18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka hv. meiri hl. fjhn. fyrir afgreiðslu þessa máls. — Út af því, sem hér hefur fallið frá hv. 2. þm. Reykv., sem mér virtist nú erfitt að henda reiður á, því að í öðru orðinu var hann með frv., en var samt á móti því, og sérstaklega út af dagskrártill. hv. þm. A-Húnv., vil ég segja það, að þetta frv. er borið fram samkvæmt ósk bæjarstjórnar Akureyrar, og ég vil yfirleitt hafa þá reglu, þegar bæjarstjórnir koma með einhverjar till., sem mér virðast skynsamlegar og þær eiga að vita bezt hvort henta þeim, að láta þær þá ráða. Bæjarstjórn Akureyrar hefur óskað eftir þessari heimild, af því að hún telur það heppilegra við álagningu gjalda, og undrast ég, ef menn eru á móti því að leyfa slíkt. Ég er ekki svo spenntur fyrir sentraliseringu, að ég vilji ekki leyfa einstökum landshlutum að fara sínar leiðir.

Ég vil ekki blanda umræðum um endurskoðun fasteignamatsins inn í þessar umr., það yrði aðeins til að lengja umr. og snertir þetta mál ekkert. Það, sem við hér erum að ræða, er heimild, sem bæjarfélögin mega nota, ef þau telja það rétt, og held ég, að það sé bezta lausnin. Vil ég svo ekki blanda hér inn í umr. um mál, sem búið er að afgreiða á þessu þingi.