21.01.1952
Neðri deild: 66. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

21. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. N. hefur nú kynnt sér afgreiðslu Ed. á málinu. Það hefur komið í ljós, að allshn. Ed. hefur haft aðrar reglur til að fara eftir en allshn. Nd. Allshn. Nd. hefur haldið sig við þau ákvæði l., að menn hafi haft hér búsetu minnst um 10 ára skeið samfellt. Fyrir þá sök gerði allshn. þessarar d. till. um að fella tvo menn niður úr frv. Nú lagði allshn. Ed. til, að þeir yrðu teknir upp í frv. að nýju, og hv. Ed. samþ. þá till. n. Enn fremur hafa borizt nýjar umsóknir frá fólki, sem átt hefur jafnan rétt á að fá ríkisborgararétt, a.m.k. hvað áhrærir flesta þá menn, sem n. tók upp. Allshn. þessarar deildar sá ekki ástæðu til út af hinni mismunandi afgreiðslu málsins að fara að gera breyt. á frv. af þessum sökum og lætur það þess vegna hlutlaust. En fyrst svo var, að hv. allshn. Ed. hélt sig ekki við ákvæðin um búsetu fólks, þá fannst okkur 5. þm. Reykv. ástæða til að taka upp í frv. tvo menn, sem hafa búið hér lengur en sumt af því fólki, sem hv. allshn. Ed. hefur tekið upp í frv. Fyrir þá sök höfum við leyft okkur að bera fram brtt., sem nú er í prentun. Þessir tveir menn eru Eilertsen, sem er sjómaður í Reykjavík og fæddur í Noregi, og Rafn, sem er vélvirkjanemi í Reykjavík, einnig fæddur í Noregi. Rafn fluttist hingað 1941 og kvæntist 1944, og á hann hér 3 börn. Hann stundar hér vélvirkjanám og hefur verið í iðnskólanum í 3 ár. Hann hefur kynnt sig hér vel, hefur góð meðmæli, og öll hans skilríki eru í bezta lagi, og hann hefur verið hér búsettur í nokkuð langan tíma, svo að okkur finnst ekki ástæða til annars en að hann fái þennan rétt. Hið sama má segja um Eilertsen. Hann kom hingað laust eftir 1940 og kvæntist hér 1943. Hann hefur stórt heimili, því að þau hjónin eiga 6 börn. Hans skjöl eru einnig í bezta lagi, og af þeim er það að sjá, að hann sé vel látinn maður. Hv. 1. flm. þessarar till. hefur persónuleg kynni af þessum mönnum, og gefur hann nánari upplýsingar um þá. Mér finnst fara vel á því, að þessi hv. deild bæti þessum tveim mönnum inn i, og vænti ég þess, að hv. Ed. geri ekki ágreining út af því. —- Vænti ég svo þess, að málið fái fljóta afgreiðslu.