11.12.1951
Efri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

38. mál, hámark húsaleigu o. fl.

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, var ég ekki viðstaddur, þegar þetta mál var afgr. í n., — gat ekki komið því við, þar sem fundur var ekki haldinn á venjulegum fundartíma. Ef ég hefði mætt, hefði ég lagt til, að frv. yrði samþ. óbreytt, en brtt. meiri hl. n. yrði felld. Ég get að öllu leyti fallizt á rök borgarstjórans í Reykjavík, sem tekin eru upp í nál. meiri hl. Þetta er mál, sem mæðir einna mest á honum, og hann er manna kunnugastur ástandinu í þessum efnum, eins og það er hér núna. Til viðbótar vil ég benda á, að fyrir utan þá, sem eiga innstæður í sparisjóðum, og aðra, sem eiga skuldabréf, hefur Alþ. ekki farið verr með nokkra en húseigendur undanfarin ár, og er kominn tími til að hverfa frá þeirri stefnu og því ekki ástæða til að halda henni áfram. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en legg til, að brtt. meiri hl. verði felld.