19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

21. mál, ríkisborgararéttur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það, sem ég vildi segja um þetta mál, er það, að ég tel, að þetta sé eitt það nauðsynlegasta og eðlilegasta mál, sem tekið hefur verið upp í þinginu. Það er mikilsvert, að þetta verði samræmt, en nú eru í gildi ýmis ákvæði um þetta í ýmsum löndum. Og ég vil mjög beina því til þeirra manna, sem fara á þing Sameinuðu þjóðanna, hvort ekki væri ástæða til að reyna að koma meira samræmi á um ríkisborgararéttinn í löndunum. Þetta fyrirkomulag, sem nú ríkir, er afar óheppilegt. Það er óheppilegt, að ein kona fái réttinn, ef hún giftist erlendum manni, en önnur ekki, eftir því, til hvaða lands hún giftist. Þess vegna vildi ég beina því til hæstv. dómsmrh. og þeirra annarra manna, er mæta á alþjóðaráðstefnum, hvort ekki væri rétt að reyna að samræma þessi mál í hinum ýmsu löndum.