18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þegar ég sá þetta frv. á þskj. 593, varð ég undrandi, eftir þær deilur, sem hér hafa orðið að undanförnu um hækkun fasteignamatsins. Því var af sumum haldið fram í sambandi við það mál, að það mundi hækka fasteignaskatt og eignarskatt. Nú er lítið annað gert í þessu frv. hæstv. ríkisstj. en hækka öll fasteignagjöld, sem renna til bæjar- og sveitarsjóða, um 400%, en það nær hvorki til fasteignaskatts né eignarskatts. Það yrðu aðallega smágjöld, sem hækkuðu, rafmagnsgjald, símagjald og vegagjald til sýsluvega og hreppsvega. — Eins og kunnugt er, ber að leggja á útsvör eftir efnum og ástæðum, og er bæjar- og sveitarstjórnum í sjálfsvald sett, hvernig þær reikna út eignir manna, og geta því hækkað útreikninga og útsvarsálögur eins og eðlilegt er og sjálfsagt. Fyrir þessu frv. eru ekki færð önnur rök en að þetta sé gert eftir beiðni frá bæjarstjórn Akureyrar. Mér þykir þessari bæjarstjórn gert hátt undir höfði, ef eftir beiðni hennar einnar á að gefa svo víðtæka heimild. Á síðastliðnu hausti héldu hér fund fulltrúar frá bæjarstjórnum á landinu, 13 að tölu. Þar voru gerðar ýmsar till. um endurbætur á hag bæjarfélaganna, sem allir fulltrúarnir voru sammála um. Ekkert hefur verið gert út af þeim ályktunum enn þá, en svo kemur ein af þessum 13 bæjarstjórnum og biður um að fá hækkuð öll fasteignagjöld um 400%. Mér finnst nokkurt ósamræmi í því hve þessari bæjarstjórn er gert hátt undir höfði.

Ég álít, að þetta frv. sé óþarft vegna þess, að bæjar- og sveitarstjórnir hafa rétt til að taka svo mikil fasteignagjöld gegnum útsvörin sem þeim þykir sanngjarnt. Þess vegna vil ég bera fram svo hljóðandi till. til rökstuddrar dagskrár:

„Þar sem aðaltekjur bæjar- og sveitarfélaga eru útsvör, þar sem þau ber að leggja á eftir efnum og ástæðum og þar sem bæjar- og sveitarstjórnir geta samkvæmt þeirri reglu reiknað fasteignir með öðru og hærra verði en matsverði, ef þær telja það sanngjarnt, við álagningu útsvaranna, þá telur deildin þetta frv. óþarft og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég tel, að hver sú sveitar- og bæjarstjórn, sem álítur, að þeir, sem eiga fasteignir, fari betur út úr útgjöldum en sanngjarnt er, geti hækkað hjá þeim, en ef á að samþ. svona helmild varðandi hækkun smærri útgjalda, er hætt við, að það yrði rótfast og kæmi oft illa við að mínu áliti.