16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

169. mál, fjáraukalög 1949

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hér er frv. til fjáraukal. fyrir árið 1949 á ferðinni. Síðast þegar fjáraukal. voru afgreidd hér á Alþingi, þá var þess látið getið af hv. fjvn., að hún væri óánægð með það fyrirkomulag, sem var tekið upp á fjáraukal.

Það var tekið upp að láta fjáraukal. sýna þann mismun, sem verið hefði, þ.e.a.s. það, sem hefði farið fram úr áætlun, og það, sem hefði sparazt. Ég vildi þess vegna taka inn á fjáraukal. það, sem hafði orðið umfram á einstökum liðum frv., og veita fjárveitingu fyrir því. — Ég lagði svo fyrir, að þessi athugasemd um fjárveitinguna skyldi tekin til greina, og veit ég, að það hefur verið gert, og vænti, að með þessari löggjöf verði bætt úr þessu.

Um einstök atriði í fjáraukalagafrv. sé ég ekki ástæðu til að ræða. En ég óska, að málinu verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr.