þessum manni, en þó er eins og ég kannist við, að hann hafi lagt fram umsókn og við talið einhvern annmarka á hans máli. Ég man þetta þó ekki með vissu, en sannast að segja veit ég ekki, hvort nokkur ávinningur er að því fyrir nokkurn að draga það mál hér fram. Þó hef ég auðvitað ekkert á móti því, að nefndin spyrjist fyrir um hans gögn í dómsmrn.

Hins vegar er það ljóst, að það er nokkur meiningarmunur á milli mín og hv. þm. Barð. í þessu máli. Hann vildi telja það mögulegt, að stefnt yrði að því að taka þetta mál úr höndum Alþ. Þetta álit ég að sé óheimilt, ef ákvæði stjórnarskrárinnar í þessu efni eiga að gilda. Hitt er svo að sjálfsögðu rétt, eins og kom fram hjá hæstv. landbrh., að lögin frá 1935 geta hafa haft móralskt gildi. Þau hafa getað gilt sem eins konar sáttmáli, sem þm. hafa gert sín á milli um þetta mál, en lagalega þýðingu hafa þau ekki haft. Ég held, að okkur greini ekki á um þetta. Ég neita því ekki, að almennar reglur geti haft nokkra þýðingu. En það verður að virða mér þessa skoðun mína nokkuð til vorkunnar, því að ég var kennari við lagadeildina, þegar þessi lög voru sett, og ég hélt því þá alltaf fram, að lagalega væru lögin þýðingarlaus og í andstöðu við stjórnarskrána, svo að þessa skoðun mína fékk ég þá. Og þess vegna segi ég það, að ég treysti mér ekki til að setja reglur, sem ég samkvæmt sannfæringu minni tel, að ekki fái staðizt. En ef deildin samþ. þessa rökstuddu dagskrá, þá hún um það. Hinu er ég sammála, sem kom fram hjá hv. 7. landsk., að það er eðlilegt, að þingið ætlist til þess, að þessi mál verði betur undirbúin, er þau koma inn í þingið, og mun ég reyna að beita mér fyrir því, að svo verði gert.

Um endurskoðun sjálfra laganna um ríkisborgararétt vil ég segja það að öðru leyti, að það hafa nú verið sett um þetta ný lög á Norðurlöndunum. Áður voru íslenzk lög um þetta efni í nokkru samræmi við lög þeirra landa, en nú er það þá ekki lengur, og við höfum skoðað það gaumgæfilega, hvort rétt væri að breyta ísl. lögum í samræmi við þær breyt., sem þessi lönd hafa gert, og sýndist okkur, að það væri ekki rétt að leggja slíkar breytingar fyrir það þing, sem nú er að ljúka. Að vissu leyti væri kannske hentugt og skemmtilegt að fylgja reglum hinna Norðurlandanna í þessu efni, en þó kynni það að vera, að í þeirra reglum fælust ákvæði, sem við vildum ekki samþ.