18.01.1952
Efri deild: 63. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

21. mál, ríkisborgararéttur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef sannfærzt um það undir þessum umr., að það er stjórnskipulega rétt, að þingið hverju sinni ákveði, hverjum er veittur ríkisborgararéttur og hverjum synjað um hann. En samt er ég alveg sannfærður um, að það færi betur á því, að einhverjar meginreglur væru gildandi um það, hvaða skilyrðum menn þyrftu að fullnægja til þess að geta öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt, því að það væri mjög óskemmtilegt, ef það giltu gerólíkar reglur um það frá ári til árs, hverjir fengju þennan mikilsverða rétt. Að manni væri veittur ríkisborgararéttur í fyrra, en öðrum, sem alveg stæði eins á um, væri synjað um hann í ár, það væri óskemmtilegt þingsins vegna. — Nú er með þessu frv. sett í 2. gr. nýtt skilyrði, sem ekki hefur verið sett áður, þar segir: „Þeir, sem heita erlendum nöfnum, skulu þó ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt með lögum þessum fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn samkvæmt lögum nr. 54 27. júní 1925, um mannanöfn.“ Í ár væri þá kannske fjölda útlendra manna veittur ríkisborgararéttur, sem ekki mættu heita sínum útlendu nöfnum, en næst mættu menn heita hverrar þjóðar nöfnum sem vera vildi. Ef þetta er samþ. svona nú, þá tel ég sjálfsagt að fylgja þessari reglu í framtíðinni, en ekki að þingið rokki til með þetta frá ári til árs. — Í sambandi við þetta er ekki ljóst, hvernig á að framkvæma þetta, hvernig útlendingar eiga að skipta um nöfn. Svo er vitnað til l. um mannanöfn frá 1925, en þar segir, að prestar skuli hafa eftirlit með því, að þeim ákvæðum sé fylgt, að menn heiti íslenzkum nöfnum og kenni sig við föður sinn, og ef ágreiningur er, þá beri heimspekideild að skera úr, og að þeir, sem heita klaufalegum erlendum nöfnum áður en þessi l. voru sett, geti fengið nöfnum sínum breytt með konungsleyfi. Eiga nú þessir menn að sækja um forsetaleyfi, ganga undir skírn hjá presti eða sækja um leyfi til ríkisstj.? Er ekki einhver, sem getur upplýst, hvaða ráðstafanir útlendingar eiga að gera til þess að fullnægja þessu skilyrði, sem nú er sett til að geta fengið íslenzkan ríkisborgararétt?