14.01.1952
Neðri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv., því að athugasemdirnar, sem því fylgja, skýra, hvernig það er til komið, en það er, eins og tekið er þar fram, bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar, sem hefur sent til Alþ. og fjmrn. ósk um, að Alþ. heimili bæjarsjóði Akureyrar að innheimta fasteignaskatta með allt að 400% álagi og komi þetta til framkvæmda á yfirstandandi ári.

Ríkisstj. hefur orðið ásátt um að leggja til við Alþ. samþ. heimildarlög um þetta efni, þannig að bæjarstjórnunum sé heimilt að innheimta með allt að 400% álagi þá skatta, sem renna til bæjarsjóðs og miðaðir eru við fasteignamat. En undanskilinn þessu er þó vatnsskattur, þar sem hann mun áður hafa verið hækkaður sérstaklega.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv., en legg til, að því að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og fjhn.