18.01.1952
Efri deild: 63. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

21. mál, ríkisborgararéttur

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja mikið um þetta mál, því að raunverulega greinir okkur lítið á, hæstv. dómsmrh. og mig, um þetta mál.

Það er ljóst, að þingið getur gengið fram hjá þessari reglu, hvenær sem það vill, og sett l. um ríkisborgararétt. Það er því alveg rétt hjá hæstv. dómsmrh. og n., að hún er ekki bundin við þessa reglu og þingið getur sett l. um það, að þessi og þessi maður skuli fá ríkisborgararétt, þó að hann uppfylli ekki þessi skilyrði. En það er engum efa bundið, að þrátt fyrir þetta er nauðsynlegt að setja lagaákvæði fyrst og fremst um það, hvernig á að afla upplýsinga um mann, sem veita á ríkisborgararétt, og hvernig á að vinna úr þeim gögnum, og jafnframt, hvaða skilyrði hann þarf að uppfylla, en þetta eru vitanlega reglur, sem að jafnaði verður farið eftir, því þó að þetta sé svona, vegna þess að þessi ákvæði eru í stjskr., þá hlýtur það alltaf að verða handahóf og leiðinleg afgreiðsla, ef ekki eru settar um þetta reglur. Ég álít þess vegna ekki óeðlilegt, að Alþ. segi: Eftir þessum reglum ætla ég að fara, þegar ég set um það l. En eins og ég sagði áðan, þá er sáralítill ágreiningur eða næstum enginn um þetta atriði, og ég álít, í samræmi við það, sem ég vann að þessu 1935, að það þurfi að fullkomna þessar reglur, sem aldrei geta orðið annað en meginreglur, sem þingið segist ætla að fara eftir fyrst um sinn og getur síðan víkið frá eftir vild. Því er það mjög vafasamt atriði, að þetta eigi að vera í hendi löggjafans, svo mikið handahóf, sem á því hefur verið.